Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 7,5% eins og þeir hafa verið frá maí síðastliðnum. Allir meðlimir nefndarinnar studdu ákvörðunina. Allar birtar spár hljóðuðu upp á óbreytta vexti og þar lágu einnig væntingar flestra markaðsaðila samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins í síðustu viku.
Óbreyttir stýrivextir en tónninn mildaður aðeins
Seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í morgun en mildaði aðeins framsýna leiðsögn sína. Hagkerfið er að kólna allhratt en þó eru verðbólguvæntingar enn yfir markmiði og launahækkanir töluverðar. Líklega er vaxtalækkunarferli bankans áfram í hléi fram undir vordaga 2026.
Yfirlýsing peningastefnunefndarinnar var stutt og laggóð að þessu sinni. Í henni var þetta helst:
- Verðbólga var 4,1% í september og jókst um 0,3 prósentur frá mánuðinum á undan. Aukningin var fyrirsjáanleg og endurspeglar að töluverðu leyti óhagstæð grunnáhrif.
- Greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið og spennan í þjóðarbúinu hefur hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar.
- Seiglan í þjóðarbúskapnum er þó áfram nokkur, launahækkanir mælast töluverðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað síðustu misseri mælast þær enn yfir markmiði.
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er lítillega breytt frá leiðsögninni í ágúst og hljóðar svo (breytingar feitletraðar):
Margt hefur þokast í rétta átt en þær aðstæður hafa ekki enn skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Til samanburðar var upphaf framsýnu leiðsagnarinnar þannig í ágúst:
Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er enn nokkur verðbólguþrýstingur til staðar. Þær aðstæður hafa því ekki skapast...
Peningastefnunefndin er með öðrum áfram að fastbinda næstu skref peningastefnunnar við hjöðnun 12 mánaða verðbólgunnar líkt og hún hefur gert frá maí síðastliðnum. Við söknum þess raunar að ekki skyldi hnykkt á því í yfirlýsingunni að vextir kynnu að þurfa að hækka á ný ef verðbólguþróun verður óhagstæð. Um það voru þó tekin af öll tvímæli á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina.
Kólnandi hagkerfi en verðbólga til vandræða
Orðið „enn“ í nýju yfirlýsingunni vakti talsverða athygli og á kynningarfundinum voru þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri spurðir um þýðingu þess að orðinu var skotið inn í framsýnu leiðsögnina nú. Svöruðu þeir því til að líklega væri styttra í að vaxtalækkunarferlinu yrði haldið áfram nú en var í ágúst, bæði vegna þess að tíminn hefði liðið en eins þar sem kólnun hagkerfisins væri trúlega heldur hraðari þessa dagana en áður var útlit fyrir.
Ekki var minnst á fall flugfélagsins Play í yfirlýsingu peningastefnunefndar og því ljóst að það hefur ekki vegið ýkja þungt á vogarskálum nefndarinnar nú. Hins vegar bentu þeir Ásgeir og Þórarinn á það á kynningarfundinum að gjaldþrot Play, ásamt öðrum neikvæðum fréttum á borð við versnandi horfur um uppsjávarafla á næsta ári og mótbyr í orkufrekum iðnaði gætu leitt til hraðari kólnunar á vinnumarkaði og í hagkerfinu öllu en áður hafði verið vænst. Þeir settu aftur á móti verulegan fyrirvara við nýlega birta þjóðhagsreikninga Hagstofunnar sem sýndu 1,9% samdrátt vergrar landsframleiðslu (VLF) á öðrum fjórðungi ársins og töldu að endurskoðaðar tölur myndu sýna meiri þrótt í hagkerfinu á fyrri helmingi ársins. Við deilum þeirri skoðun eins og við fórum nýlega yfir í umfjöllun okkar um tölurnar.
Aðspurðir um þýðingu þess að verðbólguvæntingar hafa sáralítið breyst undanfarna fjórðunga tóku þeir Ásgeir og Þórarinn undir það að háar verðbólguvæntingar væru verulegt áhyggjuefni. Hins vegar mætti vænta þess, eins og gjarnan gerist þegar kjölfesta verðbólguvæntinga er löskuð, að væntingarnar myndu láta undan síga þegar verðbólgan sjálf hjaðnaði frekar.
Hvenær lækka stýrivextirnir?
Þar sem hvorki við né Seðlabankinn spáum marktækri hjöðnun verðbólgunnar fyrr en á vordögum 2026 þarf annað af tvennu að koma til svo vextir lækki fyrr:
- Verðbólga þróast með hagfelldari hætti en spáð er og verðbólguvæntingar fylgja í kjölfarið
- Efnahagshorfur versna það mikið að þær hreyfi nálina varðandi verðbólguhorfur/væntingar til meðallangs tíma
Hér er líka vert að hafa í huga að efnahagsþróunin hefur á endanum aðeins áhrif á peningastefnuna að því marki sem hún breytir verðbólguhorfum og verðbólguvæntingum til meðallangs tíma. Öfugt við t.d. bandaríska seðlabankann hefur Seðlabanki Íslands þannig ekki svokallað tvöfalt markmið (e. dual mandate) um að hyggja að vinnumarkaði auk verðbólgumarkmiðsins. Þótt stjórnendur Seðlabankans vænti þess að hægt verði að ná verðbólgu í markmið án harðrar lendingar hagkerfisins tóku þeir fram á fundi morgunsins að ekki væri útséð um hvort það myndi ganga eftir.
Ef heldur fram sem horfir og hvorug sviðsmyndanna hér að ofan raungerist spáum við sem fyrr óbreyttum stýrivöxtum út þetta ár og að vaxtalækkunarferlið hefjist að nýju með hækkandi sól á næsta ári.
Viðbrögð á skuldabréfamarkaði benda til þess að vaxtaákvörðunin og tónninn sem sleginn var á kynningarfundinum hafi lítið komið á óvart. Þegar þetta er ritað (kl.11:30) hefur sáralítil breyting orðið á ávöxtunarkröfu á markaði og velta verið lítil.

