Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Heimilin af bensínfætinum á kúplinguna?

Þróun kortaveltu ber með sér að heimilin eru að búa í haginn fyrir óvissan vetur. Einkaneysla hefur í vaxandi mæli beinst að innlendum vörum og þjónustu og hjálpar það til við að milda höggið vegna áfalla í ferðaþjónustunni fyrr á árinu. Sterk fjárhagsstaða margra heimila við lok uppsveiflunnar nú mun reynast drjúgur þáttur í því að jafna efnahagssveifluna á komandi misserum.


Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam heildarvelta greiðslukorta innlendra heimila alls ríflega 79 mö.kr. í september síðastliðnum og jafngildir það ríflega 4% aukningu milli ára í krónum talið. Að raunvirði stóð kortaveltan hins vegar nánast í stað á milli ára þar sem prósentu samdráttur í erlendri kortaveltu vó upp lítilsháttar aukningu í innlendri veltu milli ára, reiknað á föstu gengi og verðlagi.

Setið heima í sólinni þetta árið

Athyglisverð breyting hefur orðið á þróun erlendrar kortaveltu Íslendinga undanfarið. Eftir afar öran vöxt slíkrar veltu síðustu ár hefur þetta ár einkennst af stöðnun og síðan samdrætti á milli ára, sé leiðrétt fyrir lægra gengi krónu. Helst þetta í hendur við tölur um utanlandsferðir landsmanna, en samkvæmt Ferðamálastofu fækkaði slíkum ferðum um ríflega 7% á fyrstu þremur fjórðungum ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Skarpastur var þessi samdráttur milli ára á 3. ársfjórðungi. Þá fóru nærri 22 þúsund færri landsmenn út fyrir landsteinana en á sama tíma í fyrra, sem jafngildir 12% fækkun á milli ára. Vafalítið hefur einmuna veðurblíða þetta sumarið eftir hið illræmda rigningarsumar 2018 haft hér talsverð áhrif, en einnig er líklegt að gengislækkun krónu og tvísýnni efnahagshorfur eigi hér þátt.

Beltið hert um eitt gat eða svo?

Greinilegt er að landsmenn halda ögn fastar um budduna þessa mánuðina en verið hefur síðustu misseri. Á 3. ársfjórðungi stóð kortavelta Íslendinga nánast í stað að raunvirði, en það hefur ekki gerst frá því í ársbyrjun 2013. Aðrir hagvísar sem gefa tóninn um þróun einkaneyslu segja sömu sögu. Kaupmáttur launa óx til að mynda um 1,1% á fjórðungnum og hefur sá vöxtur ekki verið hægari í rúm 6 ár. Þá hafa væntingar landsmanna mælst umtalsvert lægri þetta árið að jafnaði en síðustu ár, þótt raunar virðist bjartsýni heldur vera á uppleið en hitt upp á síðkastið. Loks má nefna að atvinnuleysi hefur þokast upp á við og störfum fjölgar hægar þessa dagana en síðustu ár og dregið hefur úr talsvert úr skorti á starfsfólki ef marka má nýlega könnun SA og Seðlabankans meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja.

Góðu heilli eru þó heimili landsins með nokkur háspil á hendi þegar kemur að því að spila úr aðstæðum komandi missera. Þar vegur einna þyngst að fjárhagsstaða íslenskra heimila er almennt býsna heilbrigð og skuldsetning þeirra hófleg bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Þá hafa tiltölulega hóflegir kjarasamningar og stöðug króna upp á síðkastið hjálpað upp á verðbólguhorfur og er útlit fyrir að kaupmáttur heimilanna haldi almennt áfram að vaxa þótt vöxturinn verði hægari næsta kastið en verið hefur. Loks má nefna að breytingar á neyslumynstri undanfarið, þar sem erlend neysla hefur gefið meira eftir en innlend, verður væntanlega til þess að þau innlendu fyrirtæki sem sjá landanum fyrir vörum og þjónustu finna minna fyrir bakslagi í efnahagslífinu og fleiri halda því vinnu og tekjum í þeim geirum.

Á heildina tekið má því gera ráð fyrir að heimilin þurfi einungis að herða beltið hóflega hvað útgjöld varðar og geti í stórum dráttum haldið sínu striki flest hver þótt uppsveiflan í efnahagslífinu sé á enda í bili.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband