Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Niðurstöður aðalfundar Íslandsbanka 2020

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, fimmtudaginn 19. mars kl 15:00 í höfuðstöðvum bankans að Hagasmára 3, 201 Kópavogi. Friðrik Sophusson, fráfarandi formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, gerði grein fyrir reikningum félagsins fyrir árið 2019 og helst þætti í starfsemi hans á árinu. Birna fór einnig yfir sterka stöðu bankans í ljósi þeirrar stöðu sem upp væri komin með COVID-19 og helstu ráðstafanir bankans í því skyni.


Efnahagslægð framundan en staða bankans er traust

Í lokaávarpi sínu sem formaður stjórnar Íslandsbanka, vísaði Friðrik í trausta stöðu bankans sem væri  sérstaklega mikilvæg nú þegar hagkerfinu hafi verið reitt þungt högg af COVID-19 faraldrinum. Góðu heilli væru opinberir aðilar, fjármálageirinn, fyrirtækin og heimilin í landinu almennt tiltölulega vel undir slíkt högg búin. Jafnframt nefndi hann að afnám á sveiflujöfnunaraukanum í tvö ár væri mikilvægt framlag til að styrkja stöðu viðskiptabankanna svo þeir geti brugðist við vanda fyrirtækja og almennings í yfirstandandi erfiðleikum. Stjórnvöld þyrftu að fylgja þessu eftir með frekari lækkun á bankaskatti því þrátt fyrir samþykkt Alþingis um lækkun á skattinum í 0,145% á nokkrum árum yrðu skattar á íslenska banka enn um fimm sinnum hærri en í nágrannalöndunum. Núverandi samþykkt lækkun ætti engu að síður að taka gildi strax í ljósi þeirra stöðu sem komin er upp í dag.

Friðrik bar upp tillögur til aðalfundar, sem m.a. fólu í sér að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2019 í ljósi óvissu af völdum fordæmalausra aðstæðna á fjármálamörkuðum, breytingu á starfskjarastefnu og stjórn bankans. Að lokum þakkaði Friðrik fráfarandi stjórnarmönnum fyrir gott samstarf og óskaði  þeim velfarnaðar.

Hallgrímur Snorrason, nýkjörinn formaður stjórnar, þakkaði kjörið og bauð nýja stjórnarmenn velkomna.

Persónuleg í stafrænum heimi

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fór einnig yfir sterka stöðu bankans í ljósi þeirrar stöðu sem upp væri komin vegna COVID-19. Eigin- og lausafjárhlutföll bankans eru sterk og gefa bankanum tækifæri til að vinna að lausnum með þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem á þurfa að halda. Birna fór yfir árangur síðasta árs og framtíðarsýn bankans að vera númer eitt í þjónustu þar sem ein helsta áskorunin sé að vera persónuleg í stafrænum heimi.

Snertingar við viðskiptavini bankans á síðasta ári voru 47 milljónir talsins og voru 99% þeirra stafrænar. Í máli Birnu kom einnig fram að á árinu 2019 hafi verið farið í stefnumótunarvinnu með Boston Consulting Group og eru lykilverkefni þeirrar vinnu langt komin eða lokið. Þar á meðal var innleiðing á nýrri sjálfbærnistefnu sem starfsfólk tók þátt í að móta en nú er unnið að innleiðingu hennar í alla þætti starfseminnar.  

Niðurstöður aðalfundar

Tillögur þær sem lágu fyrir fundinum má finna á vef bankans

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi bankans árið 2019
    Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka flutti skýrslu stjórnar um starfsemi bankans árið 2019.
  2. Staðfesting ársreiknings fyrir árið 2019
    Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka gerði grein fyrir uppgjöri bankans og helstu þætti í starfsemi hans árið 2019.  Hún fór jafnframt stuttlega yfir stefnuáherslur og lykilverkefni bankans árið 2020. Aðalfundur samþykkti í kjölfarið endurskoðaðan ársreikning félagsins vegna ársins 2019.
  3. Tillaga um greiðslu arðs og ráðstöfun hagnaðar bankans á árinu 2019
    Samþykkt var, þrátt fyrir langtímastefnu bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfall, að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2019 í ljósi óvissu af völdum fordæmalausra aðstæðna á fjármálamörkuðum. Jafnframt var samþykkt að stjórn bankans mætti kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu 2020  þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kynni að vera lögð fram
  4. Kosning stjórnar- og varamanna
    Í stjórn bankans voru endurkjörin: Anna Þórðardóttir, Árni Stefánsson, Heiðrún Jónsdóttir og Hallgrímur Snorrason, sem jafnframt var kjörinn formaður stjórnar. Nýir stjórnarmenn sem hlutu kjör voru Flóki Halldórsson, Frosti Ólafsson og Guðrún Þorgeirsdóttir.
    Herdís Gunnarsdóttir var kjörin til áframhaldandi setu í varastjórn bankans. Óskar Jósefsson var kjörinn nýr varamaður í stjórn bankans í stað Pálma Kristinssonar.
  5. Kosning endurskoðunarfélags
    Samþykkt var að Ernst & Young yrði áfram endurskoðunarfélag bankans til næsta aðalfundar.
  6. Ákvörðun um laun til stjórnar fyrir næsta kjörtímabil
    Samþykkt var tillaga um laun stjórnarmanna og varamanna.
  7. Tillaga um starfskjarastefnu
    Samþykkt var framlögð starfskjarastefna
  8. Önnur mál
    Engin önnur mál voru löglega borin upp á fundinum.

Önnur gögn frá aðalfundi má finna á vefsíðu bankans

Hægt er að nálgast skýrslur Íslandsbanka fyrir árið 2019 á vef bankans,

Viðhengi