Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vöruskiptahalli á batavegi eftir methalla í fyrrahaust

Þótt vöruskiptahalli hafi verið talsverður í febrúar hefur dregið verulega úr honum eftir methalla í fyrrahaust. Útlit er fyrir að hallinn verði áfram talsvert hóflegri en raunin var að jafnaði í fyrra og hann reynist því ekki jafnmikill dragbítur á gengi krónu og á seinni helmingi síðasta árs.


Vöruskiptahalli var tæpir 26 ma.kr. í febrúar samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það talsvert meiri halli en næstu mánuði á undan, en í janúar var hallinn tæpir 15 ma.kr. og í desember í fyrra var hann ríflega 12 ma.kr. Hallinn var hins vegar mun meiri lengst af síðasta hausti og náði raunar methæðum í október þegar hann mældist 57 ma.kr.

Sveiflur í álútflutningi milli mánaða

Heldur hefur dregið úr vöruútflutningi eftir að hann fór í fyrsta sinn yfir 100 ma.kr. í desember síðastliðnum. Vöruútflutningur nam alls tæpum 74 ma.kr. og jókst um tæp 12% á milli ára í krónum talið. Eins og sjá má af myndinni skýrist desembertoppurinn að verulegu leyti af óvenju miklum álútflutningi eftir tvo rýra mánuði í slíkum útflutningi.

Mánaðarsveifla getur verið á álútflutningi eftir því hvernig stendur á skipaferðum og slíku, en vitaskuld er framleiðsla álveranna sjálfra býsna stöðug frá einum mánuði til annars. Markast skemmri tíma sveiflur í útflutningsverðmæti áls því í meiri mæli af álverði á heimsmarkaði en breytingum á framleiðslu. Álverð hefur verið tiltölulega stöðugt í grennd við 2.500 USD á tonnið það sem af er ári eftir mikla verðhækkun í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og verðlækkun eftir því sem lengra leið á síðasta ár. Í sögulegu samhengi er þó álverð fremur hátt og væntanlega mun það endurspeglast í útflutningstölum komandi mánaða.

Vöruinnflutningur náði methæðum í fyrrahaust

Vöruinnflutningur nam tæplega 100 ma.kr. í febrúar og jókst um tæp 23% milli ára í krónum talið. Talsvert hefur hins vegar dregið úr innflutningi frá því hann náði methæðum í október síðastliðnum. Sér í lagi hefur dregið úr innflutningi á eldsneyti eftir hreint ótrúlegar innflutningstölur í fyrrahaust. Þótt aukin flugumferð og meiri umsvif í hagkerfinu ásamt hærra verði skýri talsverðan hluta af þeim kúf er erfitt að skýra hann að öllu leyti með þeim breytum. Í öllu falli eru innflutningstölur á olíum og eldsneyti í betra samræmi við tímabilið fyrir faraldur að teknu tilliti til verð- og gengisbreytinga.

Þá hefur dregið úr innflutningi fólksbíla eftir mikinn bílainnflutning í fyrrahaust og svipaða sögu má segja af innfluttum hrá- og rekstrarvörur. Þar hefur m.a. áhrif að verð á súráli sveiflast í svipuðum takti og álverð og hækkaði þar með framan af síðasta ári en hefur lækkað á ný.

Þótt enn mælist talsverður vöxtur bæði innflutningsmegin og á útflutningshliðinni í vöruskiptunum hefur dregið verulega úr honum frá því í fyrrahaust. Sé þróunin leiðrétt fyrir gengisbreytingum krónu með gengisvísitölu Seðlabankans sést að undanfarna þrjá mánuði hefur útflutningsvöxturinn milli ára verið að jafnaði rúm 11% en innflutningsvöxtur 14% á sama kvarða. Hefur því dregið verulega saman með vaxtartaktinum á þessum tveimur hliðum vöruskiptanna.

Mestur varð útflutningsvöxturinn tæp 47% á þann mælikvarða í fyrrasumar. Innflutningsvöxturinn var hins vegar enn myndarlegri og sló hæst í 54% í fyrrahaust. Það er líka styttra síðan fór að draga umtalsvert úr innflutningsvexti og skýrir sá munur methalla á vöruskiptunum í fyrrahaust að stórum hluta.

Horfur á hóflegri halla á komandi fjórðungum

Við eigum von á að vöruskiptahallinn verði talsvert hóflegri á komandi fjórðungum en hann var á seinni hluta síðasta árs. Horfur um útflutning eru allgóðar, verð á okkar helstu útflutningsvörum er fremur hátt á alþjóðamörkuðum, loðnuvertíðin lítur út fyrir að skila talsvert meiri verðmætum en horfur voru á í ársbyrjun og framleiðsla eldisfisks er í örum vexti svo nokkuð sé nefnt.

Á móti er útlit fyrir að áfram dragi úr innflutningsvextinum, ekki síst hvað neysluvörur varðar. Sala á nýjum bílum til einstaklinga dróst til að mynda saman um 15% á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra samkvæmt nýlegum tölum frá Bílgreinasambandinu og líklegt er að aukning á sölu nýrra bíla til einstaklinga á árinu verði mun hóflegir en sú 13% aukning sem var á slíkri sölu í fyrra. Svipað mun líklega gilda um ýmsar aðrar innfluttar neysluvörur.

Mikill vöruskiptahalli setti að okkar mati talsverðan svip á gengisþróun krónu á seinni helmingi síðasta árs enda vó hann, ásamt vaxandi þjónustuinnflutningi, upp mikla aukningu í útflutningstekjum í fyrra og gott betur. Miðað við ofangreinda þróun eru góðar líkur á að vöruskiptahallinn reynist talsvert minni dragbítur á gengi krónu í ár.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband