Hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð um 1.963 ma.kr. um síðustu áramót, eða sem svarar til 42,5% af vergri landsframleiðslu (VLF). Á þennan kvarða hefur hrein eign Íslendinga erlendis aðeins einu sinni mælst meiri, en það var í árslok 2021. Þetta kemur fram í nýlega birtum tölum Seðlabankans. Erlendar eignir innlendra aðila námu alls 6.549 ma.kr. um áramótin en erlendar skuldir voru 4.586 ma.kr. á sama tíma.
Hreinar erlendar eignir nálgast sögulegar hæðir
Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur sjaldan verið hagfelldari en um þessar mundir. Myndarleg erlend verðbréfafjárfesting vegur þar talsvert þyngra en hreinar vaxtaberandi skuldir og meiri bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi en samsvarandi erlendar fjárfestingar landsmanna. Hagfelld erlend staða er grunnforsenda til að hægt sé að búa við sjálfstæðan gjaldmiðil án óhóflegrar áhættu og óvissu.
Erlenda staðan batnaði þrátt fyrir viðskiptahalla í fyrra
Á síðasta ári batnaði hreina erlenda staðan um 515 ma.kr. eða sem nemur 11% af VLF. Þessi hagfellda þróun varð þrátt fyrir talsverðan viðskiptahalla í fyrra líkt og við fjölluðum um nýlega. Ein meginskýring þessa er meðbyr á erlendum hlutabréfamörkuðum. Má þar nefna að MSCI heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 12,5% á síðasta ári, sé leiðrétt fyrir breytingum á gengi krónu. Á sama tíma jókst erlend verðbréfaeign þjóðarbúsins (þ.e. óbein fjárfesting í verðbréfum) um tæp 17% enda hafa innlendir aðilar, sér í lagi lífeyrissjóðir, trúlega keypt slíkar eignir fyrir talsvert háar fjárhæðir á síðasta ári. Í því sambandi má nefna að samkvæmt gögnum Seðlabankans námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða í fyrra ríflega 84 ma.kr.
Myndarlegar verðbréfaeignir erlendis vega þungt
Eins og við höfum fjallað um áður er verulegur munur á samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins. Þótt hreinar eignir séu myndarlegar eru tveir af fjórum megin eignaflokkum sem mynda erlendu stöðuna í talsverðum mínus frá okkar Íslendinga bæjardyrum séð.
Eru það annars vegar vaxtaberandi skuldir, en erlendar skuldir af því tagi voru 1.369 ma.kr. umfram eignir um síðustu áramót. Góðu heilli ber þó stærstur hluti erlendra skulda erlenda vexti og er vaxtabyrði vegna þeirra því talsvert minna íþyngjandi en ella.
Hins vegar er bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi 682 ma.kr. umfram beina erlenda fjárfestingu landsmanna miðað við gögn Seðlabankans fyrir árslok 2024. Til skamms tíma voru það helst álverin sem skýrðu þá stöðu. Undanfarið hafa hins vegar erlendir aðilar keypt önnur innlend fyrirtæki í nokkrum mæli. Tvö nýleg dæmi þar um eru Kerecis og Marel. Góðu heilli hafa samsvarandi fjárfestingar Íslendinga erlendis hins vegar nokkurn veginn vegið upp þá þróun og eins af sjá má af myndinni hefur nettóstaðan á þessum lið því ekki breyst ýkja mikið undanfarin misseri.
Einn eignaflokkur ræður hins vegar mestu um hagfellda erlenda stöðu þjóðarbúsins en það er verðbréfafjárfesting (e. portfolio investment). Hrein eign landsmanna í þeim eignaflokki nam 3.355 ma.kr. um liðin áramót og hefur sú staða vaxið verulega síðasta áratuginn eða svo. Er það bæði vegna fjárfestinga lífeyrissjóðanna og annarra fjárfesta í slíkum eignum erlendis og eins vegna hagfelldrar þróunar á hlutabréfaverði á tímabilinu þrátt fyrir ýmsa sviptivinda á erlendum mörkuðum.
Auk verðbréfafjárfestingarinnar kemur gjaldeyrisforði Seðlabankans sjálfs til hækkunar á hreinu erlendu stöðunni en stór hluti hans er fjármagnaður innanlands og standa því ekki erlendar skuldir á móti forðanum nema að hluta. Gjaldeyrisforðinn hefur löngum skilað býsna rýrum vaxtatekjum til Seðlabankans en þar hefur orðið bót á með hækkandi vöxtum á heimsvísu. Þó er vitaskuld vaxtamunurinn bankanum í óhag að því marki sem innlendar skuldir standa á móti forðanum.
Til að gera langa sögu stutta er ekki ástæða til að hafa af því áhyggjur þótt erlendir aðilar fjárfesti í innlendum fyrirtækjum við núverandi aðstæður, öfugt við það sem stundum heyrist í umræðunni. Staðreyndin er nefnilega sú að eign Íslendinga í fyrirtækjarekstri erlendis er mun meiri þótt þær eignir séu dreifðar og að stórum hluta fólgnar í hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum.
Fyrsti áratugur hreinnar erlendrar eignar
Sem fyrr segir er erlend staða þjóðarbúsins með því hagfelldasta sem mælst hefur svo langt aftur sem hagtölur opinberra aðila ná. Raunar er ekki nema áratugur síðan Ísland náði þeim áfanga að erlendar eignir færu fram úr erlendum skuldum en fram að því höfðu hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins hlaupið á tugum prósenta af VLF.
Sú vísa verður seint of oft kveðin hversu mikil grundvallar breyting felst í þessum viðsnúningi erlendu stöðunnar. Lítið, opið hagkerfi með fljótandi mynt og neikvæða erlenda stöðu er afar útsett fyrir duttlungum alþjóðamarkaða og efnahagslegum áföllum eins og sýndi sig áþreifanlega í fjármálahruninu 2008 þegar þurfti að setja á víðtæk gjaldeyrishöft til þess að ekki kæmi til gjaldeyriskreppu hér á landi.
Sú hætta er í raun úr sögunni í ljósi núverandi erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Það hefur svo býsna jákvæð áhrif á stöðugleika íslensku krónunnar sem endurspeglast í því að sveiflur í henni hafa minnkað til muna undanfarin ár miðað við fyrri tíð. Hin hagfellda erlenda staða er því lykillinn að því að búa megi við íslensku krónuna án þess að af því fylgi þeim mun meiri óvissa og áhætta, bæði fyrir landsmenn sjálfa og eins þá erlendu aðila sem fjárfesta hér á landi eða fjármagna íslenskt efnahagslíf með öðrum hætti.