Stoðum undir útflutningsvöxt fjölgar

Útlit er fyrir að hinar hefðbundnu útflutningsgreinar þjóðarbúsins vaxi hóflega á komandi misserum. Nýir geirar taka við keflinu sem helstu drifkraftar vaxtar í útflutningstekjum. Horfur eru á þokkalegum vexti heildarútflutnings eftir hóflegan samdrátt í fyrra.


Eftir nokkurn samdrátt í fjölda ferðafólks til landsins á fyrri árshelmingi 2024 rættist úr á seinni helmingi ársins. Vísbendingar eru þó um að ferðaþjónustuaðilar hafi brugðist við slökum fyrri árshelmingi með því að lækka verð á þjónustu þegar kom fram á sumarið og kann arðsemi í greininni að hafa skroppið saman milli ára. Miðað við talningu Isavia og Ferðamálastofu komu þannig 2,26 milljónir ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll í fyrra, sem jafngildir ríflega 2% fjölgun á milli ára.

Vísbendingar um fjöldaþróun ferðafólks á þessu ári eru nokkuð misvísandi. Til að mynda benda leitargögn frá Google til heldur minni áhuga á Íslandsferðum á næstunni en að jafnaði í fyrra. Á móti má benda á nýlegar spár Isavia og Ferðamálastofu sem hljóða upp á hóflega fjölgun í ár.

Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er meðal annars fjallað um horfur í ferðaþjónustu á komandi misserum. Við gerum ráð fyrir lítilsháttar fjölgun ferðamanna til landsins í ár þótt þar sé ekki á vísan að róa. Stóra myndin virðist svo vera sú að greinin hafi slitið barnsskónum og hóflegur vöxtur sé framundan. Þar verður áherslan trúlega ekki síst á hámörkun virðisauka, hagræðingu í rekstri og að viðhalda markaðshlutdeild í harðri alþjóðlegri samkeppni um norðurslóðaferðamenn. Þannig hljóðar spá okkar upp á tæplega 2% fjölgun ferðamanna í ár og 3-4% fjölgun hvort áranna 2026 og 2027.

Stoðum fjölgar á útflutningshlið

Ólíkt því sem gilti lengst af undanfarin 15 ár eða svo verður ferðaþjónustan trúlega ekki leiðandi í þróun útflutningstekna á spátímanum. Í staðinn lítur út fyrir að ýmsir geirar sem hafa verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár taki við því kefli.

Hugverkaiðnaður er samheiti yfir ýmsar atvinnugreinar í vöru- og þjónustuútflutningi sem byggja á mannauði, rannsóknum og þróun. Geirinn spannar allt frá lyfjaframleiðslu til gagnavera, tölvuleikjagerðar og framleiðslu á sjónvarpsþáttum og kvikmyndum  Ágætt yfirlit yfir helstu hagstærðir og umsvif geirans er að finna á vef Samtaka iðnaðarins. Hann hefur vaxið hratt undanfarin ár. Á árinu 2023 námu heildar útflutningstekjur slíkra fyrirtækja 264 ma.kr. samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Nýleg áætlun Samtaka iðnaðarins hljóðar upp á að slíkar tekjur hafi vaxið í ríflega 320 ma.kr. á síðasta ári og greinin sé því komin upp að hlið sjávarútvegs og álvinnslu hvað hlutdeild í heildar útflutningstekjum varðar. Horfur eru áfram á allmyndarlegum vexti slíkra útflutningstekna á spátímanum og skrifast drjúgur hluti heildarvaxtar útflutningstekna í þjóðhagsspá okkar á aukin umsvif þessa geira.

Ýmsir kostir fylgja því að hugverkaiðnaðurinn leggi svo drjúgt til útflutningsvaxtar. Til að mynda er framleiðni hærri í hugverkaiðnaði en að jafnaði í hagkerfinu, sem svo aftur leiðir til þess að laun eru almennt hærri í geiranum en gengur og gerist samkvæmt Samtökum iðnaðarins. Þá leiðir aukinn fjölbreytileiki í útflutningstekjum, bæði innan hugverkageirans og eins sé hann borinn saman við aðrar stoðir útflutnings, til þess að minni hætta er á að einstakar breytingar á ytri aðstæðum verði til þess að draga skarpt úr útflutningstekjum og veikja krónuna umtalsvert á skömmum tíma.

Þá stendur veruleg uppbygging yfir í fiskeldi hér á landi, ekki síst landeldi. Í fyrra skilaði greinin nærri 54 ma.kr. útflutningstekjum skv. Hagstofunni. Þótt trúlega verði uppbygging á næstu árum hægari en ýtrustu áætlanir hljóða upp á gerum við ráð fyrir því að talsvert muni um greinina í vexti útflutningstekna á spátímanum.

Horfur á þokkalegum útflutningsvexti

Útflutningur vöru og þjónustu skrapp saman um ríflega 2% á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs. Loðnubrestur, skömmtun á raforku til álvera og slakur 2. ársfjórðungur í ferðaþjónustu vógu hvað þyngst í samdrættinum. Á heildina litið gerum við ráð fyrir að útflutningur hafi minnkað um 1% í magni talið í fyrra frá árinu áður. Allgóður lokafjórðungur ársins í ferðaþjónustu ásamt vaxandi útflutningi eldisfisks og afurða hugverkaiðnaðar vógu á móti fyrrnefndum þáttum en lítilsháttar samdráttur varð þó trúlega bæði í útflutningi á vörum og þjónustu.

Hins vegar er útlit fyrir þokkalegan vöxt útflutnings bæði í ár og næstu tvö ár. Vaxandi þjónustuútflutningur á þar drjúgan þátt en sem fyrr segir verða trúlega aðrir þjónustugeirar drýgri en ferðaþjónustan að knýja þann vöxt. Þá eru einnig horfur á því að vöruútflutningur glæðist á nýjan leik. Þar má til að mynda nefna til sögu aukinn útflutning á ýmsum afurðum hugverkaiðnaðar ásamt meiri útflutningi eldisafurða. Alls áætlum við að útflutningur vaxi um tæp 3% í ár og nærri 4% hvort áranna 2026 og 2027.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband