Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Krónan í styrkingarham á ný?

Gengi krónu gagnvart evru og dollar er nú nálægt sínum hæstu gildum á þessu ári. Jákvæðar fréttir tengdar innlendum fyrirtækjum eiga líklega stóran þátt í styrkingu krónu undanfarið. Horfur eru á frekari styrkingu krónu á komandi misserum.


Gengi krónu fór síðastliðinn fimmtudag í sín sterkustu gildi frá áramótum gagnvart evru og Bandaríkjadollar eftir ríflega prósentu styrkingu þann daginn. Evran kostar þegar þetta er ritað 147,2 kr. og dollarinn 134,3 kr. Til samanburðar kostaði evra 151,5 kr. og dollarinn 142,0 í ársbyrjun. Styrking krónu það sem af er ári nemur því 3,3% gagnvart evru og 5,4% gagnvart dollaranum. Breska pundið er hins vegar á álíka slóðum (172 kr.) og um áramót enda hefur pundið almennt styrkst gagnvart öðrum helstum myntum á tímabilinu.

Styrking krónu það sem af er júlí kemur í kjölfar 4 mánaða tímabils tiltölulega stöðugrar krónu allt frá marsbyrjun. Síðan þá og fram í júnílok sveiflaðist til að mynda evran á bilinu 148 - 152 kr. og dollarinn á bilinu 135 -142 kr.

Jákvæð tíðindi af íslenskum fyrirtækjum
Líklegt er að a.m.k. hluta nýlegrar hækkunar á gengi krónu megi rekja til væntinga um gjaldeyrisinnflæði í kjölfar orðróms, og síðar staðfestra frétta, um kaup alþjóðlega lækningavörufyrirtækisins Coloplast á ísfirska sprotafyrirtækinu Kerecis sem framleiðir lækningavörur úr fiskroði. Mun söluverðið jafngilda tæpum 180 ma.kr. Um það bil tveir þriðju hlutar þess fjár mun renna til innlendra eigenda Kerecis, sem líklega munu á endanum selja a.m.k. hluta þess gjaldeyris sem í þeirra hlut kemur fyrir krónur. Nokkrar vikur eru þó í að viðskiptin verði frágengin og eiginlegt greiðsluflæði fylgi þeim. Þá hafa jákvæð tíðindi borist af farþegafjölda hjá íslensku flugfélögunum í júní og fregnir af yfirvofandi eldgosi auka líkur á að háönn ferðaþjónustunnar kunni að teygjast lengra fram í haustið þetta árið en áður var talið.

Hin nýfrágengnu kaup Coloplast á Kerecis eru nýjasta dæmið um hversu miklu máli breytingar í fjárfestingaflæði til og frá landinu geta skipt fyrir væntingar á gjaldeyrismarkaði. Í fyrrahaust fengum við tvö slík dæmi þar sem fréttir bárust af sölu Símans á Mílu og Origo á hlut í Tempo til erlendra aðila. Samtals var hreint innflæði vegna skráðra nýfjárfestinga (gráu súlur á mynd) u.þ.b. 62 ma.kr. í september og október á síðasta ári og tengist stór hluti þess viðskiptunum með félögin tvö. Auk þess var talsvert innflæði á gjaldeyrismarkaði undanfarið ár tengt innleiðingu íslenska hlutabréfamarkaðarins í Secondary Emerging Markets vísitölu FTSE Russell. Sú innleiðing var í þremur áföngum í september og desember 2022 sem og mars sl. og má glöggt sjá á grafinu áhrif seinni áfanganna tveggja á hreint flæði vegna nýfjárfestinga.

Allnokkrar sveiflur hafa hins vegar verið á flæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta það sem af er ári. Nýlega birtar tölur Hagstofunnar sýna til að mynda að miðað við bráðabirgðatölur var vöruskiptahalli í júní (43 ma.kr.) sá mesti frá október í fyrra. Á móti sýna nýjar tölur frá Ferðamálastofu að heimsóknir erlendra ferðamanna til landsins í júní voru álíka margar og metárið 2018 á sama tíma og utanferðum Íslendinga fækkaði um 16% milli ára. Halli á samanlögðum vöru- og þjónustujöfnuði var væntanlega allnokkur í bæði maí og júní þótt afgangur af þjónustuviðskiptum hafi að okkar mati vegið talsvert gegn vöruskiptahallanum undanfarið.

Gengið hægar um krónugleðinnar dyr í ár?

Áhugavert er að bera saman gengisþróun krónu á fyrri helmingi þessa árs við sama tíma í fyrra með hliðsjón af þróun framvirkrar stöðu markaðsaðila í gjaldmiðlasamningum.

·         Á fyrri helmingi síðasta árs styrktist krónan um rúm 5% þrátt fyrir 64 ma.kr. viðskiptahalla. Samhliða jókst hrein framvirk stöðutaka fyrirtækja og fjárfesta með krónu um 75 ma.kr.

·         Á fyrri árshelmingi 2023 var styrkingin hins vegar 3% þótt viðskiptahalli hafi einungis verið ríflega 10 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins og trúlega nokkru minni en í fyrra á fyrri helmingi ársins í heild. Ekki liggja fyrir gögn fyrir júní um framvirka gjaldeyrisstöðu. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs jókst hrein framvirk stöðutaka fyrirtækja og fjárfesta með krónu hins vegar aðeins um 19 ma.kr.

Það er því nærtækt að draga þá ályktun að tengsl hafi verið milli gengisþróunar krónu og þróunar framvirkra gjaldeyrissamninga undanfarin tvö ár, en stutt er síðan hömlum á slíka samninga var að mestu aflétt eftir rúman áratug af allströngum höftum á slíka samninga. Í lok maí var hrein framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptavina viðskiptabankanna 175 ma.kr. en hámarki náði staðan hins vegar í 197 ma.kr. í ágústlok á síðasta ári.

Í sem stystu máli má orða þetta þannig að gjaldeyrismarkaður hafi verið búinn að taka forskot á sæluna í fyrra og verðlagt gjaldeyrisinnflæði sumarsins inn í gengi krónu að stórum hluta á fyrri helmingi ársins. Slík verðlagning á framtíðarflæði hefur trúlega verið mun hóflegri áhrifaþáttur á gengi krónu á fyrri helmingi þessa árs. Það gæti svo haft í för með sér að beinu áhrifin á gengi krónu af gjaldeyrisinnflæði vegna háannar ferðaþjónustunnar á þeim tíma sem tekjurnar streyma inn gætu orðið sterkari í ár en í fyrra. Vert er þó að halda til haga að gjaldeyrismarkaður er ólíkindatól og aðrir þættir á borð við verðbréfaviðskipti milli landa og fjárfestingar á borð við framangreind fyrirtækjakaup spila hér einnig stórt hlutverk.

Frekari styrking krónu í kortunum

Þrátt fyrir styrkingu krónu frá áramótum er gengi hennar enn nokkru lægra en það var fyrir ári síðan og sama er uppi á teningnum samanborið við meðalgengi ársins 2019. Þróun krónunnar upp á síðkastið og horfur varðandi áhrifaþætti á borð við viðskiptajöfnuð, erlenda stöðu þjóðarbúsins, fjárfestingaflæði, hagvöxt hérlendis í samanburði við viðskiptalönd og vaxtamun styrkir okkur í þeirri trú að meiri líkur séu en minni á sterkari krónu á komandi misserum en verið hefur síðustu tvö ár.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáðum við því að gengi krónu myndi verða um það bil 8% sterkara á seinni hluta ársins 2025 en það var í byrjun þessa árs. Það jafngildir því að evra muni kosta u.þ.b. 142 kr. að rúmum tveimur árum liðnum samanborið við tæpar 152 kr í ársbyrjun. Miðað við núverandi gengi er krónan hálfnuð á þeirri vegferð. Vitaskuld blása þó sviptingasamir vindar á gjaldeyrismarkaði frá einum tíma til annars og illmögulegt er að spá um gengi gjaldmiðla án þess að gera ráð fyrir víðum skekkjumörkum í slíkum spám.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband