Á síðustu dögum hafa verið birtar niðurstöður úr væntingakönnunum Gallup meðal heimila og stjórnenda stærri fyrirtækja. Fyrrnefnda könnunin er hin mánaðarlega mæling á Væntingavísitölu Gallup (VVG) ásamt ársfjórðungslegri könnun á fyrirhuguðum stórkaupum almennings. Sú síðarnefnda er hin ársfjórðungslega könnun sem Gallup framkvæmir fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins. Fróðlegt er að rýna í niðurstöður þessara kannana og ráða í hvað þær segja okkur um líklega þróun eftirspurnar í hagkerfinu á næstunni.
Skarpur stígandi var í væntingum heimila til efnahags- og atvinnuþróunar á lokafjórðungi síðasta árs líkt og við fjölluðum um fyrir nokkru. Bjartsýni almennings virðist því hafa aukist samhliða því að Seðlabankinn hóf að lækka vexti og verðbólga hjaðnaði allnokkuð. Það sem af er þessu ári hefur VVG gefið lítillega eftir á nýjan leik en mælist þó áfram nokkuð yfir 100 stiga jafnvægisgildinu sem gefur til kynna að jafn margir svarendur hafi verið bjartsýnir og svartsýnir á stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum.