Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Niðurstöður aðalfundar Íslandsbanka 2021

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, fimmtudaginn 18. mars kl 15:00 í höfuðstöðvum bankans að Hagasmára 3, 201 Kópavogi. Einnig var hægt að fylgjast með fundinum með rafrænum hætti. Hallgrímur Snorrason, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, gerði grein fyrir reikningum félagsins fyrir árið 2020 og helstu þáttum í starfsemi bankans á árinu. Birna fór einnig yfir það að minnisstætt ár væri að baki þar sem viðskiptavinir bankans stóðu frammi fyrir stórum áskorunum á árinu.


Stefnt að sölu og skráningu hlutafjár um mitt ár

Í ávarpi sínu sem formaður stjórnar Íslandsbanka, sagði Hallgrímur árið 2020 hafa verið erfitt á margan hátt. Það var árið sem tekist var á við heimsfaraldur og landið meira og minna lokaðist. Hallgrímur sagði Íslandsbanka í þessu ástandi hafa lagt mikla áherslu á að styðja við fyrirtæki og einstaklinga í samræmi við hlutverk bankans, að vera hreyfiafl til góðra verka. 1.500 heimili og 650 fyrirtæki hefðu nýtt sér úrræði um tímabundin greiðsluhlé og lengingar lána á árinu. Í ljósi mótlætisins vegna heimsfaraldursins sagði Hallgrímur að það yrði að telja að rekstur Íslandsbanka hafi gengið vel á liðnu ári og afkoma verið viðunandi. Hallgrímur fjallaði jafnframt um þær ýmsu ráðstafanir og þá auknu rafrænu þjónustu sem bankinn þurfti að grípa til vegna sóttvarnaraðgerða samfara Covid-faraldrinum og að óhætt sé að segja að faraldurinn hafi flýtt fyrir þróun sem þegar var hafin með rafrænum samskiptum. Hallgrímur gat þess að sjálfbærnimál hefðu verið í brennidepli á árinu, m.a. hafi Íslandsbanki verið fyrsti bankinn til að birta sjálfbæran fjármálaramma og tókust útgáfur grænna skuldabréfa einkar vel í kjölfarið. Hann fjallaði ennfremur um fyrirhugaða skráningu á hlutum bankans. Sagði hann bankann hafa á undanförnum vikum unnið með stjórn og starfsfólki Bankasýslu ríkisins að undirbúningi á skráningu og sölu á hluta af eignarhlut ríkisins í bankanum, sem stefnt er að því að ljúka um mitt þetta ár.

Hallgrímur bar upp tillögur til aðalfundar, sem m.a. fólu í sér að 3,4 milljarðar króna af hagnaði ársins 2020 verði greiddir í arð til ríkisins, breytingu á starfskjarastefnu og stjórn bankans. Að lokum þakkaði Hallgrímur stjórnarmönnum fyrir gott samstarf og þakkaði hann ennfremur stjórn og starfsmönnum Bankasýslu ríkisins fyrir samstarfið á árinu. Loks þakkaði hann stjórnendum og starfsfólki Íslandsbanka fyrir mikla og árangursríka vinnu þeirra á því krefjandi starfsári sem nú er að baki.

Minnisstætt ár að baki en bankinn stóð þétt við bakið á viðskiptavinum sínum

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, gerði grein fyrir reikningum félagsins og helstu þáttum í starfsemi bankans á árinu. Birna fór einnig yfir það að minnisstætt ár væri að baki þar sem viðskiptavinir bankans stóðu frammi fyrir stórum áskorunum á árinu. Á tímabili þurfti að loka útibúum bankans vegna COVID-19 heimsfaraldursins en engu að síður var lögð áhersla á þjónustu við viðskiptavini. Íslandsbanki tók þátt í almennu samkomulagi lánveitenda á Íslandi um að veita þeim viðskiptavinum greiðsluhlé sem á þurftu að halda vegna tímabundins tekjufalls vegna heimsfaraldursins. Einnig veitti bankinn fyrirtækjum stuðnings- og viðbótarlán. Stafræn sókn var mikil á síðasta ári samhliða breyttum aðstæðum en mikil áhersla var lögð á að veita persónulega þjónustu til þeirra sem ekki höfðu tök á að nýta sér þessar lausnir. Í máli Birnu kom einnig fram að stór hluti starfsfólks hafi sinnt vinnu sinni heima á árinu og hafi verkefnamiðuð vinnuaðstaða við flutning höfuðstöðva í Norðurturn komið sér vel. Sjálfbærni er mikilvægur hluti í stefnu bankans og fjallaði Birna stuttlega um helstu verkefni ársins í tengslum við sjálfbærni.

Niðurstöður aðalfundar

Tillögur þær sem lágu fyrir fundinum má finna á heimasíðu bankans:

 1. Skýrsla stjórnar um starfsemi bankans árið 2020
  Hallgrímur Snorrason, stjórnarformaður Íslandsbanka flutti skýrslu stjórnar um starfsemi bankans árið 2020.
 2. Staðfesting ársreiknings fyrir árið 2020
  Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka gerði grein fyrir uppgjöri bankans og helstu þætti í starfsemi hans árið 2020. Hún fór jafnframt stuttlega yfir minnisstætt ár og stefnu bankans árið 2020. Aðalfundur samþykkti í kjölfarið endurskoðaðan ársreikning félagsins vegna ársins 2020.
 3. Tillaga um greiðslu arðs og ráðstöfun hagnaðar bankans á árinu 2020
  Samþykkt var að greiða 3,4 milljarða króna af hagnaði ársins 2020 í arð til hluthafa. Greiðslan samsvarar um 50% af hagnaði ársins 2020 og er í samræmi við langtímastefnu bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfall. Stjórn bankans getur boðað til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram.
 4. Kosning stjórnar- og varamanna
  Í stjórn bankans voru endurkjörin: Anna Þórðardóttir, Árni Stefánsson, Frosti Ólafsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Heiðrún Jónsdóttir og Hallgrímur Snorrason, sem jafnframt var kjörinn formaður stjórnar. Nýr stjórnarmaður sem hlaut kjör var Jökull H. Úlfsson.
  Herdís Gunnarsdóttir og Óskar Jósefsson voru kjörin til áframhaldandi setu í varastjórn bankans.
 5. Kosning endurskoðunarfélags
  Samþykkt var að Ernst & Young yrði áfram endurskoðunarfélag bankans til næsta aðalfundar.
 6. Ákvörðun um laun til stjórnar fyrir næsta kjörtímabil
  Samþykkt var tillaga um laun stjórnarmanna og varamanna.
 7. Tillaga um starfskjarastefnu
  Samþykkt var breytt starfskjarastefna fyrir bankann.
 8. Önnur mál
  Engin önnur mál voru löglega borin upp á fundinum.

Önnur gögn frá aðalfundi má finna á vefsíðu bankans

Hægt er að nálgast skýrslur Íslandsbanka fyrir árið 2020 á vef bankans

Viðhengi

Nánari upplýsingar:


Fjárfestatengsl


Fjárfestatengsl