Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ísland og COVID í alþjóðlegu samhengi

Það stefnir í mesta samdrátt vergrar landsframleiðslu (VLF) sem sést hefur í heila öld hér á landi á þessu ári. Þó kórónuveiran hafi almennt leikið hagkerfi heimsins grátt kemur hún sérstaklega illa niður á löndum þar sem ferðaþjónustan leikur lykilhlutverk í efnahagslífinu. Eftirspurn innan þess geira, bæði innlend og erlend, hefur að mestu gufað upp og atvinnutækifæri þar með. Ísland tilheyrir stórum hópi landa sem eiga erfitt uppdráttar þessa stundina en þó gæti verið tilefni til nokkurrar bjartsýni þar sem staðan er þrátt fyrir allt nokkru betri en víða annars staðar.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Harðari skellur í ferðaþjónustulöndum

Mikill vöxtur ferðaþjónustunnar hér á landi undanfarin ár hefur gert okkur kleift að safna vel  í sarpinn fyrir tíma sem þessa. Skuldastaða hins opinbera er allt önnur og betri en áður, Seðlabankinn situr á myndarlegum gjaldeyrisforða og hagvöxtur hefur aukist.  

Nú þegar ferðaþjónusta hefur að mestu lagst af, ferðavilji einstaklinga er í lágmarki og hertar sóttvarnaraðgerðir hafa takmarkað flugsamgöngur meirihluta ársins reynist fyrirhyggjan okkur vel. Í samhengi við aðrar þjóðir má segja að samdráttur ársins, sem okkur telst til að verði 8,6% sé jafnvel minni en ætla mætti í ljósi stærðar ferðaþjónustu af VLF hér á landi og þegar litið er á stöðuna víða erlendis.

Meira svigrúm í peningastefnunni hérlendis

Ein þeirra aðgerða sem hægt var að grípa til hér á landi, en minna svigrúm var til víðast, er umfangsmikil vaxtalækkun. Víða hafa seðlabankar losað um taumhald peningastefnunnar, m.a.með því að auka magn peninga í umferð og/eða lækka vexti en vextir voru víða þegar orðnir mjög lágir þegar faraldurinn skall á. Lægri stýrivextir draga að öðru óbreyttu úr kostnaði við fjárfestingar og draga úr hvata til sparnaðar, og hvetja þar af leiðandi fyrirtæki og heimili til fjárfestinga. Fyrirtæki fjárfesta í fjármunum til þess að auka framleiðni sína og heimili finna staðkvæmdarvörur í stað sparnaðar á innlánsreikningum svo sem skuldabréf, hlutabréf eða fasteignir. Seðlabankastjóri hefur sagt lausara aðhald peningastefnunnar hafa skilað tilsettum árangri meðal heimila en von er á að fjárfesting fyrirtækja muni taka enn frekar við sér á komandi misserum. Getum við tekið undir það hvað heimilin varðar en margt bendir til þess að mun virkari miðlun peningastefnunnar yfir í fjármagnskostnað heimila hafi bæði stutt við íbúðamarkað og einkaneyslu undanfarna mánuði.

Stefnir í mesta mælda atvinnuleysi síðan 1957

Samhliða þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til víða um heim til að hefta útbreiðslu veirunnar hefur atvinnuleysi aukist, einkum í mannaflsfrekum greinum. Hér á landi hafa til að mynda tæplega 8.500 manns lent í hópuppsögnum það sem af er ári sem nemur um 4% af vinnuafli þjóðarinnar en nánar má lesa um það í nýútgefnu Korni. Í flestum tilvikum er atvinnuleysið talsvert meira en sem nemur hlutfalli ferðaþjónustu af VLF. Sú er ekki raunin í Nýja Sjálandi og á Íslandi og umhugsunarefni hvort atvinnuleysið gæti aukist enn frekar dragist kreppan á langinn, en í nýlegri Þjóðhagsspá Greiningar spáum við 7,8% meðalatvinnuleysi á árinu. Atvinnuleysi hefur aukist meðal allra þeirra landa sem við berum okkur saman við utan Frakkalands og Ítalíu en á Íslandi, Kanada og í Bandaríkjunum hefur það aukist hlutfallslega mest.

Það kemur á óvart að atvinnuleysi hefur minnkað á milli ára í Frakklandi og Ítalíu sem bæði hafa sterka ferðaþjónustugeira. Sóttvarnaraðgerðir í þeim löndum hafa m.a. falið í sér útgöngubönn en talsverður fjöldi fólks hefur hætt leit sinni að vinnu með þeim afleiðingum að atvinnuleysi hefur dregist saman. Hlutfall starfandi af mannfjölda sýnir ekki jafn dramatíska breytingu atvinnulífsins en skýrir þó að skekkja er til staðar innan þeirra landa. Hlutfall starfandi af mannfjölda hefur lækkað innan allra landa utan Bretlands en samkvæmt hagstofu þeirra hafði starfandi fækkað um 730.000 frá því í mars fram til ágúst.

Líkt og hér má sjá hefur starfandi fækkað talsvert hér á landi en hlutfallið er þó hærra en í öllum samanburðarlöndum. Það er kannski takmörkuð huggun í því að bera slæmt ástand hér á landi við enn verri stöðu erlendis en með hækkandi sól á komandi ári eigum við samt von á bættri stöðu í efnahagslífinu. Slíkt veltur þó vissulega á því hve fljótt bóluefni verða tilbúin og hvort ferðamannasumarið 2021 verði þokkalegt.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband