Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Sjö flugferðir til London

Samkvæmt samantekt CIRCULAR Solutions hefur græni skuldabréfamarkaðurinn komið að verkefnum sem draga úr útblæstri sem samsvarar 391 þúsund tonnum af koltvísýringi.


Fyrsti græni skuldabréfasjóður landsins var stofnaður seint á árinu 2018.

Þar með varð til raunhæfur kostur fyrir þá sem vilja leggja áherslu á umhverfismál með sparnaði en slíkt hafði aðeins verið á færi stærri fjárfesta á Íslandi.

Fyrr um árið hafði Landsvirkjun fyrst íslenskra fyrirtækja gefið út fyrsta grænt skuldabréf í Bandaríkjunum til að fjármagna umhverfisvæna starfsemi sína. Jafnframt opnaði kauphöllin á Íslandi á skráningu á sjálfbærum skuldabréfum sumarið 2018. Því voru komnar ágætar forsendur fyrir því að íslenskur markaður með græn skuldabréf gæti farið af stað.

Þó hafði enginn gefið út slíkt skuldabréf í íslenskum krónum og því fáir fjárfestingakostir fyrir hinn nýstofnaða sjóð. Í fjárfestingastefnu hans var þó tilgreint að þangað til að úrvalið ykist fjárfesti græni skuldabréfasjóðurinn í ríkisbréfum. Hugmyndin var að fá fjárfesta til að leggjast á árarnar og sýna fram á að áhugi væri til staðar. Jafnframt væru fyrirtæki og stofnanir hvattar til að skoða græna útgáfu í ljósi þess að kaupendur væru áhugasamir.

Sjóðurinn var í upphafi 2,8 milljarðar sem ætlað var í græn skuldabréf meðal annars til að örva fyrirtæki og stofnanir til að fjármagna úrbætur í umhverfismálum.

Í fjárfestingastefnu sjóðsins var skýrt tekið fram að hann ætti að hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar og samfélag og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Sparifjáreigendum sem legðu áherslu á umhverfis- og samfélagsmál væri þannig boðinn skýr valkostur án þess að slaka á kröfu um langtímaávöxtun.

Þróun markaðarins í kjölfar stofnunar græna sjóðsins fór fram úr björtustu vonum. Bæði tóku fjárfestar við sér en ekki síst stórir útgefendur. Nú tveimur árum seinna hafa fimm aðilar gefið út græn skuldabréf og einn félagslegt. Heildarfjárhæð þeirra er tæpir 90 milljarðar króna og enn fleiri hafa hug á að taka þátt á næstu misserum. Fjármögnuð verkefni sjáum við allt í kring um okkur og bera vott um metnað íslensks markaðar í umhverfismálum.

Landsvirkjun fjármagnaði frekari framleiðslu á umhverfisvænni orku á Þeistareykjum og Búrfelli með útgáfu grænna skuldabréfa. Orkuveitan fjármagnaði orkuinnviði, verkefnið Carbfix sem gengur út á að dæla koltvísýringi aftur niður í jarðlög hjá Hellisheiðarvirkjun og uppbyggingu og rekstur jarðvarmavirkjana. Reykjavíkurborg hefur heitið fjármagni m.a. í hjólastíga, grænar byggingar, umhverfisvænar samgöngur og lausnir til að auka orkunýtingu. Reginn, sem er fyrsti innlendi einkaaðilinn til að gefa út græn skuldabréf, fjármagnaði byggingar með umhverfisvottun.

Áhugi fjárfesta á grænum skuldabréfum hefur jafnframt aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Fimm hundruð aðilar hafa nú þegar lagt peninga í græna sjóðinn og hafa síðan 2018 notið framúrskarandi ávöxtunar ásamt því að fá óháð mat þriðja aðila á því hvaða áhrif fjárfestingar þeirra hafa haft. Samkvæmt samantekt CIRCULAR Solutions, sem er íslenskt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í sjálfbærni, hefur græni skuldabréfamarkaðurinn komið að verkefnum sem draga úr útblæstri sem samsvarar 391 þúsund tonnum af koltvísýringi.

Kvöðin um jákvæð umhverfisáhrif virtust ekki koma niður á ávöxtun sem hefur verið góð samhliða almennri lækkun vaxta. Árið 2019 skilaði IS Græn skuldabréf 7,9% ávöxtun eða 4,9% raunávöxtun og stækkaði í 3,8 milljarða. Þar að auki studdi sjóðurinn verkefni útgefenda sem drógu úr losun koltvísýrings sem nemur 8.100 tonnum árið 2019. Ávöxtun á fyrstu sex mánuðum þessa árs lofar einnig góðu og vex græni markaðurinn og dafnar.

Góð leið til að láta til sín taka í umhverfismálum

Nú í haust munu Íslandssjóðir með aðstoð CIRCULAR Solution í fyrsta skipti gefa út skýrslu sem lýsir áhrifum fjárfestinga græna skuldabréfasjóðsins út frá umhverfisþáttum. Hún fjallar ekki um hver áhrifin verða næstu áratugina heldur hverju var áorkað á síðasta ári, því betri er fugl í hendi en tveir í skógi. Er það gert til að auka gagnsæi og gefa fjárfestum vissu fyrir því að fjármunum þeirra sé varið til samræmis við fjárfestingastefnu. Þannig geta fjárfestar fengið upplýsingar um hvaða verkefnum sjóðurinn leggur lið og séð svart á hvítu hver áhrif þeirra voru.

Til gamans má geta að einstaklingur sem setti 1 milljón króna  í sjóðinn í upphafi árs 2019 fékk góða ávöxtun og stuðlaði að því að útblástur koltvísýrings var 2,3 tonnum minni en ella hefði orðið. Það samsvarar 7 flugferðum til London eða 8 hringferðum um Ísland.

Þó svo að markmiðið ætti alltaf fyrst og fremst að vera að minnka sitt eigið kolefnisspor er gott til þess að vita að sparnaðurinn sé nýttur í slík verkefni í almennri viðleitni til að láta gott af sér leiða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Höfundur


Brynjólfur Stefánsson

Sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum


Senda tölvupóst

Fyrir­varar

Almennur fyrirvari vegna fjárfestinga í sjóðum

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á lítilli eða engri ávöxtun eða að höfuðstóll tapist. Ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð. Áhætta af fjárfestingu eykst ef fjárfestingin er fjármögnuð með lánsfé og ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts þegar við á. Skattaleg meðferð ræðst af aðstæðum hvers viðskiptavinar fyrir sig og getur tekið breytingum í framtíðinni.

Fjárfestar eru hvattir til að kynna sér vel lykilupplýsingar og útboðslýsingar sjóða en þar er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættuþætti, fjárfestingarheimildir og notkun afleiðna. Fjárfestingarsjóðir hafa víðtækari fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir og geta því verið áhættusamari fjárfesting. Upplýsingar um sjóðina eru fengnar frá Íslandssjóðum hf., rekstrarfélagi sjóðanna sem er dótturfélag Íslandsbanka hf.

Upplýsingar á síðunni eru aðeins birtar í upplýsingaskyni og skal ekki líta á þær sem tilboð eða ráðgjöf um kaup, sölu eða aðra ráðstöfun tiltekinna fjármálagerninga. Upplýsingarnar byggja á heimildum sem eru taldar áreiðanlegar en ekki er hægt að ábyrgjast nákvæmni né réttmæti þeirra. Áskilinn er réttur til leiðréttinga.

Gengisþróun og ávöxtun

Tekið er tillit til umsýsluþóknunar við daglegan útreikning á gengi sjóða. Ávöxtun umfram 12 mánuði er reiknuð yfir á ársgrundvöll. Ávöxtun styttri tímabila er ekki umreiknuð á ársgrundvöll heldur er um gengisbreytingu að ræða. Uppreikningur ávöxtunar miðast við síðasta skráða gengi og er í grunnmynt hvers sjóðs.