Verðbólga
Þrálát verðbólgan fari hæst í 8,4% fyrir lok ársins, hjaðni eftir það en verði þó vel yfir 2,5% markmiði Seðlabankans allan spátímann (út árið 2024).
Því miður lítur út fyrir að verðbólga verði óþægilega mikil á næstunni. Þessi mikla verðbólga þýðir að dagleg útgjöld verða dýrari og launin okkar duga ekki eins langt og áður. Verðtryggð lán hækka sömuleiðis enn frekar og erfiðara verður að ávaxta sparifé. Lítilsháttar verðbólga er eðlileg og svo sem ekkert til að kvarta yfir en þetta er allt of mikið og getur nagað í veskið okkar. Verðbólgan hefur verið og verður enn um sinn drifin áfram af hækkandi íbúðaverði og verðlagi í útlöndum og því ræðst framhaldið að miklu leyti af því hvenær þau áhrif líða hjá. Merkilegt nokk er verðbólga til dæmis enn meiri í Bandaríkjunum og á Evrusvæðinu en hér þessa dagana þannig að verðbólgan er langt í frá séríslenskt vandamál.
Vextir
Stýrivextir Seðlabankans munu hækka enn frekar og nái toppi í 5-6% í lok þessa árs. Fari svo lítillega lækkandi eftir það ef allt gengur upp.
Við erum að kveðja það lágvaxtaumhverfi sem við höfum búið við að undanförnu, í það minnsta um skeið. Seðlabankinn hækkar vexti til að reyna að ná niður verðbólgunni og það getur haft umtalsverð áhrif á heimilisfjármálin okkar. Fyrir það fyrsta er til mikils að vinna ef okkur tekst að ná böndum á verðbólguna. Það eykur stöðugleika og ver launin okkar. Hærri stýrivextir hafa svo áhrif á aðra vexti í landinu. Dýrara verður að taka lán en bankareikningar gefa líka hærri vexti. Með öðrum orðum ættu hærri vextir að hvetja til sparnaðar og draga úr áhuga á lántöku.
Krónan
Enn frekari styrking gæti verið í kortunum. Eftir tæplega 3% styrkingu í fyrra og um 5% til viðbótar fyrstu fjóra mánuði ársins gæti krónan enn átt nokkra styrkingu inni og verið um 5% sterkari í lok spátímans (2024) en nú í lok apríl.
Sterkari króna hefur bein áhrif á rekstur heimilisins. Verð innfluttra vara lækkar og sömuleiðis verður ódýrara að fara til útlanda. Þetta verður í sjálfu sér til þess að draga úr verðbólgu en hin hliðin á peningnum er að dýrara verður fyrir erlenda ferðamenn að sækja okkur heim og við fáum færri krónur en ella fyrir álið okkar, fisk og hugverk. Aðalatriðið er þó að krónan verði tiltölulega stöðug og það virðist hún hafa alla burði í að vera á næstunni.
Bjart framundan þrátt fyrir allt
Verð verður til vandræða á næstunni og það gæti orðið nokkuð erfiðara en oft áður að passa upp á heimilisfjármálin. Það jákvæða er þó að þetta lítur út fyrir að ætla að líða hjá áður en langt um líður. Við þurfum að fara varlega og sýna fyrirhyggju, meðal annars með að búa okkur undir umtalsverðar vaxtahækkanir og að verðbólgan gæti mögulega orðið meiri og langvinnari en spáð er. Efnahagslífið stendur þó á traustum grunni og sannarlega bjart framundan, þegar þessi leiðindi líða hjá.
Greinin birtist fyrst á Vísi