Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta erlendis á blússandi siglingu

Kortavelta erlendis heldur áfram að bera uppi vöxtinn í kortaveltu landans. Í september dróst kortavelta innanlands saman um 3% að raunvirði á milli ára á meðan kortavelta erlendis jókst um rúm 80%. Ef marka má kortaveltatölur sem og aðra hagvísa er ljóst að einkaneyslan muni halda áfram að vaxa töluvert það sem eftir lifir árs.


Samkvæmt nýlegum kortaveltutölum frá Seðlabankanum jókst velta innlendra greiðslukorta um 7% í september á milli ára. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta landsmanna hins vegar um tæp 6% frá sama mánuði í fyrra. Frá því í mars á þessu ári hefur kortavelta einstaklinga aukist í hverjum mánuði á þennan mælikvarða og mun sú þróun líklega halda áfram á næstu mánuðum.

Mikill munur hefur þó verið á þróun kortaveltunnar innanlands og utanlands síðustu misseri. Í faraldrinum hélt kortavelta innanlands velli að mestu leyti á meðan kortavelta erlendis dróst verulega saman, eðli málsins samkvæmt. Nú hefur erlenda kortaveltan tekið við en síðustu mánuði hefur vöxturinn í kortaveltu verið að mestu kominn vegna aukningar í kortaveltu Íslendinga erlendis.  Nú í september dróst kortavelta innanlands til dæmis saman um 3% að raunvirði milli ára á meðan kortavelta erlendis jókst um rúm 80% að raunvirði.

Við höfum þó ekki miklar áhyggjur af innlendu kortaveltunni þótt hún hafi dregist saman milli ára í september. Oft er betra að skoða gögnin eftir ársfjórðungum þar sem einstaka mánuðir geta gefið skakka mynd af þróuninni og þá sérstaklega á tímum COVID faraldursins. Ef þriðji fjórðungur þessa árs er borinn saman við sama ársfjórðung í fyrra er vöxtur í heildarkortaveltu 8% að raunvirði. Þá jókst kortavelta Íslendinga erlendis um rúm 70% á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanburði við sama ársfjórðung í fyrra á meðan kortavelta innanlands jókst um 0,6%.

Það má því segja að kortavelta Íslendinga innanlands sé að halda velli en kortavelta Íslendinga erlendis sé á blússandi siglingu. Íslendingar virðast vera farnir að ferðast utan landsteinanna í talsverðum mæli á nýjan leik. Til dæmis má nefna að brottfarir landsmanna um Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru nærri sexfalt fleiri í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Gerum við ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næstu misserum mánuðum þar COVID áhrifin svokölluðu fjara út.

Einkaneysluvöxtur í vændum

Kortavelta gefur allgóða vísbendingu um þróun einkaneyslu hér á landi. Í fyrra mældist samdráttur í einkaneyslu 3% þar sem neyslumynstur innanlands hélt velli í stórum dráttum á meðan neysla erlendis átti á brattann að sækja. Þróun á einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Síðustu ár hefur einkaneysla vegið þungt til hagvaxtar og skýrt um helming af landsframleiðslunni. Einkaneysla varð óumflýjanlega fyrir barðinu á faraldrinum en nú er útlit fyrir bjartari tíma.

Á fyrri helmingi þessa árs jókst einkaneysla um 4,7% frá sama tímabili ári áður. Vísbendingar eru á lofti að einkaneysla muni halda áfram að vaxa töluvert það sem eftir lifir árs. Væntingavísitala Gallup hefur ekki mælst hærri í fimm ár, atvinnuleysi fer minnkandi og kaupmáttur launa hefur vaxið töluvert á þessu ári þrátt fyrir þráláta verðbólgu. Þá er eignastaða flestra heimila sterk en sparnaður jókst töluvert í faraldrinum. Vegna þessa þátta teljum við að neysluvilji almennings sé töluverður og einkaneyslan eigi enn talsvert inni eftir faraldurinn.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við að einkaneysluvöxturinn verði tæp 5% í ár, 3,6% árið 2022 og 3,0% árið 2023. Miðað við nýjustu kortaveltutölur sem og aðra hagvísa teljum við líklegt að spáin fyrir þetta ár sé nærri lagi.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband