Nýlega birtar niðurstöður úr júníkönnun Gallup fyrir SA og Seðlabankann meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins draga fram athyglisverðan mun á væntingum til efnahagshorfa á seinni helmingi ársins. Almennt líta stjórnendurnir fremur björtum augum til næstu framtíðar sem endurspeglast í vísitölugildinu 120, en í því felst að nokkru fleiri svarendur gera ráð fyrir að efnahagsaðstæður batni en hinir sem telja að þær muni versna. Þó hefur dregið talsvert úr bjartsýninni það sem af er ári. Í lok síðasta árs mældist heildargildi vísitölu fyrir 6 mánaða væntingar fyrirtækjastjórnenda þannig 163 og í mars var gildið 147.
Svartsýni útbreidd í sjávarútvegi
Mikill munur er hins vegar á viðhorfi stjórnenda eftir mismunandi geirum. Mest er bjartsýnin í byggingageiranum þar sem allir svarendur telja horfur bjartar. Þá er bjartsýni einnig nokkuð útbreidd í hinum ýmsu þjónustugreinum, allt frá verslun til fjármálageirans.