Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Háönn ferðaþjónustu byrjar af krafti

Nýliðinn júnímánuður var hársbreidd frá því að slá fyrra met i fjölda ferðamanna í júní hér á landi. Útlit er fyrir að hreint gjaldeyrisinnflæði tengt kortaveltu hafi verið talsvert í júní og verði það áfram næstu mánuði. Myndarlegur vöxtur þjónustutekna, ekki síst frá ferðaþjónustu, vegur þungt í spá okkar um batnandi viðskiptajöfnuð og styrkingu krónu á komandi misserum.


Háönn ferðaþjónustunnar byrjaði af miklum krafti þetta sumarið. Samkvæmt nýlegum tölum Ferðamálastofu fóru 233 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll í júní sl. Var það einungis sjónarmun frá 234 þúsunda metfjöldanum í júnímánuði árið 2018.

Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir meðal þess ferðafólks sem sótti landið heim í júnímánuði miðað við tölur Ferðamálstofu. Alls komu 101 þúsund þarlendir ferðamenn til landsins í síðasta mánuði og er þetta einungis í annað skiptið sem fjöldi bandarískra ferðamanna fer yfir 100 þúsunda múrinn í einum mánuði. Voru ríflega 4 af hverjum 10 erlendum ferðamönnum í júnímánuði þarlendir. Í öðru sæti var ferðafólk frá Þýskalandi (7,6% af heild), þá Pólverjar (7,0%), Bretar (4,4%) og Frakkar (4,2%). Ferðafólk frá Norðurlöndunum var alls tæplega 5% af heildarfjöldanum í júní.

Landsmenn draga úr ferðagleðinni

Á sama tíma og erlendum ferðamönnum fjölgar ört hér á landi hefur nokkuð dregið úr ferðagleði landsmanna. Brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll voru alls um 55 þúsund. Er það bæði fækkun frá síðastliðnum maímánuði (62 þúsund) og frá júní í fyrra (66 þúsund). Þar kemur líklega bæði til að landsmenn hafa nú trúlega svalað mesta uppsafnaða ferðaþorstanum frá faraldursárunum og eins hitt að verðbólgan bítur nokkuð fast í buddu landans þessa dagana.

Þessi ólíka þróun í heimsóknum erlends ferðafólks hingað til lands og utanlandsferðum Íslendinga veit á gott fyrir þróun þjónustujafnaðar þessa dagana. Ferðalög landa á milli vega þar nokkuð þungt þótt vitaskuld séu þjónustuviðskipti af margvíslegum öðrum toga. Ekki liggja enn fyrir tölur yfir kortaveltu Íslendinga á erlendri grundu í júní. Rannsóknasetur verslunarinnar birti hins vegar í morgun veltutölur fyrir erlend greiðslukort á Íslandi til og með júní. Þar kemur fram að heildarvelta erlendra korta hér á landi var 36 ma.kr. í júnímánuði og jókst slík velta um rúman fjórðung á milli ára.

Allar líkur eru á að líkt og flest fyrri ár sé þar með hafið árvisst tímabil myndarlegs gjaldeyrisinnflæðis vegna kortaviðskipta sem alla jafna stendur frá júní og að minnsta kosti fram í september. Eins og sjá má af myndinni er mikil fylgni milli sveiflunnar í kortajöfnuði milli landa og í þjónustujöfnuði í heild. Háönn ferðaþjónustunnar vegur því, líkt og undanfarin ár, drjúgt á móti neysluútgjöldum landsmanna erlendis og öðru gjaldeyrisútflæði vegna innfluttrar neyslu og fjárfestingar hér á landi.

Ferðaþjónustan dregur gjaldeyrisbjörg í bú

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í maílok spáðum við því að fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll færi nokkuð yfir 2,1 milljón í ár og yrði 2023 þar með næstfjölmennasta árið frá upphafi af þessu leyti. Við það bætast svo komur erlendra ferðamanna um aðra innlenda flugvelli, með ferjunni Norrænu auk viðkomu erlendra skemmtiferðaskipa hér á landi. Nýjustu ferðamannatölur benda til þess að sú spá sé enn í góðu gildi og ef eitthvað er, í hóflegri kantinum. Lauslega áætlað gætu gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar orðið í námunda við 600 ma.kr. í ár og hafa þær ekki áður verið svo miklar. Á móti vegur að halli á vöruskiptum gæti orðið heldur meiri í ár en við áætluðum.

Að sama skapi eru horfur um viðskiptajöfnuð enn í takti við maíspána. Þar gerðum við ráð fyrir að viðskiptahalli myndi nema 0,7% af vergri landsframleiðslu (ríflega 30 ma.kr.) í ár þar sem myndarlegur útflutningsvöxtur, að stærstum hluta upprunninn í ferðaþjónustu, myndi vega þungt í að draga úr viðskiptahalla milli ára. Næstu tvö ár eigum við svo von á hóflegum viðskiptaafgangi. Batnandi utanríkisviðskipti eru einmitt ein af helstu ástæðum þess að við væntum nokkurrar styrkingar krónu á komandi misserum líkt og við fjölluðum nýverið um.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband