Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans voru á einu máli um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í októberbyrjun. Er það í annað skiptið í röð þar sem samstaða er um vaxtalækkun meðal nefndarmanna. Ólíkt síðasta fundi nefndarinnar, fyrir vaxtaákvörðunina í ágúst sl., var þó einnig til umræðu í þetta skiptið hvort halda ætti stýrivöxtum óbreyttum. Í ágúst var eingöngu rætt um vaxtalækkun og virtist enginn nefndarmaður þá á þeim buxunum að íhuga í alvöru óbreytta stýrivexti.
Einhugur um lækkun stýrivaxta og frekari lækkun líkleg
Samstaða var í peningastefnunefnd Seðlabankans um lækkun vaxta í október, þótt sleginn væri heldur varfærnari tónn en i ágúst. Líklegt er að í það minnsta eitt vaxtalækkunarskref til viðbótar verði stigið fyrir áramót.
Samkvæmt fundargerðinni voru helstu rök með vaxtalækkuninni:
Þótt núverandi staða efnahagsmála væri betri en spáð var væri aukin hætta á að hagvaxtarhorfur væru ofmetnar, einkum vegna verri efnahagshorfa erlendis, og óvissa hefði aukist.
Verðbólga hefði verið lítillega minni á þriðja ársfjórðungi en gert var ráð fyrir og horfur á að hún verði komin fyrr í markmið en talið var
Verðbólguvæntingar hefðu haldið áfram að lækka og gengi krónunnar hækkað að undanförnu.
Helstu rök með óbreyttum vöxtum voru að mati nefndarinnar:
Þjóðarbúið hefði verið sterkara á fyrri hluta ársins en búist var við og að nýleg hækkun raunvaxta gæti verið í samræmi við þá þróun.
Ekki væri útilokað að einkaneysla reyndist þróttmeiri en talið væri enda hefðu ráðstöfunartekjur hækkað töluvert undanfarin misseri, sparnaður aukist og veðrými til lántöku væri sögulega hátt.
Verðbólga og nokkrir mælikvarðar á verðbólguvæntingar enn yfir markmiði auk þess sem undirliggjandi verðbólga hefði þokast upp.
Í ljósi slökunar á aðhaldi ríkisfjármála þyrfti minni slökun peningastefnunnar en ella
Ekki væri búið að ljúka kjarasamningum opinberra starfsmanna.
Þótt fyrri upptalningin sé styttri hafa þeir þættir augljóslega vegið mun þyngra á metunum en hinir miðað við niðurstöðu nefndarinnar.
Lægri stýrivextir í kortunum
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar var hlutlaus, líkt og raunin var í ágúst, og hljóðaði svo:
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.
Af þessu má ráða að nefndarmenn í peningastefnunefndinni muni leggja nokkra áherslu á að lesa í verðbólgutölur októbermánaðar, þróun verðbólguálags á markaði og niðurstöður væntingakönnunar meðal aðila á fjármálamarkaði sem framkvæmd verður í upphafi nóvembermánaðar. Einnig mun nefndin líta til hátíðnivísbendinga um efnahagsþróun á borð við kortaveltu, en líkt og við fjölluðum nýverið um benda nýjustu kortaveltutölur til þess að heimilin stígi varlega til jarðar í einkaneyslu þessa dagana.
Við teljum þó talsverðar líkur á að vextir verði lækkaðir a.m.k. einu sinni fyrir áramót. Enn syrtir í álinn erlendis og hljóða nýjar spár OECD og IMF fyrir 2019-2020 upp á hægasta vöxt á heimsvísu í áratug. Þá hefur krónan áfram haldist stöðug og horfur eru á að verðbólga verði komin í markmið fyrir áramót. Nýjasta verðbólguspá okkar hljóðar upp á 2,7% verðbólgu í október og að verðbólgan verði komin niður í 2,2% í janúarmánuði næstkomandi.
Tónn nefndarmanna er hins vegar að mati okkar varfærnari nú en í ágúst og mun nefndin sjálfsagt hugsa sig vandlega um áður en fleiri en eitt skref eru stigin til frekari lækkunar vaxta á allra næstu mánuðum.