Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Jafnvægi á utanríkisviðskiptum þrátt fyrir mikið tekjufall

Þrátt fyrir mikið tekjufall ferðaþjónustunnar hefur enn ekki myndast halli á þjónustuviðskiptum við útlönd enda hafa útgjöld minnkað töluvert á móti. Útlit er fyrir að lítilsháttar halli verði á utanríkisviðskiptum í ár en horfur fyrir næstu ár eru allgóðar svo lengi sem ferðaþjónustan réttir úr kútnum á ný.


Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði var jákvæður um 5,5 ma.kr.  á fyrsta fjórðungi ársins 2020 samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Athygli vekur að þjónustuviðskipti skiluðu afgangi upp á 24 ma.kr. á fjórðungnum þrátt fyrir að COVID-19 faraldurinn setti í ört vaxandi mæli svip á ferðaþjónustuna eftir því sem á fjórðunginn leið. Vöruviðskipti skiluðu hins vegar halla upp á tæp 19 ma.kr. reiknað á greiðslujafnaðargrunni.

Þjónustuafgangur hvarf með ferðamönnunum í mars

Hagstofan birtir einnig tölur um vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd eftir mánuðum og er sérlega fróðlegt að rýna á þær tölur þessa dagana. Eins og vænta mátti dregur talsvert niður í þjónustujöfnuðinum í marsmánuði enda lögðust komur erlendra ferðamanna til landsins að mestu af í þeim mánuði. Hins vegar myndaðist ekki halli á þjónustujöfnuðinum í mars þrátt fyrir ferðamannaskort enda dró allnokkuð úr þjónustuinnflutningi á sama tíma. Vöruskiptahalli var hins vegar með meira móti í marsmánuði, sem skýrist að stórum hluta af óvenju miklum innflutningi á hrávörum og flutningatækjum. Við teljum ólíklegt að slíkur innflutningur nái álíka hæðum á komandi mánuðum.

Eins og fyrri daginn skiluðu ferðatengdir liðir bróðurpartinum af þeim þjónustuafgangi sem mældist á 1F. Aðrar megintegundir þjónustuviðskipta voru að mestu leyti í jafnvægi nema hvað lítilsháttar halli var á liðnum Önnur viðskiptaþjónusta, en sá liður hefur jafnan skilað halla undanfarin ár.

Það vegur vitaskuld talsvert gegn töpuðum ferðamannatekjum að ferðalög landsmanna á erlenda grundu hafa nánast lagst af frá marsbyrjun. Eins og sjá má af myndinni vógu útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga á erlenda grund upp drjúgan hluta af ferðamannatekjum undanfarin ár. Þannig má segja með smá einföldun að ríflega þriðjungur brúttótekna af ferðaþjónustu hafi runnið til þess að fjármagna ferðalög landans erlendis undanfarin fimm ár. Slík útgjöld verða væntanlega í algjöru lágmarki a.m.k. fram yfir mitt ár.

Tekjutap ferðaþjónustunnar veldur skammvinnum halla

Stórfellt tekjutap ferðaþjónustunnar á þessu ári mun vitaskuld hafa gríðarleg áhrif á útflutningstekjur þjóðarbúsins. Í fyrra námu slíkar tekjur 470 mö.kr. sem jafngildir 35% af heildar útflutningstekjum það ár. Til samanburðar voru tekjur af útflutningi sjávarafurða 260 ma.kr. (19% heildartekna) og tekjur af álútflutningi 212 ma.kr. (16% heildar).

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar áætlum við að tekjur ferðaþjónustunnar muni verða í grennd við 200 ma.kr. að því gefnu að jafnt og þétt bæti í ferðamannastrauminn að nýju eftir því sem líður á seinni árshelming. Gangi það eftir mun sá mikli afgangur sem verið hefur af vöru- og þjónustuviðskiptum undanfarinn áratug hverfa og lítilsháttar halli verða á slíkum viðskiptum í ár.

Útlitið er hins vegar allgott fyrir utanríkisviðskipti komandi ára enda ætti þjónustuafgangur fljótt að sækja í sig veðrið á nýjan leik með bata í ferðaþjónustunni. Við áætlum því að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum muni á heildina litið nema u.þ.b. 20 mö.kr. á næsta ári og 40 – 50 mö.kr. árið 2022. Þessi bati á utanríkisviðskiptum ætti að skjóta styrkari stoðum undir gengi krónunnar þegar frá líður auk þess að stuðla að áframhaldandi aukningu á hreinni erlendri eign þjóðarbúsins þegar fram í sækir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband