Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íbúðaverð hækkar fjórða mánuðinn í röð

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á milli mánaða í maímánuði. Hækkun á sérbýli spilar þar stóran þátt. Það heldur þó áfram að draga úr árshækkun íbúðaverðs og hefur hún ekki mælst minni síðan í október 2020. Útlit er fyrir að ró verði yfir íbúðamarkaði næsta kastið.


Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% í maí frá mánuðinum á undan samkvæmt gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem birtust síðdegis í gær. Á þennan mælikvarða hefur íbúðaverð hækkað undanfarna fjóra mánuði eftir verðlækkun mánuðina þar á undan. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu eru helsta ástæða fyrir hækkuninni í maí. Þau hækkuðu í verði um 1,9% á milli mánaða á meðan fjölbýli hækkuðu um 0,3%.

Vísitala íbúðaverðs byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali og mæling maímánaðar byggir því á þinglýstum kaupsamningum frá mars, apríl og maí. Marsmánuður virðist hafa verið ansi líflegur á íbúðamarkaði. Vísitala íbúðaverðs tók þá mikinn kipp og hækkaði um 1,5% á milli mánaða auk þess sem umsvif voru meiri þann mánuðinn en bæði mánuðina á undan og á eftir.

Sérbýli hækka mest

Verð á sérbýlum hefur hækkað nokkuð hratt undanfarna þrjá mánuði og talsvert hraðar en verð íbúða í fjölbýli. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað um 7,0% á tímabilinu en fjölbýli um 1,9%. Í báðum tegundum húsnæðis hækkaði verðið mest í mars og því hefur dregið úr mánaðarhækkuninni síðan þá. Í næstu mælingu HMS mun marsmánuður detta út úr þriggja mánaða meðaltalinu sem mun að öllum líkindum hægja enn frekar á mánaðarhækkun vísitölu íbúðaverðs.

Þrátt fyrir hækkun á milli mánaða heldur áfram að draga úr árshækkun íbúðaverðs frá því hún var hvað mest í fyrrasumar í 25,5%. Árshækkun í maí mælist 6,1% og hefur ekki verið minni á þennan mælikvarða frá því í október 2020. Árshækkun er ívið meiri á sérbýlum og mælist 9,0% á meðan árshækkun á fjölbýlum mælist 5,6% í maímánuði.

Heilbrigðari íbúðamarkaður?

Flest bendir til þess að íbúðamarkaður sé talsvert heilbrigðari í dag en hann hefur verið síðastliðin ár. Til að mynda hefur meðalsölutími íbúða lengst talsvert. Samkvæmt gögnum frá HMS var meðalsölutími fyrir ári síðan um mánuður en mælist nú 52 dagar. Einnig eru töluvert færri íbúðir sem seljast yfir ásettu verði þessa dagana en undanfarin misseri. Þegar mest lét seldust yfir 60% íbúða yfir ásettu verði en nú er hlutfallið einungis um 13%. Þetta bendir til þess að hægt hafi talsvert á eftirspurn.

Þar að auki hefur framboð aukist mikið á undanförnum mánuðum eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki fyrir um ári síðan. Nú eru um fjórfalt fleiri íbúðir til sölu en á sama tíma í fyrra. Hluti þessa aukna framboðs eru nýjar íbúðir, eða ríflega 30% af heildinni. Líklega mun þetta hlutfall hækka á næstu misserum þar sem nú eru í kringum 7.900 íbúðir í byggingu á landinu öllu og það sem af er ári hafa 1.400 nýjar íbúðir komið inn á markaðinn. Útlit er fyrir ríflega 3.000 nýjar íbúðir á markaðinn í ár sem vonandi verður nóg til að anna þeirri eftirspurn sem er til staðar.

Enn er eftirspurn til staðar á íbúðamarkaði þrátt fyrir hátt vaxtastig og benda nýbirtar tölur HMS til þess. Hröð fólksfjölgun er helsta ástæða eftirspurnar á markaðinum um þessar mundir. Íbúum landsins fjölgaði um 3% í fyrra sem er mesta fólksfjölgun frá upphafi mælinga og það sem af er ári hefur íbúum haldið áfram að fjölga hratt.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við því að íbúðaverð muni leita í jafnvægi á næstu mánuðum. Íbúðaverð mun halda áfram að hækka að nafnvirði en þó hægar en verið hefur. Við teljum að íbúðamarkaðurinn verði rólegur og helsta ástæða þess er hátt vaxtastig. Þrátt fyrir nafnverðshækkanir mun mikil verðbólga verða til þess að raunverð íbúða mun lækka smávegis í ár samkvæmt spá okkar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband