Á lokavikum nýliðins árs voru birtar niðurstöður úr væntingakönnunum sem gefa ýmsar vísbendingar um hvað nýhafið ár gæti borið í skauti sér hvað efnahagslífið varðar. Nokkur bjartsýni virðist ríkja um efnahagshorfur meðal landsmanna þessa dagana ef marka má þær kannanir. Á það bæði við um almenning og stjórnendur stærri fyrirtækja.
Væntingavísitala Gallup fór í desember síðastliðnum í sitt hæsta gildi í nærri þrjú ár. Frá miðju ári hefur dregið mikið úr svartsýni á efnahags- og atvinnuhorfur hjá íslenskum almenningi og bjartsýni aukist að sama skapi. Til að mynda fór undirvísitalan fyrir mat á núverandi ástandi í efnahagslífinu yfir 100 stiga jafnvægisgildið í desember, í fyrsta skipti frá árslokum 2022. Vísitölugildi yfir 100 endurspegla fleiri jákvæð svör en neikvæð við spurningum Gallup-fólks. Þá hafa væntingar um komandi fjórðunga á sama tíma stigið jafnt og þétt.