Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fjörkippur í innlendri neyslu landsmanna í ársbyrjun

Vaxandi velta í innlendri þjónustu skýrir bróðurpartinn af tæplega 10% raunvexti veltu íslenskra greiðslukorta í janúar. Mikil neyslugleði landsmanna erlendis hefur sett svip sinn á kortaveltujöfnuð undanfarið þótt myndarlegur ferðamannastraumur til landsins vegi á móti. Horfur eru á vaxandi afgangi af kortaveltuviðskiptum milli landa á komandi misserum.


Innlend neysla íslenskra heimila tók fjörkipp í janúar ef marka má nýlegar tölur um kortaveltu. Samkvæmt Seðlabanka Íslands var heildarvelta innlendra greiðslukorta tæplega 101 ma.kr. í janúarmánuði sem jafngildir 19 ma.kr. aukningu milli ára. Sé kortaveltan staðvirt með hliðsjón af verðlags- og gengisþróun reiknast okkur til að veltan hafi aukist um 9,8% frá sama mánuði í fyrra. Vöxturinn milli ára hefur ekki verið hraðari á þennan mælikvarða síðan í ágúst í fyrra. Við teljum líklegt að neyslugleðin í ársbyrjun tengist nýlegum kjarasamningum á stórum hluta almenna vinnumarkaðarins en þar fékk launafólk umtalsverða búbót, bæði í formi beinnar hækkunar mánaðarlauna og eins vegna þess að samningarnir voru afturvirkir frá nóvember síðastliðnum.

Ólíkt því sem verið hefur undanfarin misseri var megnið af raunaukningu kortaveltunnar til komið innanlands í janúarmánuði. Þannig jókst velta í innlendum verslunum og hjá íslenskum þjónustuaðilum um 7,7% að raungildi milli ára. Velta korta erlendis jókst á sama tíma um rúm 19% að raungildi. Þótt aukningin hafi verið hlutfallslega meiri erlendis en innanlands er hér um mun hóflegri aukningu að ræða en verið hefur lengst af síðustu fjórðungana. Erlenda veltan er u.þ.b. fimmtungur heildarveltu íslenskra korta að jafnaði en velta innanlands um fjórir fimmtu hlutar.

Stóraukin velta í innlendum þjónustugreinum

Fram kemur í nýlegri frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV) að vöxturinn innanlands var mun hraðari í þjónustu (34% í krónum talið) en verslun (8,8%). Þar ber að hafa í huga að í ársbyrjun 2022 voru samkomutakmarkanir vegna faraldursins hertar talsvert og hafði fólk því takmörkuð tækifæri til að nýta sér ýmsa þjónustu, t.d. þjónustu veitingastaða og leikhúsa svo eitthvað sé nefnt. Fram kemur í frétt RSV að vöxturinn milli ára hafi einmitt sér í lagi verið myndarlegur í slíkri starfsemi.

Þótt veltuaukning innanlands hafi vegið þyngra á metunum í janúar er ekki þar með sagt að landsmenn hafi slegið slöku við í neyslu utan landsteinanna, eins og ofangreindar tölur bera með sér. Samkvæmt nýlegum tölum frá Ferðamálastofu voru brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll um 41.500 talsins í janúar og hafa aldrei verið fleiri í janúarmánuði. Skýrir sú staðreynd, ásamt vaxandi kaupum Íslendinga hjá erlendum netverslunum, aukna kortaveltu erlendis að stærstum hluta.

Í frétt Ferðamálastofu kemur einnig fram að um 121 þúsund erlendir farþegar fóru af landi brott um Keflavíkurflugvöll í janúarmánuði. Voru það álíka margar brottfarir og í janúar 2020 og ríflega 80% af metfjöldanum í janúar 2018. Með öðrum orðum heimsóttu u.þ.b. 3 erlendir ferðamenn Ísland heim á móti hverjum Íslendingi sem lagði land undir fót utan landsteinanna í janúar.

Samanlögð neysla landsmanna á erlendri grundu og gegn um netið var hins vegar meiri en sem nam kortaveltu erlendra aðila hér á landi og var jöfnuður kortaveltu milli landa neikvæður um 4,4 ma.kr. í janúarmánuði. Kortaveltujöfnuðurinn hefur raunar verið neikvæður síðan í október síðastliðnum en þegar hæst hóaði hjá ferðaþjónustunni fyrir faraldur var nánast samfelldur afgangur af kortaveltujöfnuði allt árið um kring.

Horfur á vaxandi afgangi af kortaveltu milli landa

Kortaveltujöfnuðurinn gefur þó ekki einn og sér heildarmynd af jafnvægi útgjalda og tekna vegna ferðalaga milli landa. Þannig hafa innlend flugfélög til dæmis talsverðar tekjur af ferðafólki sem fara um erlendar greiðsluþjónustur auk þess sem erlendir ferðamenn geta skipt helstu gjaldmiðlum í krónur í innlendum bönkum án þess að notast við greiðslukort til þess arna.

Tölur Hagstofunnar um þjónustujöfnuð gefa því skýrari mynd af tekjum og útgjöldum milli landa vegna ferðalaga. Þar hefur mælst samfelldur afgangur allt frá árinu 2009, ef undan eru skildir einstaka fjórðungar meðan faraldurinn geisaði sem grimmast.

Með endurkomu ferðaþjónustunnar í kjölfar faraldursins frá vordögum 2022 hefur afgangur af þessum hluta þjónustuviðskipta verið allmyndarlegur líkt og raunin var fyrir faraldur. Til að mynda skiluðu farþegaflutningar milli landa og önnur ferðatengd útgjöld hreinum tekjum sem nemur 194 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs.

Þrátt fyrir að ferðagleði landsmanna hafi náð sögulegum hæðum á lokafjórðungi ársins 2022 sýnist okkur sem afgangur hafi einnig verið á slíkum viðskiptum milli landa í fjórðungnum. Hagstofan birtir tölur fyrir allt árið 2022 næstkomandi föstudag en bráðabirgðamat okkar hljóðar upp á u.þ.b. 65 ma.kr. afgang af þessum lið á lokafjórðungi ársins og þar með um 260 ma.kr. afgangi á síðasta ári í heild. Ekki veitir heldur af myndarlegum afgangi í þessum geira þar sem vöruskiptahalli var 323 ma.kr. í fyrra.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar er gert ráð fyrir að betra jafnvægi verði á viðskiptajöfnuði í ár en var í fyrra og að viðskiptajöfnuður verði kominn nálægt núllinu á næsta ári eftir talsverðan halla undanfarna fjórðunga. Þar skiptir sköpum að vöxtur ferðaþjónustunnar verði áfram allmyndarlegur á sama tíma og hægari taktur verður vonandi í neysluvexti landans á erlendri grundu. Gangi það eftir mun vaxandi afgangur einnig einkenna kortaveltuviðskipti milli landa.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband