Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað skýrir viðsnúning i gengi krónu?

Ýmsir þættir hjálpa til við að skýra viðsnúning í gengisþróun krónu undanfarnar vikur. Útlit er fyrir batnandi jöfnuð viðskipta við útlönd eftir því sem líður á árið. Líkur á frekari styrkingu krónu aukast því eftir því sem líður á árið að mati okkar.


Gengi krónu hefur sótt í sig veðrið síðustu vikurnar eftir talsverða veikingu í upphafi árs. Síðastliðinn föstudag náði krónan sínu sterkasta gildi það sem af er ári. Þegar þetta er ritað kostar evran rétt tæpar 150 kr. og Bandaríkjadollar ríflega 140 kr. Hæst fór evran hins vegar í 157 kr. og dollarinn í 146 kr. í janúar síðastliðnum.

Hvað gæti skýrt þessa þróun og hverjar eru horfurnar fyrir krónuna næsta kastið?

Lífeyrissjóðir keyptu óvenju lítinn gjaldeyri í febrúar

Í nýútkomnu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, er að vanda farið yfir ytri stöðu þjóðarbúsins og gjaldeyrisflæði. Þar er ýmislegt áhugavert að finna sem varpað getur ljósi á þróun á gjaldeyrismarkaði undanfarið. Til að mynda er þar yfirlit yfir gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóða eftir mánuðum, en sjóðirnir eru alla jafna nokkuð umsvifamiklir kaupendur gjaldeyris þar sem talsverður hluti iðgjaldagreiðslna umfram lífeyrisgreiðslur og rekstrarkostnað rennur til beinna og óbeinna kaupa á erlendum verðbréfum.

Í febrúar síðastliðnum námu gjaldeyriskaup sjóðanna 4,5 ma.kr. og hafa þau ekki verið minni í einum mánuði síðan í febrúar 2022. Til samanburðar keyptu sjóðirnir að jafnaði gjaldeyri fyrir tæplega 9 ma.kr. í mánuði hverjum í fyrra. Á síðasta þriðjungi ársins 2022, þegar krónan var einmitt að gefa töluvert eftir, námu kaupin ríflega 11 ma.kr. í mánuði hverjum. Í Fjármálastöðugleika kemur fram að umfangsmeiri gjaldeyrisviðskipti sjóðanna fóru gjarnan fram þá daga sem gengi krónu hækkaði, jafnvel þótt á undan hefði farið nokkur veiking krónu. Sjóðirnir virðist því taka að hluta á móti umfram innflæði gjaldeyris til skemmri tíma að mati Seðlabankans.

Trúlega voru lítil gjaldeyriskaup í febrúar ekki lýsandi fyrir kaup sjóðanna á komandi mánuðum. Þó bendir Seðlabankinn á það að ýmsir sjóðir hafi frekar lækkað fjárfestingamarkmið sín fyrir hlutfall erlendra eigna á milli ára en hitt. Þó stefna sjóðirnir alla jafna að því að hlutfall erlendra eigna af heildareignum verði 3,5 prósentum hærra á næstu árum en raunin var um síðustu áramót samkvæmt könnun Seðlabankans.

Sveiflur í fjárfestingum erlendra aðila

Þá er í ritinu birt yfirlit yfir þróun skráðra nýfjárfestinga til og með janúar 2023. Þar kemur fram að hrein skráð nýfjárfesting nam 81 ma.kr. á síðasta ári og voru þar af um 25 ma.kr. vegna fjárfestinga í skráðum hlutabréfum og ríkisbréfum. Hins vegar er bent á ákveðið misræmi við gögn NASDAQ þar sem innflæði frá erlendum aðilum í hlutabréf mælist u.þ.b. 16 ma.kr. meira en í gögnum um skráðar nýfjárfestingar. Þess utan setja tvenn kaup erlendra aðila á innlendum fyrirtækjum svip sinn á tölurnar. Eins og sjá má af myndinni hér að ofan dró mjög úr innflæði vegna nýfjárfestinga á lokamánuðum síðasta árs sem og í janúar síðastliðnum samanborðið við haustmánuðina. Mars ætti hins vegar að koma sterkar inn í þessum tölum en t.d. janúar þar sem lokahluti innleiðingar íslenska hlutabréfamarkaðarins í tilteknar alþjóðlegar hlutabréfavísitölur átti sér stað í mánuðinum.

Er það versta afstaðið í viðskiptahallanum?

Auk framangreindra þátta er flæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd vitaskuld mikilvægur áhrifaþáttur á gjaldeyrismarkað á hverjum tíma. Þar hefur nokkuð rofað til undanfarið eftir mikla útflæðismánuði á haustmánuðum í fyrra eins og við fjölluðum um nýverið. Það sem af er ári er vöruskiptahallinn tæplega ríflega 20 ma.kr. í hverjum mánuði en til samanburðar var hallinn tæplega 34 ma.kr. í hverjum mánuði að meðaltali á seinni helmingi síðasta árs.

Þá ætlar ferðamannaveturinn að reynast íslenskri ferðaþjónustu nokkuð gjöfull. Tæplega 260 þúsund ferðamenn sóttu landið heim á fyrstu tveimur mánuðum ársins sem samsvarar 90% af fjöldanum á þessu tímabili 2019. Lauslegt mat okkar á samanlögðum vöru- og þjónustuviðskiptum frá áramótum bendir til þess að slík viðskipti hafi verið nálægt jafnvægi í janúar en hins vegar hafi halli á þeim numið 10-12 ma.kr. í febrúar. Veruleg árstíðarsveifla er í þjónustujöfnuðinum og teljum við líklegt að afgangur af honum muni vega töluvert þyngra en vöruskiptahallinn þegar háönn ferðaþjónustunnar gengur í garð í sumar.

Stöðutaka með krónu hefur aukist að nýju

Þróun framvirkrar gjaldeyrisstöðu viðskiptabankanna endurspeglar allvel væntingar á markaði á hverjum tíma um þróun krónu næsta kastið. Í fyrra jókst slík staða allhratt á fyrri helmingi ársins þar sem „viðskiptavinir bankanna vörðu sig fyrir styrkingu krónunnar eða tóku stöðu með henni“ eins og það er orðað í Fjármálastöðugleika (bls. 9-10). Viðsnúningur varð síðan í slíkum stöðum þegar leið á árið og lækkuðu þær á heildina litið um tæpa 50 ma.kr. frá ágústlokum til loka nóvember í fyrra.

Undanfarið hefur stöðutaka viðskiptavina bankanna með krónunni hins vegar vaxið myndarlega á nýjan leik. Var hrein staða framvirkra samninga 174 ma.kr. í janúarlok, sem jafngildir 27 ma.kr. aukningu frá desemberbyrjun. Fyrirtæki og fjárfestar verja sig því aftur í auknum mæli gegn hugsanlegri styrkingu krónu, nú eða þá veðja á slíka styrkingu á komandi mánuðum.

Líkur á meðvindi með krónu aukast með tímanum

Eins og við fórum yfir í nýlegri þjóðhagsspá okkar aukast líkur á meðvindi með krónunni jafnt og þétt á komandi fjórðungum. Útlit er fyrir afar myndarlegt ferðamannasumar og -haust, loðnuvertíðin sem nú er að ljúka mun væntanlega skila meiri útflutningstekjum en útlit var fyrir í ársbyrjun, verð á sjávarafurðum er almennt hátt og talsverður vöxtur framundan bæði í útflutningi á eldisfiski og í þjónustugreinum á borð við hugverkasmíð og sérfræðiþjónustu.

Vissulega eru líka horfur á allnokkrum vexti á innflutningshliðinni næsta kastið en líklega verður slíkur vöxtur talsvert hóflegri en sá tæplega 20% vöxtur sem mældist í fyrra í magni mælt. Halli á viðskiptum með vörur og þjónustu ætti því að verða nokkru minni en í fyrra og viðskiptahallinn í heild sömuleiðis öllu hóflegri.

Líklega veltur gengisþróun krónu á komandi fjórðungum því í minni mæli en undanfarið á því hvort umtalsverður halli er á utanríkisviðskiptum og vaxandi mæli frekar á því hvort innflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila og/eða erlendra lánveitinga til innlendrar fjárfestingar vegur upp útflæði vegna t.d. gjaldeyriskaupa lífeyrissjóðanna. Þar er vert að nefna að fjárfesting erlendra aðila í íslenskum verðbréfum er enn með minna móti og útlit er fyrir að innlendur verðbréfamarkaður tengist í meiri mæli alþjóðlegum mörkuðum, til dæmis með innleiðingu innlendra hlutabréfa í fleiri alþjóðlegar vísitölur. Þá gæti erlend fjármögnun orðið vænlegur hluti af fjármögnun fjárfestingar í til dæmis innviðum og útflutningsgreinum sem munu kalla á umtalsverða fjármögnun á komandi misserum.

Þegar öllu er til haga haldið virðast okkur líkurnar frekar halla til þess að krónan verði nokkru sterkari að 1-2 árum liðnum en hún var í ársbyrjun líkt og rökstutt er í þjóðhagsspá okkar. Í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 8% sterkari um miðjan áratuginn en hún var í árslok 2022. Jafngildir það því að evran kosti u.þ.b. 142 kr. þegar líður á árið 2025.

Þó ber að hafa í huga að gjaldeyrismarkaðir eru mikil ólíkindatól og eflaust verður þróun krónunnar á komandi tíð mörkuð talsverðum sveiflum auk þess sem horfur gætu breyst, til dæmis ef verðþróun á erlendum mörkuðum verður okkur óhagstæð eða ófyrirséð áföll á borð við faraldurinn dynja yfir á nýjan leik. Vonandi og væntanlega er þó botninum náð í gengi krónunnar í bili, enda veitir ekki af hjálp úr þeirri áttinni við að minnka verðbólguþrýsting hér á landi þessa dagana.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband