Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þriðji fjölmennasti ferðamannanóvember frá upphafi

Erlendir ferðamenn voru ríflega 138 þúsund í nóvember og hafa einungis tvisvar verið fleiri í þeim mánuði. Á sama tíma dró mikið úr ferðagleði Íslendinga frá því fyrr í haust. Hlutur erlendra korta í kortaveltu innanlands hefur aukist hratt undanfarið og nam hún tæpum fjórðungi af heildar kortaveltu í júní-nóvember. Líklega munu rúmlega 1,7 milljón ferðamenn heimsækja Ísland í ár en óvissa tengd efnahagsbakslagi erlendis gæti litað næstu fjórðunga.


Ferðamannahaustið hefur verið myndarlegt hér á landi og var lítið lát á vinsældum landsins meðal erlends ferðafólks í nóvember. Alls sóttu ríflega 138 þúsund erlendir ferðamenn landið heim ef miðað er við nýbirtar tölur Ferðamálastofu og ISAVIA um brottfarir frá Keflavíkurflugvelli. Aðeins árin 2017 og 2018 voru erlendir ferðamenn fjölmennari í þessum mánuði.

Ferðafólk frá enskumælandi löndum var fjölmennt á landinu í nóvember líkt og fyrri daginn. Fjölmennastir voru Bandaríkjamenn (31% af heild) og þar á eftir komu Bretar (25%) en eins og sést á myndinni hafa þarlendir ferðamenn verið að sækja í sig veðrið með lækkandi sól líkt og gjarnan hefur verið raunin undanfarin ár. Í kjölfar þessara þjóða koma svo Þjóðverjar (5%), Frakkar (3%) og Pólverjar (3%). Fólk frá Norðurlöndunum var samtals 4% af heildarfjöldanum. Athygli vekur að ferðamenn frá Kína eru heldur að sækja í sig veðrið miðað við undanfarin misseri. Þaðan komu 2.500 manns (tæp 2% af heild) í nóvember og hafa ekki verið fleiri í einum mánuði frá desember í fyrra. Rétt er að halda til haga að tölur um Kínverja innifela einnig fólk frá Hong Kong og Taívan.

Hlutur erlendra korta í kortaveltu á hraðri uppleið

Það munar heldur betur um ferðamennina í innlendri kortaveltu, nú þegar fjöldi þeirra er aftur kominn á svipaðar slóðir og fyrir faraldur. Í nóvember var velta vegna erlendra greiðslukorta innanlands tæpir 17 ma.kr. samkvæmt tölum Rannsóknaseturs verslunarinnar, sem samsvarar 15% af heildarkortaveltu innanlands. Undanfarna 6 mánuði, þ.e. frá júníbyrjun til nóvemberloka, hafa erlend kort skilað 167 ma.kr. tekjum innanlands og hefur veltan ekki áður verið meiri á þann mælikvarða. Til samanburðar var velta erlendra korta innanlands á þessu sama tímabili 155 ma.kr. árið 2018 þegar hún sló hæst á árunum fyrir faraldur.

Krónutalan segir þó auðvitað ekki alla söguna þar sem verðlag og gengi krónu hefur breyst umtalsvert síðustu misseri. Þannig var velta erlendra korta innanlands rúmlega 24% af heildarveltu á þessu 6 mánaða tímabili en á sama tíma 2018 var þetta hlutfall nærri 29%.

Færri íslenskar tásur á Tene?

Eftir mikla umræðu um tásufjölda á Tenerife á haustmánuðum verður það eflaust Seðlabankanum og ýmsum öðrum nokkur léttir að utanferðum Íslendinga fækkaði um helming í nóvember frá metmánuðinum október. Alls héldu ríflega 34 þúsund Íslendingar af landi brott í nóvembermánuði um Keflavíkurflugvöll og hafa brottfarir landsmanna um Keflavíkurvöll ekki verið færri frá því Kórónuveiran var að slaka á klónni í maímánuði sl. Samanborið við sama mánuð áranna fyrir faraldur var það síðast í nóvember árið 2014 sem brottfarirnar voru færri. Landsmenn virðast því mikið til hafa hlaupið af sér ferðahornin fyrr í haust.

Ef að líkum lætur hafa útgjöld landans á ferðalögum erlendis skroppið saman í svipuðum mæli og ferðafjöldinn í nýliðnum nóvember frá mánuðunum á undan. Á móti gæti þó vegið að vörukaup landsmanna af erlendum netverslunum hafa líklega verið umtalsverð í nóvember og hinir ýmsu tilboðsdagar sem einkenna mánuðinn verið nýttir til jólagjafakaupa sem aldrei fyrr. Gleggri mynd fæst af þeirri þróun á næstu dögum þegar Seðlabankinn birtir kortaveltutölur fyrir nóvember.

Horfur á ríflega 1,7 milljón ferðafólks í ár

Við spáðum í þjóðhagsspá okkar sem birt var í septemberlok að 1,7 milljónir ferðafólks myndu heimsækja Ísland á yfirstandandi ári. Eins og sjá má af myndinni hafa síðustu mánuðir verið í samræmi við spá okkar og ef eitthvað er heldur drýgri. Á fyrstu 11 mánuðum ársins sóttu tæplega 1.590 þúsund ferðamenn Ísland heim. Miðað við árstíðarsveifluna síðustu þrjú árin fyrir faraldur gætu ferðamenn í desember orðið í námunda við 130 þúsund sem myndi jafngilda um það bil 1.715 þúsund heimsókna á árinu í heild.

Í september spáðum við því líka að erlendir ferðamenn á næsta ári yrðu í grennd við 2 milljónir. Miðað við þróun í flugframboði, bókunum og öðrum vísbendingum um komandi fjórðunga í greininni eru enn ágætar líkur á að sú spá gangi eftir og raunar má túlka sumar þeirra þannig að spá okkar sé í hóflegra lagi. Þó erum við ekki enn búin að bíta úr nálinni með möguleg áhrif af efnahagslegu bakslagi í mörgum þeirra landa sem ferðafólk hingað til lands kemur hvað helst frá.

Sér í lagi er umtalsverð óvissa um hvort Bretar, sem eru okkur býsna dýrmætir vetrarferðamenn, muni skila sér í sama takti út veturinn og verið hefur. Það er því hollast í bili að vona það besta en vera þó viðbúinn einhverju bakslagi á komandi fjórðungum þótt þróunin frá því faraldurinn lét undan síga hafi sannað kyrfilega að Ísland er komið til að vera sem vinsæll áfangastaður ferðaþyrstra um víða veröld.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband