Skuldabréf: Þrálátari verðbólga og tafir á stýrivaxtalækkun í kortunum?

Þróun á skuldabréfamarkaði undanfarnar vikur endurspeglar bæði væntingar um hærri raunvexti og þrálátari verðbólgu á komandi misserum en raunin var í upphafi marsmánaðar. Meiri þróttur á íbúðamarkaði og vinnumarkaði er trúlega meðal áhrifaþátta þar á. Líkur hafa aukist á því að vaxtalækkunarferli Seðlabankans tefjist fram yfir sumarið.


Eftir linnulitla hækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði frá miðjum síðasta mánuði hefur krafa ríkisbréfa lækkað nokkuð að nýju síðustu daga. Til að mynda hækkaði krafa lengsta óverðtryggða ríkisbréfaflokksins, RIKB42, sem er með lokagjalddaga eftir 18 ár úr rétt rúmlega 6,0% í 6,6% frá 8. mars til 15. apríl sl. Krafa þessa flokks, sem endurspeglar langtíma grunnvexti á Íslandi, endaði síðustu viku í 6,4% miðað við kaupkröfu. Svipaða sögu er að segja um kröfu annarra markflokka ríkisbréfa.

Þróunin frá því snemma í mars er viðsnúningur eftir þá lækkun ávöxtunarkröfu á markaði sem varð á lokamánuðum síðasta árs og upphafsmánuðum þessa árs. Sumpart endurspeglar hún væntanlega breyttar væntingar um þróun raunvaxta en einnig móta væntingar markaðsaðila um verðbólguhorfur á komandi árum ávöxtunarkröfuna að talsverðum hluta.

Hærri raunvextir eða hærra verðbólguálag?

Til að glöggva sig á vægi þessara tveggja þátta innbyrðis er gagnlegt að skoða þróun ávöxtunarkröfu á verðtryggðum ríkisbréfum í samhengi við þau óverðtryggðu. Þar hefur vissulega orðið keimlík sveifla og í óverðtryggðu bréfunum en sveiflan þó verið talsvert hófstilltari undanfarna fjórðunga.  

Eins og myndin sýnir hækkuðu langtíma raunvextir á markaði verulega frá miðju síðasta ári fram til ársloka þótt nokkur viðsnúningur hefði orðið á þeirri þróun á síðustu vikum 2023. 10 ára verðtryggð krafa ríkisbréfa var til að mynda 2,1% um mitt síðasta ár en hafði hækkað í 2,8% um síðustu áramót. Í byrjun mars fór krafa slíkra bréfa svo lægst í 2,5% en stendur nú í 2,7%. Langtíma raunvextir eru því nokkuð háir á þennan mælikvarða eftir að hafa farið niður undir 0% snemma á faraldurstímanum.

Mismunandi þróun verðtryggðra og óverðtryggðra grunnvaxta á skuldabréfamarkaði hefur svo endurspeglast í þróun verðbólguálags á markaði, en slíkt verðbólguálag er einn þeirra þátta sem peningastefnunefnd Seðlabankans horfir hvað helst til sem mælikvarða á langtíma verðbólguvæntingar.

Langtíma verðbólguálag um mánaðamótin febrúar-mars var lægra en það hafði verið um nokkra hríð. Til að mynda var 10 ára verðbólguálagið þá 3,6% og hafði ekki verið lægra frá haustinu 2022. Síðan hefur heldur sigið á ógæfuhliðina og er 10 ára álagið nú 4,0%.

Til að gera langa sögu stutta endurspeglar hækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa, og þar með langtíma grunnvaxta, undanfarnar vikur bæði væntingar um hærri raunvexti og meiri verðbólgu á komandi árum. Um þriðjungur hækkunarinnar skýrist af hærri raunvöxtum en tveir þriðju hlutar endurspegla hærri verðbólguvæntingar ef horft er til 10 ára. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Seðlabankann, en í fundargerð eftir vaxtaákvörðunina 20.mars kom fram að meðlimir peningastefnunefndar töldu að:

„Skýrar vísbendingar þyrftu að koma fram um að verðbólga væri augljóslega á niðurleið til að hægt væri að lækka vexti og mikilvægt að vaxtalækkun hæfist á trúverðugum tímapunkti.“

Seinkar vaxtalækkunarferlinu?

En hvað skýrir mögulega þessa þróun ávöxtunarkröfu, og þar með langtíma raunvaxta og verðbólguálags á markaði? Hér eru nokkrir mögulegir áhrifaþættir:

  • Síðustu mælingar HMS og Hagstofu á íbúðaverði sýna talsverðar hækkanir milli mánaða. Sérfræðingar HMS hafa auk þess áhyggjur af framboðsskorti á komandi misserum. Virðast kaupendur auk þess í vaxandi mæli leita í verðtryggð íbúðalán til þess að geta fjármagnað íbúðakaup sín með viðunandi greiðslubyrði auk þess sem spurn Grindvíkinga eftir nýju húsnæði er farin að koma fram á markaði.
  • Nokkur óvissa er tengd áhrifum breytinga á útreikningi reiknaðrar húsaleigu í vísitölu neysluverðs í júní nk. á þróun þessa liðar, sem vegur töluvert þungt í verðbólgumælingum Hagstofu. Á það hefur verið bent að hlutfall íbúðaverðs og leiguverðs hafi hækkað talsvert síðustu misseri og að hætta sé á að aðlögun að langtímajafnvægi geti falið í sér allnokkra hækkun leiguverðs umfram íbúðaverð. Við teljum breytinguna heilt á litið til bóta, leiða til betra samræmis við verðbólgumælingar annarra landa og líklega til að minnka sveiflur í þessum lið. Því verður þó ekki neitað að tímasetning breytingarinnar gæti reynst óheppileg í ljósi ofangreindrar þróunar.
  • Vinnumarkaður hefur sýnt meiri seiglu undanfarið en ýmsir væntu. Enn mælist allnokkur skortur á vinnuafli og atvinnuleysi er lítið í sögulegu ljósi þótt það hafi aðeins mjakast upp á við.
  • Væntingar um vaxtaþróun í sumum lykilhagkerfum hafa breyst nokkuð undanfarið. Þar má sér í lagi benda á Bandaríkin þar sem dregið hefur úr væntingum um verulega lækkun stýrivaxta fyrir árslok og langtímavextir þar í landi hækkað í kjölfarið.
  • Síðast en ekki síst voru skilaboð Seðlabankans við síðustu vaxtaákvörðun ekki sérlega vel til þess fallin að slá á verðbólguvæntingar. Gerði bankinn til dæmis minna úr mikilvægi nýlegra kjarasamninga en margir höfðu vænst og þeim mun meira úr því að endurskoðun þjóðhagsreikninga síðustu ára bentu til meiri framleiðsluspennu og hættu á launaskriði en fyrri tölur og spár. Hafi tilgangurinn verið að þrýsta upp raunvaxtastigi og slá á verðbólguvæntingar við síðustu vaxtaákvörðun hefur það ekki tekist nema miðlungi vel.

Að öllu þessu sögðu er skiljanlegt að verðlagning á skuldabréfamarkaði endurspegli nú væntingar um hærra vaxtastig og þrálátari verðbólgu en raunin var fyrr á árinu.

Með því að reikna út svokallaða fólgna framvirka kröfu út frá vaxtaferli óverðtryggðra ríkisbréfa má fá ákveðna nálgun á vaxtavæntingar á komandi árum þótt þættir á borð við áhættufælni, eftirspurn og framboð á markaði spili einnig inn í. Með slíkri túlkun má álykta að markaðsaðilar búist við að stýrivextir lækki um 0,5 prósentur fram til loka fyrsta ársfjórðungs 2025 1 prósentu til viðbótar næstu 4 fjórðunga þar á eftir og 0,75 prósenta lækkun frá vordögum 2026 fram til vetrarloka 2027. Eins og sjá má af myndinni er um töluvert hægara vaxtalækkunarferli en við höfum gert ráð fyrir í nýlegum spám en þar verður þó að setja fyrrnefnda fyrirvara við því að túlka tölurnar of bókstaflega.

Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður þann 8. maí næstkomandi. Í bráðabirgðaspá okkar eftir síðustu vaxtaákvörðun gerðum við ráð fyrir því að vaxtalækkunarferli myndi hefjast í maí. Því er þó ekki að neita að líkur hafa minnkað á því að hafist verði handa við lækkun stýrivaxta fyrir sumarið og vaxandi óvissa er að okkar mati um hversu mikið stýrivextir muni lækka fram til áramóta.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband