Sjálfbær fjármálarammi

Íslandsbanki hefur fyrstur íslenskra banka skilgreint og birt sérstakan ramma utan um þau lán og fjárfestingar í eignasafni sínu sem flokkast sem sjálfbær.


Bankinn fetar þannig í fótspor erlendra banka sem hafa verið leiðandi á sviði sjálfbærni auk þess sem ramminn mun opna tækifæri til að sækja sjálfbæra fjármögnun á mörkuðum. Ramminn hefur fengið jákvætt ytra álit frá Sustainalytics sem er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á þessu sviði auk þess sem sjálfbærniráðgjafarfyrirtækið Circular Solutions veitti ráðgjöf.

Sjálfbær fjármálarammi samanstendur af grænum flokki fyrir umhverfismál, bláum flokki fyrir sjálfbærar fiskveiðar og flokki fyrir verkefni sem styðja við félagslega uppbyggingu. Ramminn byggir á svokölluðum „Green Bond Principles“ og “Social Bond Principles” sem eru alþjóðleg viðmið gefin út af International Capital Market Association (ICMA), Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði og byggir á fjórum stoðum:

  • skilgreiningu sjálfbærra verkefnaflokka
  • valferli sjálfbærra verkefna
  • meðferð fjármuna
  • skýrslugjöf til fjárfesta

Stefna Íslandsbanka um sjálfbærni miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi útfrá alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Íslandsbanki stefnir á að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu. Þannig ætlar bankinn að eiga frumkvæði að víðtæku samstarfi um ábyrga viðskiptahætti sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks efnahagslífs og styðja við aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum og um leið heimsmarkmið SÞ.

Bankinn er þátttakandi í fjölmörgum alþjóðlegum og innlendum skuldbindingum á sviði sjálfbærni og er stoltur aðili að viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Íslandsbanki hlaut fyrr á árinu 2020 Íslensku þekkingarverðlaunin sem eru veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar hefur skarað fram úr á sviði sjálfbærrar þróunar.

Lykilskjöl:

Fréttatilkynning

Sjálfbær fjármálarammi Íslandsbanka (pdf)

Ytra álit Sustainalytics (pdf)

Sjálfbærnistefna

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2019

Sjálfbærniuppgjör ársins 2019