Verðbólgan er komin í 10,2%. Það er allt of mikið og hefur heilmikil áhrif á okkur öll. Í Korni Greiningar Íslandsbanka er greint frá ástæðum þessarar miklu verðbólgu og spáð fyrir um þróunina á næstunni. Slíkt efni má nálgast frá okkur reglulega með skráningu á póstlistann okkar.
Hér langar okkur þó að stíga eitt skref til baka og rýna í þessar verðbólgutölur með öðrum hætti. Lítum á 5 áhugaverðar staðreyndir um þessa miklu verðbólgu í dag.
Hvað hefur hækkað mest?
Ef þér finnst allt vera að hækka ertu með puttann nokkuð vel á verðbólgupúlsinum. Verðhækkanirnar sem búa til þessa miklu verðbólgu koma úr ýmsum áttum og má sem dæmi nefna að matvörur hafa margar hverjar hækkað mikið í verði undanfarið ár. Þá hefur flutningsverð og kostnaður við ferðalög rokið upp sem og húsnæðisverð, þó svo húsnæðismarkaðurinn sé að kólna ansi hratt þessa dagana.
Ef við lítum á nokkur dæmi um hækkanir vekur kannski athygli að loksins virðist gamli góði kálböggullinn vera orðinn lúxusvara. Eða þangað virðist hann í það minnsta stefna því kál hefur hækkað um heilt 31% í verði frá því á sama tíma í fyrra og munar um minna. Það er orðið talsvert dýrara að ferðast (og að verja tíma erlendis sömuleiðis) og loks þarf þessi væna flís af feitum sauð sem ég sá fyrir mér um helgina að vera aðeins minni því lambakjötið okkar er 19% dýrara en í fyrra.