Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðamannaárið 2022: Hraður bati eftir faraldur

1,7 milljón erlendra ferðamanna sótti Ísland heim um Keflavíkurflugvöll í fyrra. Er það fækkun upp á 300 þúsund miðað við árið 2019 en frá því áhrif faraldursins fjöruðu út síðasta vor hefur fjöldinn hins vegar verið áþekkur því ári. Horfur fyrir nýhafið ár eru góðar og gæti ferðafólk hér á landi farið yfir 2 milljónir ef ekki verður umtalsvert bakslag í komum ferðafólks frá Evrópu og Bandaríkjunum.


Erlendir ferðamenn sem fóru brott af landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 115 þúsund samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu. Það eru u.þ.b. 8% færri ferðamenn en flugu af landi brott í jólamánuðinum árið 2019, áður en faraldurinn tók að grafa um sig, en hins vegar nærri 150% fjölgun frá desember 2021.

Eins og gjarnan yfir háveturinn var ferðafólk frá Bretlandi fjölmennast (24% af heild) í desembermánuði. Tóku ferðamenn þaðan þar með fram úr Bandaríkjamönnum (19%) sem hafa verið fjölmennastir erlendra ferðamanna hér á landi frá því faraldurinn tók að slaka á klónni á vordögum. Þar í kjölfarið kom ferðafólk frá Póllandi (7%), Norðurlöndunum (5%), Þýskalandi (4%) og Frakklandi (4%).

Tekjur af erlendu ferðafólki hafa aukist hratt að nýju samhliða fjölgun þeirra undanfarna fjórðunga. Miðað við kortaveltugögn Rannsóknaseturs verslunarinnar var heildarvelta erlendra korta í desembermánuði 16 ma.kr. sem jafngildir 14% af heildar kortaveltu í jólamánuðinum. Eins og sést á myndinni hefur þetta hlutfall þó verið nokkru lægra að jafnaði en var síðustu árin fyrir faraldur enda voru ferðamenn þá bæði fleiri og eins hefur einkaneyslu landsmanna, og þar með kortaveltu þeirra, vaxið talsverður fiskur um hrygg í millitíðinni.

Á árinu 2022 í heild fóru 1.695 þúsund erlendir ferðamenn um Keflavíkurflugvöll eftir dvöl á Íslandi miðað við brottfarartölur Isavia. Til samanburðar voru ferðamenn hér á landi rétt um 2 milljónir árið 2019 og urðu flestir 2,3 milljónir árið 2018. Færri ferðamenn hér á landi í fyrra en árin fyrir faraldur skrifast fyrst og fremst á fyrsta þriðjung ársins þegar sóttvarnaraðgerðir hér sem erlendis voru að renna sitt skeið.

Frá sumarbyrjun hefur fjöldinn hins vegar verið sambærilegur við árið 2019 eins og sjá má á myndinni. Fjöldinn á árinu í heild var einnig í góðu samræmi við spá okkar frá september síðastliðnum um 1,7 milljón ferðamenn á nýliðnu ári í heild. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur raunar rétt hraðar úr kútnum eftir faraldur en gengur og gerist á heimsvísu eins og ofangreindar tölur bera með sér.

Horfur fyrir ferðaþjónustuárið 2023 eru um margt góðar þótt óvissa um komandi fjórðunga sé veruleg vegna bakslags í efnahag þeirra landa sem hvað flestir ferðamenn koma frá, þar sem verðbólga hefur skert kaupmátt heimila og gæti haft áhrif á ferðavilja á næstunni. Þess sjást þó fá merki, ef nokkur, í áhuga umheimsins á Íslandsferðum og er bókunarstaða fyrir komandi fjórðunga með besta móti samkvæmt forsvarsfólki ferðaþjónustunnar. Komandi mánuðir varpa svo vonandi skýrara ljósi á hvort framvinda í geiranum í ár verður jafn jákvæð og teikn eru um þessa dagana.

Við spáðum í september að u.þ.b. 2 milljónir ferðamanna myndu sækja landið heim á árinu 2023. Ef ekki verður teljandi bakslag i komum ferðafólks frá Evrópu og Bandaríkjunum vegna fyrrnefndra þátta gæti sú spá reynst full varfærin. Því eru þó takmörk sett hversu mikla fjölgun milli ára landið ræður við áður en skortur á gistirýmum og ýmissi þjónustu fer að setja henni skorður. Þar skiptir ekki síst máli að dreifing milli landshluta og árstíða verði jafnari en verið hefur.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband