Miklar sviptingar hafa verið á skuldabréfamarkaði síðustu daga og vikur. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hefur lækkað umtalsvert frá byrjun marsmánaðar en krafa verðtryggðra bréfa hefur lítið breyst á sama tíma. Verðbólguálag á markaði hefur því lækkað töluvert eftir að hafa náð margra ára hámarki í kring um síðustu mánaðamót. En hvaða sögu segja þessar hreyfingar um skoðun markaðarins á vaxta- og verðbólguhorfum?
Samhliða vaxandi verðbólgu og hækkandi stýrivöxtum hækkaði ávöxtunarkrafa á óverðtryggð ríkisbréf umtalsvert á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Eins og sjá má af myndinni var krafa styttri ríkisbréfa komin í u.þ.b. 8,3% í febrúarlok og krafa til 10 ára var á sama tíma u.þ.b. 7,0%. Hafði þá fyrrnefnda krafan hækkað um 1,4 prósentur og hin síðarnefnda um 0,8 prósentur frá ársbyrjun.