Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hægir á vexti kortaveltu

Kortavelta jókst um tæplega 3% að raunvirði í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Það er hægasti vöxtur kortaveltunnar frá því í febrúar 2021. Hægt hefur á vexti kortaveltunnar síðastliðna mánuði og ætla má vöxtur einkaneyslu verði talsvert hægari á lokafjórðungi ársins en verið hefur.


Landsmenn straujuðu greiðslukort sín fyrir ríflega 112 milljarða króna í nóvember síðastliðnum samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans. Það samsvarar 13% aukningu miðað við sama mánuð í fyrra. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta um tæplega 3% á milli ára í nóvembermánuði. Það er jafnframt hægasti vöxtur kortaveltunnar frá því í febrúar 2021.

Líkt og fyrri daginn er það erlenda kortaveltan sem heldur uppi vextinum. Raunar stóð innlend kortavelta í stað á milli ára að raunvirði en á sama tíma jókst kortavelta erlendis um 16%. Það er þó farið að hægja talsvert á vexti erlendrar kortaveltu sem rímar vel við gögn um utanlandsferðir landans. Eins og við fjölluðum um fyrr í vikunni fækkaði utanlandsferðum Íslendinga um helming í nóvember frá metmánuðinum október. Brottfarir Íslendinga í nóvembermánuði hafa ekki verið færri síðan árið 2014 ef undanskildir eru tveir nóvembermánuðir í Kórónuveirufaraldrinum.

Nóvember: netverslunarmánuður ársins

Í gögnum Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) sést glögglega hvað nóvember er stór netverslunarmánuður. Tæplega 13% af allri greiðslukortaveltu fór í gegnum netið í nóvember síðastliðnum en aðra mánuði ársins er hlutfall netverslunnar að jafnaði ríflega 7%. Ástæðan er sú að afsláttardagar að bandarískri fyrirmynd hafa verið að ryðja sér til rúms hér á landi á undanförnum árum. Erlendar netverslanir eru ansi vinsælar á meðal landans og því er ekki ólíklegt að vöxturinn í erlendri kortaveltu sé að hluta til vegna netverslunnar.

Hægja mun á einkaneysluvextinum

Einkaneysla jókst um 10,9% að raunvirði fyrstu 9 mánuði ársins miðað við sama tímabil árið áður samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta er hraðasti einkaneysluvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins í 17 ár og greinilegt að almenningur hefur verið að gera vel við sig eftir faraldurinn.

Miðað við kortaveltutölur síðustu mánaða er útlit fyrir að það muni hægja nokkuð á einkaneysluvextinum á lokafjórðungi ársins. Aðrir hagvísar styðja þá skoðun okkar. Til að mynda hafa væntingar Íslendinga mælst fremur lágar að undanförnu þar sem mikil verðbólga og hækkandi vextir hafa líklega sitt að segja.

Í þjóðhagsspá okkar frá því í september spáðum við því að hægja myndi nokkuð á einkaneysluvextinum á lokafjórðungi ársins og að einkaneyslan myndi vaxa um nærri 9% að raunvirði á milli ára. Miðað við nýjustu tölur erum við enn þeirrar skoðunar að það verði líkleg niðurstaða. Á næsta ári spáum við tæplega 2% vexti einkaneyslunnar en þá hafa heimilin gengið talsvert á sparnað sinn og kaupmáttarvöxtur verður fremur lítill. Árið 2024 spáum við tæplega 3% vexti samhliða hjöðnun verðbólgunnar og þar af leiðandi nokkuð hraðari kaupmáttarvexti.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband