Umtalsverður halli á utanríkisviðskiptum á fyrri árshelmingi

Þrátt fyrir allmyndarlegan afgang af þjónustuviðskiptum varð mikill vöruskiptahalli til þess að vöru- og þjónustujöfnuður var verulega neikvæður á örðum ársfjórðungi. Útlit er fyrir bata á utanríkisviðskiptum á seinni helmingi ársins.


Nokkuð dró úr afgangi af þjónustuviðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs frá sama tíma í fyrra. Þjónustujöfnuður var jákvæður um tæpa 62 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi en afgangurinn nam tæpum 66 ma.kr. á sama tímabili 2024. Raunar jókst þjónustuútflutningur um 5% á milli ára en 9% vöxtur þjónustuinnflutnings vó þyngra samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar um vöru- og þjónustuviðskipti.

Eins og fyrri daginn var afgangur af ferðalögum, samgöngum og flutningum myndarlegur. Nam afgangurinn af ferðalögum milli landa 46 ma.kr. en afgangur tengdur samgöngum og flutningum 44 ma.kr. Í báðum tilfellum var um lítilsháttar aukningu að ræða milli ára í krónum talið. Halli á öðrum undirliðum þjónustujafnaðarins  nam alls tæpum 28 ma.kr. og vó þar þyngst 21 ma.kr. halli á liðnum Önnur viðskiptaþjónusta sem endurspeglar viðskipti með ýmiskonar sérfræði-, tækni-, og rannsóknarþjónustu milli landa.

Ferðaþjónustan í sókn með hækkandi sól

Ferðaþjónustan vegur þungt í þjónustujöfnuði eins og ofangreindar tölur bera með sér. Á öðrum fjórðungi ársins skilaði greinin alls útflutningstekjum upp á 166 ma.kr. samkvæmt gögnum Hagstofunnar, en það jafngildir tæplega 8% aukningu í krónum talið frá sama tíma í fyrra. Útgjöld Íslendinga vegna ferðalaga erlendis jukust hins vegar um rúm 13% á sama tíma en alls námu slík útgjöld tæpum 77 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins. Ferðagleði landans hefur verið talsverð það sem af er ári og hefur brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll til að mynda fjölgað um nærri 22% ef fyrstu sjö mánuðir þessa árs eru bornir saman við sama tímabil í fyrra.

Viðsnúningur í ferðaþjónustunni með hækkandi sól eftir slaka ársbyrjun hefur vafalítið verið mörgum léttir innan greinarinnar og setur sá viðsnúningur mark sitt á útflutningstölur 2. fjórðungs. Á fjórðungnum fjölgaði brottförum erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll um ríflega 6% frá sama tíma í fyrra. Þar munaði mestu um rúmlega 10% fjölgun milli ára í júnímánuði eftir tæplega 7% fjölgun milli ára í apríl og 1% fjölgun í maí.

Það veit svo á gott fyrir þjónustuútflutningstölur þriðja fjórðungs að fjölgunin sem einkenndi júnímánuð hefur haldið áfram fram eftir háönninni. Til að mynda rauf brottfaratalning erlendra farþega á Keflavíkurflugvelli 300 þúsund farþega múrinn í fyrsta skipti í júlí síðastliðnum. Þá fóru nærri 302 þúsund erlendir farþegar um völlinn eftir dvöl hérlendis og jafngildir það ríflega 9% fjölgun milli ára.

Raunar verður að setja fyrirvara um nákvæmni þessara talna, bæði vegna þess að erlendir aðilar sem dveljast hér á landi tímabundið eða til langframa án þess að vera eiginlegir ferðamenn teljast til erlendra farþega og eins er einhver hluti farþega sem millilenda hér á landi á ferð sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku hér meðtalinn. Framangreindar tölur gefa þó trúlega allgóða mynd af breiðu dráttunum í fjöldaþróun ferðafólks hingað til lands.

Stoðum undir gjaldeyrisöflun fjölgar

Þótt ferðaþjónustan sé burðarliður í þjónustuútflutningi og hafi endurheimt sæti sitt sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins ber að halda til haga að önnur þjónusta skilar einnig verulegum útflutningstekjum inn í hagkerfið. Þar er ekki síst um að ræða þjónustugreinar sem teljast til hugverkaiðnaðar, til að mynda í hugbúnaðargerð, afþreyingu og rannsókna- og þróunarþjónustu svo nokkur dæmi séu nefnd. Frá júlí í fyrra fram til júní á þessu ári skilaði slíkur útflutningur til að mynda 376 ma.kr. tekjum. Til samanburðar voru útflutningstekjur sjávarútvegs 352 ma.kr. og útflutningstekjur áliðnaðar 340 ma.kr. á sama tímabili. Heildartekjur af erlendum ferðamönnum voru svo 640 ma.kr. á tímabilinu.

Samsetning útflutningstekna þjóðarbúsins hefur tekið umtalsverðum breytingum undanfarin ár og stoðum undir útflutningstekjur fjölgað. Hinar hefðbundnu vöruútflutningsgreinar, sjávarútvegur og ál, sem áður báru uppi öflun útflutningstekna, stóðu þannig samtals að baki 35% heildarútflutnings á fyrrgreindu 12 mánaða tímabili. Ferðaþjónustan skilaði litlu minni heildartekjum á sama tíma, eða 32%. Hlutur annarrar þjónustu í útflutningi var 19% og aðrar vörur en álið og sjávarafurðir skiluðu 14% heildartekna. Alls voru heildar útflutningstekjur þjóðarbúsins rétt um 2.000 ma.kr. á tímabilinu frá miðju ári í fyrra fram til júníloka í ár en þar af skilaði þjónustuútflutningur 1.015 ma.kr. og vöruútflutningur 981 ma.kr.

Batnandi utanríkisviðskiptum er best að lifa

Þótt þjónustuafgangurinn hafi verið myndarlegur á öðrum fjórðungi ársins var hann ofurliði borinn af vöruskiptahalla á sama tíma. Á greiðslujafnaðargrunni nam vöruskiptahalli á fjórðungnum 135 ma.kr. og hefur hallinn aldrei verið meiri í krónum talið. Að hluta til markast þessi methalli af óvenjumiklum innflutningi fjárfestingarvara, ekki síst vegna uppbyggingar á gagnaverum. Þá var útflutningur á vörum öðrum en áli og sjávarafurðum með minna móti á fjórðungnum. Í nýlega birtum Peningamálum Seðlabankans er fjallað um þá þróun. Er það mat Seðlabankafólks að breytingar á bókhaldi Hagstofu hvað varðar skiptingu útflutningstekna lyfjafyrirtækisins Alvotech milli vöru- og þjónustuútflutnings kunni að skýra minni útflutning á lyfjum og lækningavörum en vænst var.

Á fyrri helmingi ársins var halli á vöru- og þjónustujöfnuði alls 140 ma.kr. samanborið við 60 ma.kr. halla á fyrri helmingi síðasta árs. Það er vissulega veruleg breyting til hins verra milli ára en þar ber að hafa í huga að miklar fjárfestingar í gagnaverum lita tölur þessa árs talsvert. Má þar nefna að í samkvæmt Peningamálum telur Seðlabankinn að ef innflutningur tengdur gagnaverunum er undanskilinn muni vöru- og þjónustujöfnuður verða nálægt jafnvægi í ár. Bankinn bendir einnig á að innflutningur á fjárfestingarvörum á vegum gagnavera kallar ekki á aukið gjaldeyrisflæði og myndi því ekki aukinn þrýsting á gengi krónu.

Seðlabankinn birtir í næstu viku tölur um viðskiptajöfnuð til og með annars fjórðungs þessa árs. Þar bætast við ofangreindar tölur gögn um frumþáttatekjur og rekstrarframlög til og frá landinu. Væntanlega mun viðskiptahalli mælast talsverður á fyrri helmingi ársins. Horfur fyrir seinni árshelming eru öllu bjartari vegna háannar ferðaþjónustunnar og útlits fyrir minni vöxt í innflutningi fjárfestingarvara svo nokkuð sé nefnt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband