Samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu fóru 158 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll í maí sl. Er þetta næstmesti fjöldi farþega um flugvöllinn í maímánuði frá upphafi vega, en einungis 2018 hafa fleiri brottfarir mælst um Keflavíkurflugvöll í maí.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir meðal ferðamanna á landinu í maí og var ríflega fjórði hver ferðamaður á landinu þarlendur. Næstir þar á eftir komu Pólverjar (9%), þá Frakkar (7%), Þjóðverjar (6%) og Hollendingar (6%). Ferðafólk frá Norðurlöndunum var samtals um 8% heildarfjöldans. Á myndinni má glöggt sjá hina sterku árvissu árstíðarsveiflu í hlutfalli Breta af heildinni. Þeir voru fjölmennastir allra þjóða á fyrsta fjórðungi ársins enda eru vetrarferðir til Íslands vinsælar þar í landi á meðan suðrænni slóðir heilla Bretann frekar á sumrin.