Eigum við inni styrkingu krónunnar?

Gengi krónu hefur verið nokkuð stöðugt það sem af er ári. Horfur um vöxt útflutnings á árinu hafa dökknað en þó er útlit fyrir jafnvægi á utanríkisviðskiptum. Horfur eru á hóflegri styrkingu krónu næstu misserin en hátt raungengi eykur líkur á veikingu krónu síðar meir.


Talsverð sveifla varð í gengi krónu innan ársins 2023. Styrktist krónan framan af ári, gaf síðan talsvert eftir fram eftir hausti en sótti heldur í sig veðrið á ný undir árslok. Trúlega má skýra gengisþróunina innan ársins bæði með flæði vegna utanríkisviðskipta, flæði tengdu fjármagnshreyfingum og breytingum á stöðutöku með krónu.

Það sem af er árinu 2024 hefur gengi krónu verið tiltölulega stöðugt. Til að mynda hefur evran haldist innan bilsins 148-151 á móti krónu frá áramótum fram í júníbyrjun. Endurspeglar sá stöðugleiki allgott jafnvægi bæði á utanríkisviðskiptum, þar sem þjónustuafgangur vegur gegn vöruskiptahalla, og í flæði innan fjármagnsjafnaðar, þ.e. í viðskiptum með verðbréf og aðrar fjáreignir sem og lánahreyfingum landa á milli.

Nýlegar birtar bráðabirgðatölur Hagstofunnar um vöruskiptajöfnuð í maí síðastliðnum hljóða upp á mun minni vöruskiptahalla en var í apríl. Nam hallinn tæpum 21 ma.kr. í maí samanborið við ríflega 47 ma.kr. í apríl. Þá var hallinn nærri helmingi minni en í maí í fyrra. Hagfelldari vöruskipti á milli ára skýrast bæði af meiri útflutningi, þar sem mestu munar um aukningu í útfluttum iðnaðarvörum,eldisfiski og sjávarafurðum, sem og af minni innflutningi og til dæmis fjárfestingavörum, flutningatækjum, hrávörum og neysluvörum að mat- og drykkjarvörum undanskildum.

Hóflegur vöruskiptahalli í maí miðað við mánuðina á undan skýrir líklega að hluta til hversu stöðug krónan var í maí þrátt fyrir vísbendingar um frekar slakan ferðaþjónustumánuð. Aprílmánuður var heldur rýr í roðinu fyrir ferðaþjónustugeirann, eins og við höfum áður fjallað um. Ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 3,5% milli ára í mánuðinum og gistinóttum útlendinga á öllum tegundum skráðra gististaða fækkaði enn meira, eða um tæp 13%. Sem fyrr segir bendir ýmislegt til þess að maí reynist líka heldur magur að þessu leytinu.

Líkur á hóflegri styrkingu...í bili

Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er meðal annars að finna umfjöllun og spá um gengi krónu á komandi misserum. Horfur um utanríkisviðskipti á næstunni eru enn tiltölulega hagfelldar þrátt fyrir að horfur fyrir þetta ár hafi dökknað nokkuð frá síðustu spá okkar sem út kom í ársbyrjun. Útlit er fyrir nokkurn viðskiptaafgang bæði í ár og næstu tvö ár. Gæti afgangurinn numið tæplega 40 ma.kr. að jafnaði ár hvert á spátímanum.

Enn fremur er útlit fyrir allnokkurn vaxtamun við útlönd á komandi misserum en vaxtamunurinn hefur laðað talsvert erlent fjármagn til landsins undanfarinn vetur. Til að mynda nemur aukning í eign erlendra aðila á ríkisbréfum í krónum frá septemberlokum í fyrra til loka apríl sl. 42 ma.kr. að nafnvirði samkvæmt vef Lánamála ríkisins. Þá er erlend staða þjóðarbúsins sterk líkt og fjallað var um hér, auk þess sem verðbréfaeign erlendra aðila er enn fremur hófleg í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.

Á móti gjaldeyrisinnflæði af ofangreindum ástæðum vega  til dæmis áframhaldandi erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna sem námu 83 ma.kr. á síðasta ári. Aðrir innlendir aðilar gætu einnig aukið við fjárfestingar erlendis þegar fram í sækir, sér í lagi ef krónan styrkist tímabundið meira en við væntum.

Eins og fyrri daginn má búast við skammtímasveiflum í krónunni á næstu árum. Í spánni er þó gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 5% sterkari í lok spátímans en hún var í árslok 2023. Það jafngildir því að evran kosti um það bil 143 kr. Er það nokkru minni styrking en við spáðum áður, sem helgast ekki síst af heldur dekkri horfum um útflutningsvöxt.

Meðal helstu óvissuþátta um gengisþróunina er hvernig úr spilast í þróun ferðaþjónustu á komandi misserum. Ef útflutningstekjur í greininni standa í stað eða dragast saman í ár frá þeim tæpu 600 ma.kr. sem hún aflaði í fyrra minnka að sama skapi líkur á styrkingu á komandi fjórðungum og líkur á einhverri veikingu hennar á komandi vetri verða meiri. Við þetta bætist hefðbundin óvissa um þróun á útflutnings- og innflutningsverði sem og um flæði vegna fjárfestinga og lánahreyfinga milli landa.

Gangi spár okkar um þróun gengis krónu, launa og verðlags hér á landi eftir mun slík gengisstyrking ásamt hraðari hækkun launa og meiri verðbólgu hérlendis en gengur og gerist í viðskiptalöndum okkar ýta raungengi krónu nálægt fyrri hágildum sínum undir lok spátímans, þ.e. á árinu 2026. Fara því líkur á frekari styrkingu krónu þverrandi eftir því sem tíminn líður. Að sama skapi aukast líkur á gengisveikingu krónu síðar meir ef ekki verður breyting á slíkri þróun launa og verðbólgu. Væri það í samræmi við þróun síðustu áratuga þar sem raungengið hefur ávallt á  endanum leitað í jafnvægi með lækkun á nafngenginu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband