Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanka veitt við­ur­kenn­ing ­fyr­ir góða stjórn­ar­hætti

Íslandsbanki hlaut í dag viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum áttunda árið í röð. Viðurkenninguna veita Stjórnvísi, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi. Sömuleiðis hlaut dótturfélag bankans, Íslandssjóðir, viðurkenninguna.


Verkefnið fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum felur í sér að fyrirtækjum gefst tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins og byggir matsferlið í meginatriðum á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi gefa út.

Stjórn Íslandsbanka hefur það að markmiði að vera stöðugt að þróa og styrkja góða stjórnarhætti innan bankans og fylgja alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta. Árlega gerir Íslandsbanki úttekt á því hvort stjórnarhættir bankans samræmist viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og birtir stjórnarháttayfirlýsingu í viðauka við ársreikning og á vef bankans. Nálgast má frekari upplýsingar um stjórnarhætti Íslandsbanka hér á vefsíðu bankans.