Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuleysi á pari við Evrópu

Atvinnuleysi hefur stóraukist um heim allan það sem af er ári og er Ísland þar engin undantekning. Atvinnuleysi hér á landi verður líklega meira þetta árið en dæmi eru um frá miðri síðustu öld. Framhaldið veltur að stórum hluta á framgangi faraldursins og því hversu hratt hagkerfið nær skriði á nýjan leik.


Hópuppsagnir hafa verið tíðar í fréttum undanfarna daga og liggur fyrir að atvinnuleysi verður meðal helstu viðfangsefna stjórnmálanna og viðskiptalífsins næstu mánuði. Sífellt fleiri fyrirtæki draga úr starfsemi sinni, leggjast í dvala eða leggja upp laupanna í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða og er útlit fyrir að á árinu verði hæsta hlutfall atvinnuleysis svo langt aftur sem tölur Hagstofunnar ná, sem er frá árinu 1957. Ísland stendur þó þokkalega í alþjóðlegum samanburði en það er mikilvægt fyrir bata vinnumarkaðar að halda fyrirtækjum á floti á meðan hagkerfið siglir þennan ólgusjó. Svo draga megi úr atvinnuleysinu er mikilvægt að fyrirtæki hafi tækifæri og svigrúm til endurráðninga þegar birtir til og geta sértækar aðgerðir hins opinbera þar skipt talsverðu máli. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa þjónað sínum tilgangi fram til þessa en hvað er í vændum þegar tímarammi þeirra aðgerða rennur út á komandi fjórðungum?

Skráðu þig á póstlistann okkar

Ísland í alþjóðlegum samanburði

Ísland er langt í frá eitt um vandamál vaxandi atvinnuleysis en nokkur lönd hafa komist hjá þeim skelli vegna COVID-19 faraldursins. Frá aldamótum hefur atvinnuleysi hér á landi verið lágt í alþjóðlegum samanburði. Til að mynda hefur atvinnuleysi innan OECD ríkjanna verið 6,9% að meðaltali síðan 2003 en aðeins 3,8% á Íslandi þrátt fyrir djúpt samdráttarskeið hérlendis árin 2009-2010.

Sem dæmi um áhrif faraldursins á vinnumarkað nágrannaríkja hefur atvinnuleysi ríflega tvöfaldast á milli ára í Kanada og á Íslandi en tæplega fjórfaldast í Bandaríkjunum. Nágrannar okkar á Norðurlöndunum standa mun betur að vígi en þar hefur starfandi einstaklingum fækkað að jafnaði um fjórðung. Þó ber að hafa í huga að ferðaþjónusta er mun stærri hluti íslensks atvinnulífs en á hinum Norðurlöndunum. Ólíkt hruninu 2008 þar sem atvinnuleysi jókst töluvert eru nú heldur bjartari horfur hvað kröftuga viðspyrnu vinnumarkaðar varðar.

4% af vinnuafli sagt upp í hópuppsögnum

Við í Greiningu spáum því að atvinnuleysi verði 7,8% á árinu (sem nánar má lesa um í nýútgefinni Þjóðhagsspá) og tekur Hagstofan í sama streng í sinni spá en það er 0,2% meira en fyrra met (2008). Um það bil 8.500 manns hafa orðið fyrir fyrir hópuppsögnum það sem af er ári eða rúmlega 4% af vinnuafli þjóðarinnar. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi muni magnast á næstu mánuðum og ná hámarki um áramót. Næsta ár er öllu óljósara hvað horfur á vinnumarkaði varðar og veltur að stórum hluta á framvindu farsóttarinnar.

Atvinnuleysi á Suðurlandi tæplega fjórfaldast

Það fer ekki á milli mála að vinnumarkaðurinn á landinu öllu hefur orðið fyrir miklu höggi en því er þó misskipt milli landshluta. Atvinnuleysið hefur í heild aukist um liðlega 150% að meðaltali frá ágústmánuði síðasta árs. Suðurland hefur þó lent hvað verst í því og þar hefur atvinnuleysi aukist um 250% á meðan Vestfirðir hafa komið skást frá skellinum enn sem komið er (77%). Endurspeglar þetta að miklu leyti misjafna uppbyggingu ferðaþjónustu á landinu.

Stjórnvöld til bjargar eða seinka hinu óumflýjanlega?

Líklegast eru engin fyrirtæki álíka illa útsett fyrir COVID-19 og hótel, gistirými og veitinga- eða skemmtistaðir. Hertar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og ströng samkomubönn bæði skerða eftirspurn töluvert og/eða takmarka það framboð sem fyrirtækin geta veitt. Það liggur í augum uppi að erfitt er að reka fyrirtæki undir slíkum aðstæðum og hafa því stuðningsaðgerðir ríkisins verið mörgum fyrirtækjum bráðnauðsynlegar. Meðal þeirra aðgerða eru hlutabótaleiðin, stuðningslán, frystingar lána og styrkir vegna launagreiðslna á uppsagnarfresti. Stuðningslánin verða veitt til loka árs 2020 en ef fyrirtæki hafa ekki náð vopnum sínum fyrir þann tíma gætu þau fallið í valinn. Verði mikil brögð að því gæti dregið hægar úr atvinnuleysi en við reiknum með í þjóðhagsspá okkar. Þar spáum við 7,6% meðalatvinnuleysi árið 2021 og 4,7% árið 2022.

Til mikils að vinna að atvinnuleysi minnki á ný

Það er í allra hag að tryggja lágt atvinnuleysisstig og fullnýta þekkingu, reynslu og hæfileika á vinnumarkaðinum svo hjól atvinnulífsins taki að snúast á nýjan leik. Auk tekjutaps heimila og aukinna útgjalda hins opinbera fylgja langvarandi atvinnuleysi margháttuð sálræn og félagsleg vandamál. Stjórnvöld hafa brugðist við ástandinu með áður óþekktum hætti í þeim tilgangi að starfstækifærin séu enn til staðar þegar hagkerfið réttir úr kútnum. Líkt og fyrr var reifað á er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér en Ísland hefur alla burði til þess að snúa vörn allhratt í sókn verði faraldurinn í rénun um mitt næsta ár.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband