Fyrirtækin beita upp í vindinn

Seigla ríkir meðal íslenskra fyrirtækja þrátt fyrir áskoranir í rekstrarumhverfinu en óvissa setur þó mark sitt á væntingar í sjávarútvegi. Útlit er fyrir aukningu fyrirtækjafjárfestingar í ár en samdrátt á næsta ári.


Nýlega birtar niðurstöður úr júníkönnun Gallup fyrir SA og Seðlabankann meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins draga fram athyglisverðan mun á væntingum til efnahagshorfa á seinni helmingi ársins. Almennt líta stjórnendurnir fremur björtum augum til næstu framtíðar sem endurspeglast í vísitölugildinu 120, en í því felst að nokkru fleiri svarendur gera ráð fyrir að efnahagsaðstæður batni en hinir sem telja að þær muni versna. Þó hefur dregið talsvert úr bjartsýninni það sem af er ári. Í lok síðasta árs mældist heildargildi vísitölu fyrir 6 mánaða væntingar fyrirtækjastjórnenda þannig 163 og í mars var gildið 147.

Svartsýni útbreidd í sjávarútvegi

Mikill munur er hins vegar á viðhorfi stjórnenda eftir mismunandi geirum. Mest er bjartsýnin í byggingageiranum þar sem allir svarendur telja horfur bjartar. Þá er bjartsýni einnig nokkuð útbreidd í hinum ýmsu þjónustugreinum, allt frá verslun til fjármálageirans.

Annað er hins vegar uppi á teningnum þegar kemur að helstu útflutningsgreinum. Í sjávarútvegi mælist gildi þessarar vísitölu þannig 43, sem felur í sér útbreidda svartsýni á horfurnar. Væntanlega endurspegla þau svör þá umtalsverðu óvissu sem uppi var í geiranum í sumarbyrjun vegna fyrirhugaðrar hækkunar á veiðigjöldum, aukningar á veiðiheimildum til strandveiða, tveggja ára loðnubrests og óvissu um alþjóðlegt tollaumhverfi greinarinnar. Öllu meiri bjartsýni ríkti í júníbyrjun meðal stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu og samgöngum en þó dró talsvert úr bjartsýni þeirra milli mælinga.

Þokkalegur dampur í fjárfestingum fyrirtækja

Þrátt fyrir háa raunvexti, þráláta verðbólgu og talsverða óvissu um rekstrarumhverfi innlendra fyrirtækja, bæði innanlands og alþjóðlega, virðist fjárfestingarvilji atvinnufyrirtækja enn vera allnokkur. Fjárfestingarþróttinum er þó trúlega töluvert misskipt milli ólíkra geira. Ekki var spurt um fjárfestingaráform í júníkönnun Gallup meðal stærstu fyrirtækja. Niðurstöður úr marskönnun Gallup ríma hins vegar nokkuð vel við ofangreindar niðurstöður um væntingar fyrirtækjastjórnenda í mismunandi geirum.

Almennt var allnokkur fjárfestingarhugur í stjórnendum fyrirtækja í mars. Þó bjuggust heldur fleiri stjórnendur við að fyrirtæki þeirra myndi draga úr fjárfestingum en auka þær, sem endurspeglast í vísitölugildinu 92. Í samanburði við síðustu könnun á fjárfestingaráformum, sem framkvæmd var í september í fyrra, lækkaði vísitölugildið um 15 stig. Eins og myndin sýnir var þróunin hins vegar ólík eftir því hvort viðkomandi fyrirtæki stundaði útflutning eður ei. Þannig jókst fjárfestingarhugur verulega í fyrirtækjum sem þjónusta eingöngu innanlandsmarkað. Hjá útflutningsfyrirtækjum dró hins vegar hlutfallslega úr fjárfestingaráformum milli kannana. Það endurspeglast í svörum fyrirtækja í bæði sjávarútvegi og fyrirtækjum með starfsemi í ferðaþjónustu og samgöngum.

Það sem af er þessu ári hefur innflutningur almennra fjárfestingarvara aukist talsvert sem má að miklu leyti rekja til fjárfestingar tengdri gagnaverum. Þá hefur innflutningur á fólksbílum til atvinnustarfsemi aukist verulega fyrstu mánuði ársins sem skýrist af auknum bifreiðakaupum bílaleiga og annarra fyrirtækja eftir ládeyðu síðasta árs. Reiknast okkur til að á föstu gengi krónu hafi innflutningur fjárfestingarvara að skipum og flugvélum undanskildum aukist um 44% á fyrri helmingi þessa árs frá sama tíma í fyrra. Í Peningamálum Seðlabankans frá maí sl. kemur fram að aukninguna megi að verulegu leyti rekja til fjárfestingar gagnavera. Auk þess er verulegur kraftur í fjárfestingu í landeldi og munu þessir tveir geirar trúlega ríða baggamuninn um vöxt fjárfestingar atvinnuvega í ár.

Fjárfesting fyrirtækja skreppur trúlega saman á næsta ári

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í lok maí er farið yfir horfur varðandi fjárfestingu á komandi misserum. Í ár er útlit fyrir áframhaldandi vöxt fjármunamyndunar þar sem allmyndarlegur vöxtur atvinnuvegafjárfestingar vegur á móti samdrætti í íbúðarfjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera. Alls eigum við von á 3,7% vexti fjárfestingar á þessu ári.

Stór verkefni í uppbyggingu gagnavera og fiskeldis skýra að mestu aukningu atvinnuvegafjárfestingar í ár. Síðustu misseri hefur mikil uppbygging gagnavera átt sér stað og fyrstu innflutningstölur ársins benda til áframhaldandi uppbyggingar í ár. Hins vegar eru vísbendingar um að það taki að hægja á þeirri miklu uppbyggingu bráðlega og að samdráttur í slíkri fjárfestingu togi atvinnuvegafjárfestingu niður á næsta ári. Þá er útlit fyrir áframhaldandi fjárfestingu í fiskeldi næstu árin sem kemur til með að hífa atvinnuvegafjárfestinguna upp á spátímanum en þó ekki nægilega mikið til að koma í veg fyrir samdrátt á næsta ári.

Á næsta ári er útlit fyrir samdrátt í fjárfestingu upp á 2,2% þar sem 5% samdráttur atvinnuvegafjárfestingar vegur þungt en aukin íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera vega á móti. Á síðasta ári spátímans eigum við von á því að fjárfesting glæðist á ný með lægra raunvaxtastigi og áætlum að vöxturinn mælist sá sami og í ár, eða 3,7%.

Áhættuþættirnir eru fjölmargir, bæði hér heima og erlendis. Þar er vert að nefna vendingar í alþjóðaviðskiptum, aukna skattheimtu af útflutningsgreinum og tafir í orkuöflun sem gætu hægt verulega á fjárfestingu auk þess sem þrálát verðbólga og hátt raunvaxtastig gæti reynst lífseigara en vonast er til. Stjórnvöld fá litlu ráðið um fyrstnefnda þáttinn. Hins vegar bera þau vonandi gæfu til þess að haga hagstjórn og lagasetningu þannig að síðari áhættuþættirnir verði ekki fjárfestingu verulegur fjötur um fót á næstunni.

Höfundur


Profile card

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband