Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki í hóp erlendra banka í grænum lausnum

Íslandsbanki fyrstur íslenskra banka til þess að birta heildstæðan sjálfbæran fjármálaramma


  • Íslandsbanki er fyrsti íslenski bankinn til að móta ramma utan um sjálfbær lán í eignasafni sínu.
  • Allt að 30% af núverandi eignasafni bankans fellur undir sjálfbærnisrammann.
  • Ramminn nær til verkefna í umhverfismálum, sjálfbærra verkefna í sjávarútvegi og verkefna sem styðja við félagslega uppbyggingu,
  • Viðskiptavinir og fjárfestar sýna mikinn áhuga á umhverfis- og félagslegum áherslum.
  • Stefnt er að því að auka enn frekar vægi nýrra umhverfisvænna og félagslegra lána bankans.
  • Opnar fyrir nýja möguleika í fjármögnun bankans s.s. útgáfu grænna skuldabréfa

Íslandsbanki hefur fyrstur íslenskra banka skilgreint og birt sérstakan ramma utan um sjálfbær lán í eignasafni sínu. Bankinn fetar þar með í fótspor leiðandi erlendra banka á sviði sjálfbærni. Ramminn mun opna tækifæri fyrir bankann til að sækja sér sjálfbæra fjármögnun á mörkuðum.

Sustainalytics, sem er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á sviði sjálfbærni, hefur gefið jákvætt ytra álit á rammanum og Veitti sjálfbærniráðgjafarfyrirtækið CIRCULAR Solutions ráðgjöf við þróun hans.

Sjálfbær fjármálarammi Íslandsbanka samanstendur af grænum flokki fyrir umhverfismál, bláum flokki fyrir sjálfbær verkefni í sjávartengdum atvinnugreinum og sérstökum flokki fyrir verkefni sem styðja við félagslega uppbyggingu. Ramminn byggir á svokölluðum „Green, Social og Sustainability Bond Principles” sem eru alþjóðleg viðmið gefin út af International Capital Market Association (ICMA), Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði.

Fyrstu greiningar benda til þess að allt að 30% af núverandi eignasafni bankans gæti fallið undir sjálfbærnirammann. Framundan er frekari greining á lánasafni með tilliti til sjálfbærni. Þá mun bankinn jafnframt leitast við að auka vægi nýrra umhverfisvænna og félagslegra lána í eignasafni sínu. Dæmi um verkefni sem falla undir rammann eru smærri vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir, vind- og sólarorkustöðvar, fráveitur og hreinsistöðvar, umhverfisvottaðar vörur (einnig tengdar sjávarútvegi), vistvænar og vottaðar byggingar, endurnýjun bygginga með betri orkunýtni, orkuskipti í sjávarútvegi og rafvæðing hafna, bygging skóla og leikskóla og lán sem stuðla að atvinnuuppbyggingu kvenna og minnihlutahópa. Bankinn býður nú þegar upp á græna fjármögnun til lengri tíma og á betri kjörum fyrir umhverfisvæn ökutæki, rafmagnshjól og hleðslustöðvar og munu þau lán falla undir rammann.

Við höfum fundið fyrir miklum áhuga viðskiptavina og fjárfesta á umhverfis- og félagslegum áherslum og við erum að svara þeim áhuga með birtingu sjálfbæra fjármálarammans sem er vottaður af Sustainalytics. Ramminn gefur okkur traustan grunn til að auka við þjónustuframboð fyrir viðskiptavini okkar á sviði umhverfisvænna og félagslegra lána auk þess að opna ný fjármögnunartækifæri fyrir bankann. Við erum stolt af því að vera fyrsti íslenski bankinn til að birta slíkan ramma og vera þannig fyrirmynd í íslensku atvinnulífi og hreyfiafl til góðra verka.

Birna Einarsdóttir
Bankastjóri Íslandsbanka

Um sjálfbærnivegferð Íslandsbanka

Stefna Íslandsbanka um sjálfbærni miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi. Til þess styðst bankinn við alþjóðleg viðurkennd viðmið um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Íslandsbanki stefnir á að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu. Þannig ætlar bankinn að eiga frumkvæði að víðtæku samstarfi um ábyrga viðskiptahætti sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks efnahagslífs og styðja við aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum og um leið heimsmarkmið SÞ. Bankinn er þátttakandi í fjölmörgum alþjóðlegum og innlendum skuldbindingum á sviði sjálfbærni og er stoltur aðili að viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Íslandsbanki hlaut fyrr á árinu 2020 Íslensku þekkingarverðlaunin frá Félagi viðskipta- og hagfræðinga sem eru veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar hefur skarað fram úr á sviði sjálfbærrar þróunar.

Sjá frekar um sjálfbærni bankans á vefsíðu okkar

Lykilskjöl má nálgast á þessari síðu

Nánari upplýsingar veitir


Edda Hermannsdóttir,

Samskiptastjóri Íslandsbanka


Senda tölvupóst
4404005