Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga rýfur 10% múrinn í fyrsta sinn frá haustinu 2009

Margt lagðist á eitt í að auka við verðbólgutaktinn í febrúarmánuði. Verðbólga mælist nú 10,2% og hefur ekki verið meiri í rúman áratug. Þótt hert aðhald Seðlabankans sé farið að koma allsterkt fram á íbúðamarkaði eru horfur á að stýrivextir hækki aftur í marsmánuði.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,39% í febrúar frá janúarmánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst því úr 9,9% í 10,2% í febrúar. Hefur verðbólgan ekki verið meiri í rúm 12 ár. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 8,9% undanfarna 12 mánuði en sú vísitala hækkaði um 1,8% milli mánaða í febrúar.

Mæling febrúarmánaðar er talsvert yfir spám greiningaraðila. Spár voru á bilinu 0,8 – 0,9% og spáðum við 0,8% hækkun VNV á milli mánaða. Munurinn á okkar spá og mælingu Hagstofunnar var hvað mestur í liðum á borð við húsgögn og heimilisbúnað, tómstundir og menningu sem og flugfargjöld. Á móti hækkaði húsnæðisliðurinn minna en við höfðum vænst.

Verðbólguþrýstingur er víða

Margt leggst á eitt um að þrýsta upp verðbólgu þessa dagana og ekki er hægt að hengja frávik spáa frá mælingu Hagstofunnar á fáa tiltekna liði. Til að mynda hækkuðu ýmsar vörur sem verið höfðu á útsölu í janúar umtalsvert í mælingunni nú. Má þar nefna húsgögn og heimilisbúna sem hækkaði í verði um 8,7% í febrúar (0,53% áhrif í VNV) sem og tómstundir og menningu þar sem verðhækkun á tölvum, sjónvörpum og slíkum græjum vó hvað þyngst í 1,5% hækkun liðarins (0,14% í VNV) á milli mánaða. Föt og skór hækkuðu sömuleiðis umtalsvert og nam mánaðarhækkunin 6,8% (0,21% í VNV). Enn er þó ekki útséð um hvort þessir liðir voru fyrst og fremst að hækka vegna þess að útsölulok voru fyrr á ferð en áður eða hvort nýjar vörur eru einfaldlega á talsvert hærra verði en þær sem fóru á útsölur í janúar.

Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 1,9% í febrúar (0,3% í VNV) eftir 2% hækkun í janúar. Þar vó hækkun á verði innfluttra matvæla einna þyngst. Auk þess hækkuðu heilsutengdir liðir VNV um 1,5% (0,05% í VNV) og verð á þjónustu hótela og veitingastaða hækkað um 1,3% (0,07% í VNV).

Íbúðaverð farið að halda aftur af verðbólgu

Öfugt við það sem verið hefur síðustu misserin hélt íbúðaverð aftur af hækkun VNV nú í febrúar. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar lækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,5% frá síðustu mælingu. Reiknaða húsaleigan hækkaði þó lítillega í febrúarmælingunni (0,02% í VNV) vegna vaxtaþáttar sem byggður er á vöxtum verðtryggðra íbúðalána. Þeir vextir hafa hækkað talsvert undanfarið ár.

Ljóst virðist að hækkun vaxta og hert skilyrði um íbúðalán af hálfu Seðlabankans er farið að hafa talsverð áhrif á íbúðaverð. Árshækkun íbúðaverðs mælist nú tæp 16% samkvæmt Hagstofunni og hefur hækkunartakturinn ekki verið hægari frá árslokum 2021.

Leiguverð hækkaði hins vegar um 0,9% (0,04% í VNV) og viðhaldskostnaður íbúðarhúsnæðis um rúm 2% (0,02% í VNV).

Það voru líka einstaka önnur ljós í verðhækkunarmyrkrinu í febrúarmælingu Hagstofunnar. Til að mynda lækkaði bifreiðaverð um 0,7% (-0,04% í VNV) eftir verulega hækkun í ársbyrjun. Rafmagns- og húshitunarkostnaður heimila lækkaði um 0,2% (-0,01% í VNV) og eldsneytisverð á bifreiðar landsmanna um 0,4% (-0,01%) milli mánaða. Þá lækkaði verð á síma- og netþjónustu um ríflega 2% (-0,02% í VNV).

Verðbólguveturinn harðari en vænst var

Enn og aftur reynist verðbólga meiri en almennt var spáð. Hún er auk þess á býsna breiðum grunni og hætta á að verðbólgan reynist þrálát heldur þar með áfram að aukast. Svo útbreidd hækkun undirliða VNV er til að mynda merki um að kostnaðarauki í framleiðslu, verslun og þjónustu sé að smitast út í verðlag. Laun hækkuðu umtalsvert hjá stærstum hluta launafólks á almennum vinnumarkaði í ársbyrjun á sama tíma og undanfarin verðhækkun á innfluttum aðföngum sem og tilbúnum innfluttum vörum hefur sagt til sín í vaxandi mæli. Við teljum þó líkur á að verðbólga muni hjaðna næstu mánuði. Í bráðabirgðaspá okkar spáum við 0,6% hækkun í mars, 0,4% í apríl og 0,3% í maí. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 8,4% í maí. Í ljósi þróunarinnar undanfarið er þó rétt að setja ákveðinn fyrirvara við þeirri bráðabirgðaspá og munum við meta horfurnar að nýju fyrir næstu verðbólguspá á fyrri helmingi marsmánaðar.

Vaxtahækkun líkleg í mars

Seðlabankinn hafði af því áhyggjur við síðustu vaxtaákvörðun í febrúarbyrjun hversu verðbólga væri að grafa um sig á breiðum grunni. Taldi peningastefnunefnd bankans líklegt að auka yrði aðhald enn frekar á næstunni. Verðbólgumælingin nú verður síst til þess að slá á þessar áhyggjur nefndarinnar og virðist nú fátt geta komið í veg fyrir hækkun stýrivaxta í marsmánuði.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband