Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hjaðnar og útlit fyrir áframhaldandi hjöðnun

Ársverðbólga hjaðnar í mars og er komin aftur undir 10%. Það hægir á innfluttri verðbólgu og mun sú þróun líklega halda áfram á næstu mánuðum. Verðbólga mun halda áfram að hjaðna þegar stórir hækkunarmánuðir detta út úr ársverðbólgunni.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,6% í mars frá febrúarmánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar því úr 10,2% í 9,8% í mars. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnar einnig úr 8,9% í 8,6% undanfarna 12 mánuði.

Mæling marsmánaðar er rétt undir spám greiningaraðila. Þær voru á bilinu 0,7-0,8% og spáðum við 0,7% hækkun VNV á milli mánaða. Helsti munur á okkar spá og mælingu Hagstofunnar var að húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu í verði, en við gerðum ráð fyrir hækkun. Matvörur hækkuðu hins vegar minna en við spáðum en húsnæðisliðurinn hafði nokkru meiri áhrif til hækkunar.

Það hægir á innfluttri verðbólgu

Það helsta sem vegur til hækkunar í mánuðinum er liðurinn föt og skór sem hækkaði um 4,3% (0,14% áhrif á VNV). Þar koma fram áhrif útsöluloka eins og jafnan í þessum mánuði. Einnig hækkuðu matur og drykkjavörur í verði um 0,7% (0,11% áhrif á VNV) á milli mánaða. Það er minni hækkun en við gerðum ráð fyrir og gefur vonandi tóninn fyrir það sem koma skal. Frá áramótum hefur þessi liður hækkað um tæplega 4% og á næstu mánuðum gerum við ráð fyrir talsvert hægari hækkunum á innfluttum dagvörum, bæði vegna sterkari krónu en einnig vegna meira jafnvægis á verðþróuninni erlendis.

Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði um 0,6% (0,10% áhrif á VNV). Annars vegar lækkaði eldsneytisverð um 0,7% (-0,03% áhrif á VNV) og hins vegar hækkuðu flugfargjöld um 4,5% (0,09% áhrif á VNV). Þetta er minni hækkun flugfargjalda en við spáðum og vænta má frekari hækkunar á þessum lið í aprílmánuði. Aðrir helstu liðir sem hækkuðu í verði á milli mánaða voru hótel og veitingastaðir um 1,4% (0,07% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta sem hækkuðu um 0,9% (0,07% áhrif á VNV).

Reiknuð húsaleiga hækkar enn

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,1% milli mánaða í mars eftir lækkun síðustu þrjá mánuði. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu í verði um 0,3% á milli mánaða en sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og eignir á landsbyggðinni lækkuðu um 0,2%. Vaxtaþátturinn, sem byggir á 12 mánaða meðaltali vaxta á verðtryggðum íbúðalánum, hafði áhrif til um 0,7% hækkunar reiknaðrar húsaleigu á milli mánaða. Liðurinn, sem byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og þróun verðtryggðra vaxta, hækkar því áfram og hækkaði nú í mars um 0,8% (0,15% áhrif á VNV).

Dregið hefur talsvert úr vægi húsnæðisliðarins í ársverðbólgunni. Af 9,8% verðbólgu í mars skýrir húsnæðisliðurinn 3,1%. Vægi innfluttra vara dregst einnig saman á milli mánaða og skýrir nú um 2,5% af verðbólgunni. Það er vonandi þróun sem mun halda áfram á næstunni. Vægi innlendra vara í verðbólgunni stendur í stað og mælist 1,8% í marsmánuði en vægi þjónustu eykst og skýrir nú um 2,4% af heildarverðbólgunni.

Verðbólga mun halda áfram að hjaðna

Við spáum því að verðbólga haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum þegar stórir hækkunarmánuðir VNV frá því í fyrra detta út úr ársverðbólgunni. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,5% hækkun í apríl, 0,3% í maí og 0,5% hækkun VNV í júní. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,5% í júní. Við gerum ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði 8% á árinu.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 1% í síðustu viku til að bregðast við þrálátari verðbólgu eins og kunnugt er. Það er langur vegur framundan og margt sem þarf að ganga upp til að verðbólga hjaðni í 2,5% markmið Seðlabankans. Þessi verðbólgumæling er peningastefnunefndinni þó líklega talsverður léttir og eykur heldur líkurnar á að brátt sjái fyrir endann á vaxtahækkunarferli bankans.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband