Hóflegur vöruskiptahalli í maí miðað við mánuðina á undan skýrir líklega að hluta til hversu stöðug krónan var í maí þrátt fyrir vísbendingar um frekar slakan ferðaþjónustumánuð. Aprílmánuður var heldur rýr í roðinu fyrir ferðaþjónustugeirann, eins og við höfum áður fjallað um. Ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 3,5% milli ára í mánuðinum og gistinóttum útlendinga á öllum tegundum skráðra gististaða fækkaði enn meira, eða um tæp 13%. Sem fyrr segir bendir ýmislegt til þess að maí reynist líka heldur magur að þessu leytinu.
Líkur á hóflegri styrkingu...í bili
Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er meðal annars að finna umfjöllun og spá um gengi krónu á komandi misserum. Horfur um utanríkisviðskipti á næstunni eru enn tiltölulega hagfelldar þrátt fyrir að horfur fyrir þetta ár hafi dökknað nokkuð frá síðustu spá okkar sem út kom í ársbyrjun. Útlit er fyrir nokkurn viðskiptaafgang bæði í ár og næstu tvö ár. Gæti afgangurinn numið tæplega 40 ma.kr. að jafnaði ár hvert á spátímanum.
Enn fremur er útlit fyrir allnokkurn vaxtamun við útlönd á komandi misserum en vaxtamunurinn hefur laðað talsvert erlent fjármagn til landsins undanfarinn vetur. Til að mynda nemur aukning í eign erlendra aðila á ríkisbréfum í krónum frá septemberlokum í fyrra til loka apríl sl. 42 ma.kr. að nafnvirði samkvæmt vef Lánamála ríkisins. Þá er erlend staða þjóðarbúsins sterk líkt og fjallað var um hér, auk þess sem verðbréfaeign erlendra aðila er enn fremur hófleg í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.