Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Þrálát verðbólga, háar verðbólguvæntingar og talsverð seigla í hagkerfinu munu trúlega verða til þess að peningastefnunefnd Seðlabankans staldri við og haldi vöxtum óbreyttum í ágúst.


Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum í 7,50% í næstu vaxtaákvörðun bankans sem birt verður í næstu viku, miðvikudaginn 20. ágúst. Nefndin hefur lækkað vexti fimm ákvarðanir í röð um samtals 1,75 prósentustig. Stýrivextir voru 9,25% þar til nefndin hóf að lækka vexti í október í fyrra og eru þeir nú 7,50%.

Á síðasta fundi nefndarinnar í maí lækkaði nefndin vexti um 0,25% en í yfirlýsingunni sjálfri var fremur harður tónn sleginn. Þar kom meðal annars fram að vextir yrðu ekki lækkaðir frekar nema verðbólga myndi færast nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það hefur ekki raungerst, verðbólga hefur reynst þrálát og ekki útlit fyrir hjöðnun hennar á næstunni. Auk þess mælast verðbólguvæntingar enn háar og talsverð seigla hefur verið í hagkerfinu. Vegna þessa teljum við að nefndin muni staldra við að þessu sinni og halda vöxtum óbreyttum.

Verðbólga þrálát við vikmörkin

Frá vaxtaákvörðuninni í maí hefur ársverðbólga lítið breyst. Í síðustu vaxtaákvörðun var peningastefnunefnd með apríltölur til hliðsjónar og þá var ársverðbólga 4,2%. Nú í júlí mældist ársverðbólga 4,0% sem eru þær verðbólgutölur sem nefndin mun hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína. Miðað við nýja verðbólguspá okkar í Greiningu er ekki útlit fyrir að verðbólga muni hjaðna á næstunni. Spáð er aukningu í árstaktinum á næstu mánuðum og að verðbólga verði 4,4% í árslok. Aftur á móti er gert ráð fyrir hjöðnun verðbólgunnar niður fyrir vikmörkin í apríl á næsta ári.

Í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans frá því í maí var spáð að meðaltali 4% verðbólgu út árið og eftir það taki hún að hjaðna hægt og bítandi að markmiði. Í yfirlýsingu nefndarinnar frá síðasta fundi stendur: „Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. Þær aðstæður hafa ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi vaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5% markmiði bankans.“

Raunar var enn fastar að orði kveðið á kynningarfundi í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar um að talsverða hjöðnun verðbólgu þyrfti til að vextir yrðu lækkaðir enn frekar. Miðað við verðbólguspá Seðlabankans var frekari vaxtalækkun því svo gott sem slegin út af borðinu nema verðbólga myndi hjaðna hraðar en spá Seðlabankans gerði ráð fyrir.

Þróun annarra verðbólgumælikvarða eru peningastefnunefndinni vafalaust líka nokkurt áhyggjuefni. Eins og sjá má á myndinni mældist undirliggjandi verðbólga í júlímánuði meiri á alla mælikvarða en í maí. Þjónustuverðbólga hefur einnig aukist sem má rekja að mestu til þróun launakostnaðar. Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 8,2% frá júní í fyrra fram til síðastliðins júnímánaðar.

Verðbólguvæntingar enn háar

Verðbólguvæntingar hafa einnig mælst háar. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur verið þrálátt og álagið á þá kvarða ekki lækkað í samræmi við 1,75% lækkun stýrivaxta frá því í fyrrahaust. Þegar Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferlið var til að mynda 2ja ára verðbólguálag um 3,7%, 5 ára álag 3,8% og 10 ára álag 3,9% en þegar þetta er skrifað er álag til 2ja ára um 3,4% og álagið 3,9% til bæði 5 og 10 ára. 2ja ára álagið hefur því lækkað aðeins, en 5 og 10 ára álagið hefur ýmist hækkað eða staðið í stað. Við túlkun á verðbólguálaginu þarf þó að taka áhættuálag inn í myndina.

Nýjustu kannanir Gallup á verðbólguvæntingum heimila og fyrirtækja voru framkvæmdar í maí og júní síðastliðnum. Í niðurstöðum þeirrar könnunar eru verðbólguvæntingar til lengri tíma óbreyttar frá síðustu könnun sem framkvæmd var á fyrsta ársfjórðungi 2025. Stjórnendur fyrirtækja telja sem fyrr að verðbólga verði að jafnaði 3,5% næstu 5 ár en heimilin telja að verðbólga verði 4% á sama tímabili. Væntingar þessara aðila til meðalverðbólgu næstu 2 ár héldust óbreyttar milli kannana þar sem stjórnendur telja verðbólguna vera 3,5% en heimilin 4,0%. Hins vegar lækkuðu verðbólguvæntingar heimila til 1 árs úr 5,0% í 4,3% á meðan væntingar stjórnenda fyrirtækja héldust óbreyttar í 4,0%.

Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum úr væntingakönnun markaðsaðila sem Seðlabankinn framkvæmir vænta markaðsaðilar lítillega meiri verðbólgu á næstu ársfjórðungum miðað við síðustu könnun sem framkvæmd var í maí. Samhliða því telja markaðsaðilar að meginvextir Seðlabankans verði óbreyttir í 7,5% út árið en í maí töldu markaðsaðilar að vextirnir yrðu lækkaðir í 6,75% fyrir árslok. Væntingar markaðsaðila til verðbólgu til eins árs, 5 og 10 ára breytast þó lítið á milli kannana. Markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði að jafnaði 3,4% eftir eitt ár og 3% næstu 5 ár og 10 árin.

Tekið saman virðast væntingar um verðbólgu vera nokkuð þrálátar á flesta mælikvarða og enn talsvert hærri en samrýmist 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það hlýtur að draga úr vilja peningastefnunefndar til að slaka á peningalegu aðhaldi að öðru óbreyttu.

Seigla í hagkerfinu þrátt fyrir hátt vaxtastig

Frá síðustu vaxtaákvörðun í maí birtust þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta fjórðung ársins auk þess sem Hagstofan endurskoðaði þjóðhagsreikninga langt aftur í tímann. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var hagvöxtur 2,6% á fyrsta fjórðungi ársins. Það er meiri vöxtur en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í Peningamálum í maí þó tekið sé tillit til þess að Hagstofan endurskoðaði hagvaxtartölur frá því í fyrra. Töluverður þróttur virðist vera í innlendri eftirspurn og nýleg gögn á borð við kortaveltu, nýskráningar bifreiða og utanlandsferðir benda til áframhaldandi neyslugleði landans. Það virðist því talsverð seigla vera í hagkerfinu þrátt fyrir hátt vaxtastig.

Hvenær verða vextir lækkaðir?

Peningastefnunefnd hefur nefnt að raunstýrivextir hafi haldist í 4% undanfarið sem væri hæfilegt raunvaxtastig til að ná verðbólgu í markmið. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu mælast um 3,4% og hafa aðeins lækkað frá því í maí þegar þeir voru um 3,6%. Miðað við verðbólguspár næstu mánuði er útlit fyrir lægra raunvaxtastig á þann mælikvarða. Eins og fram hefur komið hefur verðbólguálag og væntingar ekki lækkað í samræmi við stýrivaxtalækkanir og hafa haldist á nokkuð svipuðum slóðum frá síðustu ákvörðun. Miðað við þessa þróun er ólíklegt að peningastefnunefndin slaki á taumhaldinu í næstu viku.

Peningastefnunefnd sagði í yfirlýsingu sinni í maí að frekar vaxtalækkunarskref væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Við teljum ólíklegt að vextir verði lækkaðir frekar á þessu ári í ljósi framangreindrar þróunar, nema þá ef verðbólga og verðbólguvæntingar láti talsvert undan síga á komandi fjórðungum, eða þá að efnahagshorfur snúist talsvert til verri vegar. Við gerum því ráð fyrir að vextir verði óbreyttir í 7,5% út þetta ár. Á næsta ári hefjist svo vaxtalækkunarferlið á ný með hjaðnandi verðbólgu en trúlega mun lækkun vaxta verða fremur hæg nema efnahagshorfur versni til muna.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.