Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Opið fyrir umsóknir um stuðningslán og viðbótarlán

Búið er að opna fyrir umsóknir um lokunarstyrk, stuðningslán og viðbótarstuðningslán sem eru hluti af úrræðum ríkisstjórnarinnar sem kynnt voru fyrr í sumar vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Sótt er um þessi úrræði á vefsvæðinu island.is. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar um úrræðin. 


Stuðningslán og viðbótarstuðningslán geta samanlagt hæst orðið 40 milljónir króna, en lúta ýmsum skilyrðum af hálfu ríkisins. Þau eru ætluð fyrirtækjum með ársveltu á bilinu 9 til 1.200 milljónir króna. Afgreiðslutími stuðningslána upp að 10 milljónum króna er 2-3 dagar uppfylli umsækjandi öll skilyrði. Afgreiðslutími viðbótarstuðningslána getur orðið a.m.k. tvær vikur. 

Viðbótarlán, sem ætluð eru stærri fyrirtækjum, eru einnig tilbúin til afgreiðslu hjá Íslandsbanka. Þau eru ætluð fyrirtækjum sem hafa þegar nýtt sér önnur úrræði sem í boði eru. Sótt er um viðbótarlán hér á vef Íslandsbanka.

Til að flýta fyrir afgreiðslu lána eru viðskiptavinir bankans beðnir um að svara áreiðanleikakönnun sem er forsenda fyrir afgreiðslu umsóknar. Könnuninni er svarað hér.

Frestun greiðslna

Fyrirtæki sem þurft hafa á tímabundnu svigrúmi að halda vegna áhrifa af COVID-19 hafa átt möguleika á aðstoð í formi tímabundinnar frestunar afborgana og vaxta af lánum í allt að sex mánuði. Úrræðið gilti upphaflega út júní en hefur nú verið framlengt út september með örlitlum breytingum. 

Íslandsbanki hvetur viðskiptavini sína til að sækja um ofangreind úrræði, þurfi þeir á annað borð á aðstoð að halda. 

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Íslandsbanka. Viðskiptavinir geta einnig haft samband við sinn tengilið eða viðskiptastjóra í bankanum, eða sent tölvupóst á fyrirtaeki@islandsbanki.is.