Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðaþjónustan endurheimtir fyrri styrk

Erlendir ferðamenn á landinu voru 720 þúsund á fyrstu fimm mánuðum ársins og hafa ekki verið fleiri á því tímabili frá árinu 2018. Útlitið er gott fyrir komandi háönn og næstu misseri. Við spáum ríflega 2,1 milljón ferðamanna hingað til lands á þessu ári og nærri 2,5 milljónum árið 2025.


Samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu fóru 158 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll í maí sl. Er þetta næstmesti fjöldi farþega um flugvöllinn í maímánuði frá upphafi vega, en einungis 2018 hafa fleiri brottfarir mælst um Keflavíkurflugvöll í maí.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir meðal ferðamanna á landinu í maí og var ríflega fjórði hver ferðamaður á landinu þarlendur. Næstir þar á eftir komu Pólverjar (9%), þá Frakkar (7%), Þjóðverjar (6%) og Hollendingar (6%). Ferðafólk frá Norðurlöndunum var samtals um 8% heildarfjöldans. Á myndinni má glöggt sjá hina sterku árvissu árstíðarsveiflu í hlutfalli Breta af heildinni. Þeir voru fjölmennastir allra þjóða á fyrsta fjórðungi ársins enda eru vetrarferðir til Íslands vinsælar þar í landi á meðan suðrænni slóðir heilla Bretann frekar á sumrin.

Hressilegur meðvindur með ferðaþjónustu á komandi misserum

Erlendir ferðamenn hingað til lands með flugi voru tæplega 1,7 milljónir á árinu 2022 ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Við það bætist nokkur fjöldi farþega um Akureyrarflugvöll að ógleymdum erlendum ferðamönnum sem sóttu landið heim með ferjunni Norrænu sem og með skemmtiferðaskipum. Hefur ferðafólk hér á landi ekki verið fleira frá árinu 2019.

Það sem af er ári hefur fjöldi ferðamanna hér á landi verið í samræmi við spá okkar frá febrúarbyrjun. Efnahagsmótbyr í Bretlandi og víðar, sem við töldum áhættuþátt fyrir eftirspurn eftir Íslandsferðum í upphafi síðasta vetrar, virðist engin teljandi áhrif hafa á ferðamannastraum hingað til lands. Alls komu 720 þúsund ferðamenn til landsins um Keflavíkurflugvöll á fyrstu fimm mánuðum ársins.

Flest bendir til þess að ferðasumarið verði myndarlegt, hvort sem horft er í bókunarstöðu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum, áætlanir um fjölda flugferða til og frá landinu eða viðhorfskannanir.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við því að ríflega 2,1 milljón ferðamanna sæki landið heim um Keflavíkurflugvöll á þessu ári, álíka margir og sóttu landið heim árið 2017. Á næsta ári gerum við ráð fyrir rúmum 2,3 milljónum ferðafólks og tæplega 2,5 milljónum árið 2025. Næstu tvö ár verða því metár í ferðaþjónustu gangi spá okkar eftir. Hafa ber í huga að spá þessi miðast við brottfarir um Keflavíkurflugvöll en við þá tölu bætast m.a. farþegar með Norrænu og með skemmtiferðaskipum.

Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður í spá okkar skýrist meðal annars af skorðum í framboði á gistingu og öðrum tilheyrandi innviðum. Til að mynda eru nýframkvæmdir í byggingu hótela nú með allra minnsta móti á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við undanfarin ár. Jafnvel þótt slegið yrði í þann klár á komandi fjórðungum skilar það sér tæpast í auknu framboði hótelgistingar fyrir lok spátímans. auk þess sem gæti hækkandi raungengi með tímanum dregið úr ferðavilja sumra hingað til lands.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðngur


Hafa samband