Raunvöxtur kortaveltu á fyrsta fjórðungi

Kortavelta heimila jókst á fyrsta fjórðungi ársins leiðrétt fyrir gengi og verðlagi. Það er fimmti ársfjórðungurinn í röð sem veltan eykst að raunvirði og enn fer stór hluti aukningarinnar fram utan landsteinanna. Útlit er fyrir aukna einkaneyslu næstu misseri.


Fyrsti fjórðungur ársins einkenndist af hóflegum vexti kortaveltu heimilanna, leiðrétt fyrir gengi og verðlagi. Eftir sem áður hefur kortavelta utan landsteinanna sótt í sig veðrið en innanlands hefur þó einnig mælst nokkur raunvöxtur síðustu mánuði. Alls nam vöxturinn 1% á ársgrundvelli í mars síðastliðnum og 2,8% á fyrsta ársfjórðungi. Hóflegur vöxtur í mars skýrist trúlega að miklu leyti af tímasetningu páska sem eru seint á ferðinni þetta árið.

Tímasetning páska hefur áhrif

Raunvöxtur kortaveltu heimila utanlands í mars á síðasta ári nam 19,5% á ársgrundvelli þar sem páskar voru seint í mars það árið. Í ár eru páskar seint í apríl og því stór hluti kortaveltu sem færist á milli mánaða og þar með ársfjórðunga. Þrátt fyrir það mældist raunvöxtur kortaveltu heimila bæði hér innanlands jafnt sem erlendis í marsmánuði og á fyrsta ársfjórðungi. Vöxturinn í mars var þó mun hóflegri en mánuðina á undan en innanlands var vöxturinn 1,0% og 1,1% utanlands. Þegar litið er til raunvaxtar á milli ársfjórðunga sjást enn sterk merki um aukna neyslu erlendis en alls jókst kortavelta heimila utanlands um 7,5% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við fyrsta fjórðung síðasta árs. Velta heimila alls jókst því um 1,0% í mars á milli ára og um 2,8% á fyrsta fjórðungi ársins.

Utanlandsferðir Íslendinga voru fleiri í mars í ár en í fyrra miðað við nýjustu tölur Ferðamálastofu þó páska hafi borið að garði í mars á síðasta ári. Raunar þarf að taka gögnum úr brottfarartalningunni með talsverðum fyrirvara líkt og fréttavefurinn ff7 hefur ítrekað bent á. Nýjustu kortaveltutölur benda einnig til þess að skekkja kunni að vera í brottfaragögnunum enda vöxtur kortaveltu erlendis hóflegur í samanburði við áætlaða fjölgun brottfara Íslendinga um Keflavíkurflugvöll.

Framlag kortaveltunnar innanlands á móti kortaveltu erlendis hefur þó haldist nokkuð stöðugt upp á síðkastið þar sem framlag veltu innanlands hefur verið á bilinu 75,9% til 81,5% síðastliðin 2 ár. Í mars síðastliðnum var framlag innlendrar kortaveltu 76,9% og erlendrar 23,1%. Framlag innlendu veltunnar mælist því nálægt sínum lægri gildum um þessar mundir en sú hefur verið raunin síðustu mánuði, að desember undanskildum.

Útlit fyrir að einkaneysla taki við sér á næstunni

Við spáðum því í þjóðhagsspá okkar í janúar að einkaneysla myndi taka við sér á spátímanum. Enn sem komið er teljum við útlit fyrir að sú spá sé nærri lagi en hún hljóðaði upp á 2,7% vöxt á þessu ári, 2,4% árið 2026 og 2,3% árið 2027. Spá Seðlabankans í nýjustu útgáfu Peningamála frá febrúar síðastliðnum er nokkuð áþekk hvað þetta varðar.

Einkaneysla vegur ríflega helming í VLF og hefur því mikið vægi í þróun þjóðhagsreikninga. Á síðasta fjórðungi nýliðins árs jókst einkaneysla um 0,8% að raunvirði. Einnig voru fyrri fjórðungar ársins endurskoðaðir upp á við og mældist til að mynda aðeins lítilsháttar samdráttur í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi en fyrri tölur höfðu hljóðað upp á allsnarpan samdrátt. Þróun ársins var því með mjög líku móti og árið á undan. Alls óx einkaneysla um 0,6% að raunvirði á nýliðnu ári samanborið við 0,5% vöxt árið 2023. Við áætluðum í þjóðhagsspá okkar í janúar síðastliðnum að einkaneysla hefði vaxið um 0,9% á síðasta ári og einkaneysluvöxturinn var því heldur minni en við væntum, að því gefnu að tölurnar verði ekki endurskoðaðar upp á við seinna meir.

Nýlegar væntingakannanir benda þó til aukinnar einkaneyslu á næstunni en væntingar almennings hafa töluverða fylgni við þróun einkaneyslu. Við fjölluðum nýlega um niðurstöður væntingakannana þar sem við bentum m.a. á að hækkun væntingavísitölu Gallup og stórkaupavísitölu gæfu sterka vísbendingu um aukna einkaneyslu um þessar mundir og að svo kynni að verða áfram næstu mánuði.

Nokkrir lykilþættir koma til með að stuðla að aukinni einkaneyslu á næstunni að okkar mati. Aukning í kaupum heimilanna á varanlegum neyslufjármunum þykir okkur líkleg enda á sá þáttur einkaneyslunnar mikið inni, sér í lagi ef vaxtalækkunarferli Seðlabankans heldur áfram. Þegar gefa nýskráningartölur Bílgreinasambandsins til kynna verulega aukningu á kaupum heimila á nýjum bifreiðum það sem af er ári miðað við árið á undan. Þar að auki hafa einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis aukist samkvæmt nýjustu gögnum Hagstofu en kortaveltutölur undirstrika það. Kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna hefur einnig aukist síðustu mánuði samkvæmt gögnum Hagstofu. Við teljum áframhaldandi kaupmáttarvöxt í kortunum samhliða lækkandi verðbólgu og vöxtum. Á móti kemur að það hefur hægt allverulega á fólksfjölgun á fyrsta fjórðungi ársins.

Höfundur


Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband