Mikill vöruskiptahalli..
Vöruskiptahalli í aprílmánuði var sá mesti í hálft ár samkvæmt nýlegum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hallinn reyndist 46,4 ma.kr. en til samanburðar var vöruskiptahalli að jafnaði helmingi minni á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, eða 23 ma.kr. Myndarlegur vaxtarkippur í innflutningi er meginástæða þessa mikla halla en á sama tíma var vöxtur vöruútflutnings fremur hægur. Alls voru fluttar inn vörur fyrir rúma 119 ma.kr. í mánuðinum en útflutningur nam tæpum 73 ma.kr.
Tæplega helmingur aukins vöruinnflutnings kemur til af býsna hressilegum vexti í innflutningi fjárfestingarvara að farartækjum undanskildum. Trúlega á sá vöxtur ekki síst sér rætur í uppbyggingu í landeldi þar sem umsvifamiklar fjárfestingar eru yfirstandandi um þessar mundir. Í því sambandi benti Seðlabankinn á það í nýlega útgefnum Peningamálum að fjárfesting í landeldi og gagnaverum myndi trúlega standa að stórum hluta undir þeirri 3,5% aukningu í fyrirtækjafjárfestingu sem bankinn spáir fyrir þetta ár. Það er jákvætt að því leyti að báðar þessar greinar eru gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar.