Í frétt Hagstofunnar kemur fram að almenn aukning hafi orðið í innlendri neyslu, m.a. vegna aukinna kaupa heimilanna á þjónustutengdum neysluvörum. Þá fjölgaði nýskráningu bifreiða til heimilanna annan fjórðunginn í röð eftir samdrátt síðustu misseri og útgjöld á ferðalögum landsmanna erlendis jukust allnokkuð.
Óvanaleg deyfð var hins vegar í þróun samneyslu, en hún endurspeglar neyslu sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum á borð við menntun og heilbrigðisþjónustu. Samneysla jókst einungis um 0,3% að raunvirði á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra og hefur ekki vaxið hægar í 9 ár. Þessi liður sveiflast alla jafna minna en aðrir helstu liðir þjóðhagsreikninga og trúlega sækir hann í sitt venjubundna far á ný á komandi fjórðungum, nema þá að Hagstofan endurskoði bráðabirgðatölurnar til meira samræmis við undanfarna fjórðunga.
Engin kreppa á Íslandi
Hvað má þá lesa úr hinum nýbirtu þjóðhagsreikningum ef tekið er tillit til þeirra fyrirvara sem lýst er hér að ofan og hvernig er útlitið fyrir árið í heild?
Við teljum, sem fyrr segir, að tímabundnir þættir og gagnavandamál flæki túlkun á bráðabirgðatölum fyrir 2. ársfjórðung. Samdráttur upp á nærri 2% á fjórðungnum er því ekki til marks um að hagkerfið sé að snöggkólna enda sýna aðrir hagvísar að allnokkur seigla er enn í innlendri eftirspurn.
Hagvöxtur nam 2,7% á fyrsta fjórðungi ársins og var vöxturinn á fyrri árshelmingi því 0,3% að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Þessi hægi vöxtur kemur á hæla 1,0% samdráttar á síðasta ári miðað við endurskoðaðar tölur Hagstofunnar. Sé horft til fyrri hluta áratugarins í heild kemur upp úr dúrnum að VLF mældist 11,3% meiri að raunvirði á síðasta ári en árið 2019. Það svarar til 2,2% hagvaxtar á ári að jafnaði þótt vitaskuld hafi krappur samdráttur og í kjölfarið efnahagsbati og allmyndarleg uppsveifla einkennt tímabilið. Í sögulegu samhengi er slíkur vaxtartaktur tiltölulega hóflegur, sér í lagi ef tekið er tillit til umtalsverðar fólksfjölgunar það sem af er áratugnum.