Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki gerist aðili að PCAF

Íslandsbanki stefnir að því að vera með kolefnishlutlausan rekstur fyrir árið 2025


Íslandsbanki hefur gerst aðili að alþjóðlegu samstarfsverkefni fjármálafyrirtækja um þróun og notkun á loftslagsmæli fyrir lána- og eignasafn bankans. Þátttaka í verkefninu er liður í sjálfbærnistefnu Íslandsbanka og frumkvæði bankans að víðtæku samstarfi um ábyrga viðskiptahætti sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks efnahagslífs ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials) snýr að þróun og notkun á loftslagsmæli sem fjármálafyrirtæki geta nýtt til að greina kolefnislosun í lána- og eignasafni sínu. PCAF á uppruna sinn í Hollandi en frá því að það var sett á fót árið 2015 hafa yfir 80 bankar og fjármálafyrirtæki í öllum heimsálfum gerst aðilar að samstarfsverkefninu. Með þátttöku skuldbindur bankinn sig til að mæla og birta opinberlega innan þriggja ára upplýsingar um útblástur gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til starfsemi lántaka bankans.

PCAF byggir á vísindalegum mælingum og setur upp mælikvarða sem eru sambærilegir á alþjóðavettvangi. Þannig gefst fjármálafyrirtækjum færi á að greina kolefnislosun í útlánasafni, setja sér markmið er varða lánveitingar og fjárfestingar, og mæla þann árangur sem náðst hefur.

Íslandsbanki hefur nú þegar, fyrstur íslenskra banka, sett sér heildstæðan sjálfbæran fjármálaramma og er þátttaka í PCAF liður í því að mæla kolefnissporið í allri virðiskeðjunni, þar með talið óbein áhrif.

Nýlega birtum við sjálfbæran fjármálaramma sem gefur okkur tækifæri til að bjóða viðskiptavinum upp á lán tengd við umhverfisvæna og félagslega starfsemi og nýta okkur sjálfbæra fjármögnun á mörkuðum. Eitt af sjálfbærnimarkmiðum okkar er að bankinn verði með kolefnishlutlausan rekstur fyrir árið 2025 og höfum við sett af stað aðgerðaráætlun bankans, auk þess sem við höfum samið við Votlendissjóð og stutt við þróunarverkefni í Afríku til að jafna hluta af kolefnislosuninni. PCAF samstarfið styður við langtímamarkmið um kolefnishlutleysi og hlökkum við til samstarfsins á þessum vettvangi.

Birna Einarsdóttir,
Bankastjóri Íslandsbanka