Aukin bjartsýni meðal heimila og fyrirtækja á nýju ári

Bjartsýni hefur aukist talsvert meðal heimila og stjórnenda stærri fyrirtækja frá því í fyrrahaust. Nýlegar væntingakannanir gefa til kynna að einkaneysla og fjárfesting fyrirtækja kunni að sækja í sig veðrið á komandi fjórðungum. Á sama tíma hefur orðið hlé á lækkun verðbólguvæntinga sem dregur trúlega úr vilja Seðlabankans til hraðrar lækkunar stýrivaxta á næstunni.


Á síðustu dögum hafa verið birtar niðurstöður úr væntingakönnunum Gallup meðal heimila og stjórnenda stærri fyrirtækja. Fyrrnefnda könnunin er hin mánaðarlega mæling á Væntingavísitölu Gallup (VVG) ásamt ársfjórðungslegri könnun á fyrirhuguðum stórkaupum almennings. Sú síðarnefnda er hin ársfjórðungslega könnun sem Gallup framkvæmir fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins. Fróðlegt er að rýna í niðurstöður þessara kannana og ráða í hvað þær segja okkur um líklega þróun eftirspurnar í hagkerfinu á næstunni.

Skarpur stígandi var í væntingum heimila til efnahags- og atvinnuþróunar á lokafjórðungi síðasta árs líkt og við fjölluðum um fyrir nokkru. Bjartsýni almennings virðist því hafa aukist samhliða því að Seðlabankinn hóf að lækka vexti og verðbólga hjaðnaði allnokkuð. Það sem af er þessu ári hefur VVG gefið lítillega eftir á nýjan leik en mælist þó áfram nokkuð yfir 100 stiga jafnvægisgildinu sem gefur til kynna að jafn margir svarendur hafi verið bjartsýnir og svartsýnir á stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum.

Þá bendir nýbirt mæling Gallup á vísitölu fyrirhugaðra stórkaupa einnig til þess að talsverður neysluhugur sé í landanum um þessar mundir. Stórkaupavísitalan lækkar eilítið frá síðasta ársfjórðungi en er samt sem áður í tiltölulega háum gildum miðað við undanfarin misseri. Eins og sjá má af myndinni voru það einkum og sér í lagi aukin fyrirhuguð bifreiðakaup og meiri ferðavilji á erlenda grundu sem leiddu til hækkunar vísitölunnar á seinni hluta síðasta árs. Miðað við nýlegar tölur um nýskráningar bifreiða og brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll hefur almenningur látið kné fylgja kviði í þessum efnum en á báða þessa mælikvarða hefur mælst allnokkur aukning það sem af er ári.

Væntingar almennings hafa töluverða fylgni við þróun einkaneyslu. Þannig virðist hækkun á VVG gjarnan vera fyrirboði um stíganda í einkaneyslu. Svipaða sögu má segja af stórkaupavísitölunni þótt sveiflur í henni séu alla jafna minni en í VVG. Hækkun þessara vísitalna það sem af er ári frá sama tímabili í fyrra er því allsterk vísbending um að einkaneysla færist í aukana um þessar mundir og svo muni verða áfram á næstu mánuðum.

Við spáðum því í janúarlok að einkaneysla myndi vaxa um 2,7% þetta árið. Til samanburðar var einkaneysluvöxturinn einungis 0,6% og einkaneysla á mann dróst því saman. Miðað við framangreindar vísbendingar bendir að okkar mati flest til þess að sú spá sé enn góð og gild.

Brúnin lyftist hjá stjórnendum fyrirtækja

Brúnin hefur líka risið á stjórnendum stærstu fyrirtækja landsins undanfarna fjórðunga ef marka má ársfjórðungslega könnun Gallup á viðhorfum og væntingum þeirra sem framkvæmd er fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann. Meðal stjórnendanna var matið á þáverandi stöðu efnahags- og atvinnulífsins talsvert svartsýnt í fyrrahaust en nú er svo komið að talsvert fleiri telja núverandi efnahagsumhverfi hagfellt en hinir sem sem telja það óhagstætt. Raunar hefur matið á núverandi umhverfi ekki mælst hærra en núna í þrjú ár.

