Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað er að hækka svona mikið?

5 áhugaverðar staðreyndir um verðbólguna.


Verðbólgan er komin í 10,2%. Það er allt of mikið og hefur heilmikil áhrif á okkur öll. Í Korni Greiningar Íslandsbanka er greint frá ástæðum þessarar miklu verðbólgu og spáð fyrir um þróunina á næstunni. Slíkt efni má nálgast frá okkur reglulega með skráningu á póstlistann okkar.

Hér langar okkur þó að stíga eitt skref til baka og rýna í þessar verðbólgutölur með öðrum hætti. Lítum á 5 áhugaverðar staðreyndir um þessa miklu verðbólgu í dag.

Hvað hefur hækkað mest?

Ef þér finnst allt vera að hækka ertu með puttann nokkuð vel á verðbólgupúlsinum. Verðhækkanirnar sem búa til þessa miklu verðbólgu koma úr ýmsum áttum og má sem dæmi nefna að matvörur hafa margar hverjar hækkað mikið í verði undanfarið ár. Þá hefur flutningsverð og kostnaður við ferðalög rokið upp sem og húsnæðisverð, þó svo húsnæðismarkaðurinn sé að kólna ansi hratt þessa dagana.

Ef við lítum á nokkur dæmi um hækkanir vekur kannski athygli að loksins virðist gamli góði kálböggullinn vera orðinn lúxusvara. Eða þangað virðist hann í það minnsta stefna því kál hefur hækkað um heilt 31% í verði frá því á sama tíma í fyrra og munar um minna. Það er orðið talsvert dýrara að ferðast (og að verja tíma erlendis sömuleiðis) og loks þarf þessi væna flís af feitum sauð sem ég sá fyrir mér um helgina að vera aðeins minni því lambakjötið okkar er 19% dýrara en í fyrra.

Algengar spurningar varðandi verðbólgu


Hvað hefur lækkað mest?

Það mætti vera úr meira úrvali að velja en þó svo allt virðist vera að hækka hafa einhverjir reikningar lækkað á milli ára, merkilegt nokk. Það er t.d. orðið ódýrara að hjóla heim á nýju hjóli með nýja tösku og hlamma sér fyrir framan nýja sjónvarpið þar sem ný leikjatölva með nýjum tölvuleik býður okkar.

Hvað er að hafa mest áhrif?

Það er ekki hægt að draga verðlækkanir beint frá hækkunum því þegar verðbólgutölur eru birtar er reiknað með því hversu þungt hver og einn útgjaldaliður á að vega. Við eyðum sem dæmi að meðaltali meiri peningum í húsnæðið okkar en tölvuleiki og þá vegur hækkun íbúðaverðs síðastliðið ár þyngra en lækkun á verði tölvuleikja.

Hækkunin eða lækkunin er því margfölduð með vægi þessara kostnaðarliða í verðbólgunni og þegar allt er lagt saman fáum við út 10,2% verðbólgu nú í dag.

Eins og mikið hefur verið um rætt er húsnæði stór áhrifaþáttur í þessari miklu verðbólgu. Hækkanir húsnæðisverðs drifu áfram aukningu verðbólgunnar framan af þessari hækkunarhrinu en nú hefur hratt dregið úr hækkunum og jafnvel orðið vart við nokkrar lækkanir á íbúðamarkaði. Hér sjáum við hvernig þáttur húsnæðisverðs í verðbólgu síðustu 12 mánaða hefur aðeins verið að dragast saman.

Ef við lítum á þessa 10,2% verðbólgutölu vegur húsnæði vissulega ennþá þyngst en að neðan má sjá fleiri liði og vekur þar sérstaklega athygli hversu þungt innflutt verðbólga vegur (appelsínugulu súlurnar). Verðhækkanir í öðrum löndum eru fluttar hingað inn og sömuleiðis getur veiking á gengi krónunnar orðið til þess að innfluttar vörur hækka í verði í krónum talið. Það er þó, eins og áður segir, eiginlega allt að hækka og verðbólgan er því ákveðið bland í poka í þetta skiptið.

Hvað er að gerast í útlöndum?

Við erum vön mikilli verðbólgu hér á landi en víða um heim glíma lönd nú við nýjan og alvarlegan verðbólguvanda. Í Argentínu er verðbólgan sem dæmi í kringum 100%, í Bandaríkjunum 8,5% og í Tyrklandi mælist hún 58% þó svo hagstofustjórinn sem ber ábyrgð á mælingunni hafi verið rekinn. Einhverra hluta vegna dugði það ekki til.

Ef við skoðum Evrópu sérstaklega sést hversu útbreidd og almenn verðbólgan er orðin. Meira að segja í löndum á borð við Sviss, þar sem hún mælist lægst meðal allra evrópskra OECD landa, er hún langt yfir því sem verið hefur undanfarna áratugi og alls staðar hefur hún aukist.

Verðbólga er vandamál alls staðar, en það dregur ekki úr alvarleika málsins hér heima.

Hvað er framundan?

Munum að verðbólga segir til um hvað búið er að gerast. Til þess að hún haldi áfram að vera jafn há þurfa verðhækkanir að halda áfram. Við sjáum nú þegar að húsnæðisverð, mikilvægur þáttur í heildartölunni, er farið að draga niður verðbólguna í stað þess að kynda undir bálið og þá hefur Seðlabankinn hækkað vexti mjög mikið, sem ætlað er að draga úr verðbólgunni, meðal annars með því að hvetja til sparnaðar frekar en neyslu og fjárfestingar.

Þó svo þetta stefni vonandi í rétta átt spáir Greining Íslandsbanka því að verðbólga mælist áfram allt of mikil á næstunni en hægt og bítandi dragi þó úr henni.

Til að fylgjast með því sem framundan er og þróun verðbólgunnar er hér að neðan hægt að skrá sig fyrir Korni Greiningar, þar sem meðal annars spár um þróun verðbólgunnar verða birtar mánaðarlega.

Póstisti Greiningar Íslandsbanka

Skráðu þig á póstlista Greiningar og fáðu efni um verðbólgu og efnahagsmál sent í tölvupósti

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Hafa samband