Meira svigrúm í peningastefnunni hérlendis
Ein þeirra aðgerða sem hægt var að grípa til hér á landi, en minna svigrúm var til víðast, er umfangsmikil vaxtalækkun. Víða hafa seðlabankar losað um taumhald peningastefnunnar, m.a.með því að auka magn peninga í umferð og/eða lækka vexti en vextir voru víða þegar orðnir mjög lágir þegar faraldurinn skall á. Lægri stýrivextir draga að öðru óbreyttu úr kostnaði við fjárfestingar og draga úr hvata til sparnaðar, og hvetja þar af leiðandi fyrirtæki og heimili til fjárfestinga. Fyrirtæki fjárfesta í fjármunum til þess að auka framleiðni sína og heimili finna staðkvæmdarvörur í stað sparnaðar á innlánsreikningum svo sem skuldabréf, hlutabréf eða fasteignir. Seðlabankastjóri hefur sagt lausara aðhald peningastefnunnar hafa skilað tilsettum árangri meðal heimila en von er á að fjárfesting fyrirtækja muni taka enn frekar við sér á komandi misserum. Getum við tekið undir það hvað heimilin varðar en margt bendir til þess að mun virkari miðlun peningastefnunnar yfir í fjármagnskostnað heimila hafi bæði stutt við íbúðamarkað og einkaneyslu undanfarna mánuði.