Þá eru ennþá mun fleiri stjórnendur bjartsýnir á horfurnar til næstu 6 mánaða en þeir sem eru svartsýnir. Sú vísitala hefur hins vegar gefið nokkuð eftir frá lokafjórðungi síðasta árs. Kemur fram í frétt SA um niðurstöðurnar að óvissa um horfur varðandi tolla og alþjóðaviðskipti á mælingartímanum kunni að hafa litað niðurstöðurnar. Sé litið til svara helstu atvinnugreina sker sjávarútvegur sig úr hvað varðar mun meiri svartsýni en í öðrum helstu geirum. Einnig eru væntingar meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu- og flutningageiranum fremur dempaðar á meðan stjórnendur fyrirtækja í iðnaði og byggingastarfsemi eru hvað bjartsýnastir á horfur eftir 6 mánuði. Trúlega endurspeglar sá munur þær áskoranir sem virðast vera framundan hjá útflutningsgreinunum á sama tíma og lítið lát virðist vera á eftirspurn innanlands.

Þá virðist talsverður töggur enn vera í vinnumarkaði ef marka má svör við spurningum sem tengjast honum í könnun Gallup. Þó hefur dregið talsvert úr fjölda þeirra fyrirtækja sem telja skort vera á starfsfólki og mælist hlutfall þeirra 23% af heildinni annan fjórðunginn í röð. Þetta hlutfall fór hins vegar hæst í 56% fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Af helstu atvinnugreinum sker byggingariðnaður sig úr en rétt tæpur helmingur fyrirtækja í byggingastarfsemi og veitum segir vera skort á starfsfólki. Á hinum endanum eru svo fyrirtæki í fjármálageiranum en einungis 8% stjórnenda þeirra telja skorta starfsfólk hjá sínu fyrirtæki.

Gallup mælir einnig væntingar um spurn eftir vinnuafli í þessari sömu könnun. Er þá spurt hvort líklegt sé að starfsmönnum fækki, fjölgi eða fjöldinn standi í stað á næstu 6 mánuðum. Dreifingu svara má kjarna með því sem við köllum vísitölu starfsmannahalds, þar sem hlutfall jákvæðra og neikvæðra er vegið saman með svipuðum hætti og þegar Væntingavísitalan er reiknuð.

Grafið hægra megin sýnir þróun þessarar vísitölu ásamt þróun atvinnuleysis samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Eins og sjá má einkenndi nokkuð sterk lækkunarleitni á vísitölu starfsmannahalds tímabilið frá miðju ári 2022 fram á síðasta haust. Síðan þá hefur þessi vísitala hins vegar sótt verulega í sig veðrið á nýjan leik.

Athyglisvert er að bera þessa skörpu sveiflu vísitölunnar saman við þróun atvinnuleysis. Með góðum vilja má greina fylgni milli þróunar hennar og þróunar atvinnuleysis í vinnumarkaðskönnun Hagstofu 1-2 fjórðungum síðar. Nýjustu gildi síðarnefndu mælingarinnar sýna allskarpa aukningu á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Þar ber þó að hafa í huga að mánaðarmælingar á atvinnuleysi með þessari aðferð sveiflast talsvert meira en til að mynda skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun en hjá VMS hefur atvinnuleysið þó einnig verið að þokast upp á við að teknu tilliti til árstíðarsveiflu. Verður fróðlegt að sjá hvort sú þróun snýr við á komandi mánuðum líkt og ætla mætti miðað við nýjustu gildi vísitölu starfsmannahalds.

Seigt í verðbólguvæntingum

En þótt greina megi jákvæð teikn úr nýlegum væntingakönnunum hvað varðar innlenda eftirspurn og vinnumarkað eru meiri blikur á lofti þegar kemur að verðbólguvæntingum. Þannig héldust langtíma verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja meira og minna óbreyttar á milli fjórðunga í nýjustu mælingum sem birtar voru á vef Seðlabankans fyrir nokkru. Vænta heimilin að jafnaði 4% verðbólgu næstu fimm árin en stjórnendur fyrirtækja 3,5% verðbólgu á sama tímabili. Langtímavæntingarnar lækkuðu allnokkuð hjá báðum þessum hópum á lokafjórðungi síðasta árs. Er það peningastefnunefnd Seðlabankans væntanlega talsvert áhyggjuefni að sú þróun skuli ekki hafa haldið áfram á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Samandregið gefa þessar nýlegu væntingakannanir til kynna að innlend eftirspurn kunni að sækja í sig veðrið á ný á komandi fjórðungum eftir hægan vöxt á síðasta ári. Þegar það er sett í samhengi við þrálátt háar verðbólguvæntingar er skiljanlegt að Seðlabankinn vilji fara fetið á næstunni þegar kemur að lækkun stýrivaxta.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst