Eftir nokkurn samdrátt í fjölda ferðafólks til landsins á fyrri árshelmingi 2024 rættist úr á seinni helmingi ársins. Vísbendingar eru þó um að ferðaþjónustuaðilar hafi brugðist við slökum fyrri árshelmingi með því að lækka verð á þjónustu þegar kom fram á sumarið og kann arðsemi í greininni að hafa skroppið saman milli ára. Miðað við talningu Isavia og Ferðamálastofu komu þannig 2,26 milljónir ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll í fyrra, sem jafngildir ríflega 2% fjölgun á milli ára.
Vísbendingar um fjöldaþróun ferðafólks á þessu ári eru nokkuð misvísandi. Til að mynda benda leitargögn frá Google til heldur minni áhuga á Íslandsferðum á næstunni en að jafnaði í fyrra. Á móti má benda á nýlegar spár Isavia og Ferðamálastofu sem hljóða upp á hóflega fjölgun í ár.