Óhagstæð utanríkisviðskipti í apríl

Vöru- og þjónustuviðskipti í aprílmánuði voru óvenju óhagstæð í samanburði við mánuðina á undan. Bæði var mikill halli á vöruskiptum og eins fækkaði ferðamönnum milli ára í fyrsta sinn frá faraldri. Útlit er fyrir hægan vöxt utanríkisviðskipta í ár eftir hraðan vöxt undanfarin misseri sem að stærstum hluta hefur verið drifinn af endurkomu ferðaþjónustunnar.


Mikill vöruskiptahalli..

Vöruskiptahalli í aprílmánuði var sá mesti í hálft ár samkvæmt nýlegum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hallinn reyndist 46,4 ma.kr. en til samanburðar var vöruskiptahalli að jafnaði helmingi minni á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, eða 23 ma.kr. Myndarlegur vaxtarkippur í innflutningi er meginástæða þessa mikla halla en  á sama tíma var vöxtur vöruútflutnings fremur hægur. Alls voru fluttar inn vörur fyrir rúma 119 ma.kr. í mánuðinum en útflutningur nam tæpum 73 ma.kr.

Tæplega helmingur aukins vöruinnflutnings kemur til af býsna hressilegum vexti í innflutningi fjárfestingarvara að farartækjum undanskildum. Trúlega á sá vöxtur ekki síst sér rætur í uppbyggingu í landeldi þar sem umsvifamiklar fjárfestingar eru yfirstandandi um þessar mundir.  Í því sambandi benti Seðlabankinn á það í nýlega útgefnum Peningamálum að fjárfesting í landeldi og gagnaverum myndi trúlega standa að stórum hluta undir þeirri 3,5% aukningu í fyrirtækjafjárfestingu sem bankinn spáir fyrir þetta ár. Það er jákvætt að því leyti að báðar þessar greinar eru gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar.

Neysluvörur og hrá/rekstrarvörur skýra þó einnig verulegan hluta af vaxandi innflutningi í apríl. Til að mynda jókst innflutningur á matar- og drykkjarvörum um ríflega fimmtung, innflutningur á almennum hrá- og rekstrarvörum um 30% og innflutningur á eldsneyti um rúm 70% í krónum talið milli ára. Næstu mánuði skýrist svo hvort apríl er mánaðar útlagi frá breyttri leitni í innflutningi eða hvort viðsnúningur hefur orðið í þróuninni frá örum vexti stöðnun eða samdrátt innflutningsmegin. Við eigum þó frekar von á því síðarnefnda, enda bendir flest til þess að hóflegur vöxtur í bæði innlendri eftirspurn og útflutningi endurspeglist í minni þörf fyrir innfluttar vörur og aðföng en ella væri.

Á útflutningshliðinni munaði mest um nærri tvöföldun á útflutningi eldisfisks en útflutningstekjur af fiskeldi námu tæpum 2,9 ma.kr. í apríl. Mun hægari aukning varð í útflutningi annarra sjávarafurða sem og iðnaðarvara. Þar kemur meðal annars til loðnubrestur þetta árið sem og áhrif skerðingar á orku til stóriðju vegna fremur slaks vatnsbúskapar víða á hálendinu.

Eins og sjá má af myndinni hefur takturinn í útflutningi og innflutningi vara til landsins fylgst allvel að síðustu misserin og endurspeglað nokkuð vel hagsveifluna frá því fyrir faraldur og fram á síðustu mánuði. Í þjóðhagsspá okkar í janúarlok gerðum við ráð fyrir litlum vexti vöruinnflutnings og lítils háttar samdrætti vöruútflutnings í ár og virðist þróunin síðan hafa verið í takti við þá spá.

og hægari fjölgun ferðamanna en vænst var..

137 þúsund erlendir ferðamenn fóru af landi brott um Keflavíkurflugvöll í apríl samkvæmt nýbirtum mælingum Ferðamálastofu. Samsvarar það fækkun upp á 5.000 manns miðað við apríl í fyrra. Apríl er þar með fyrsti mánuðurinn frá því faraldrinum fór að slota þar sem farþegum um flugvöllinn fækkar milli ára. Væntanlega hefur tímasetning páska þetta árið áhrif á þessa þróun en þar þarf þó að hafa í huga að ferðamönnum á þennan kvarða fjölgaði einungis um tæp 7% milli ára í mars. Eins og fyrri daginn voru Bandaríkjamenn (24% af heild) og Bretar (12%) langfjölmennastir meðal ferðafólks frá landinu um flugvöllinn.

Frá ársbyrjun hafa 593 þúsund ferðamenn farið af landi brott um Keflavíkurflugvöll eftir lengri eða styttri dvöl innan landamæranna. Það samsvarar tæplega 6% fjölgun frá fyrsta þriðjungi síðasta árs og er fjöldinn um 94% af því sem mest varð á fyrsta þriðjungi ársins 2018. Þetta er þó umtalsvert minni fjölgun en við gerðum ráð fyrir í þjóðhagsspá okkar sem birt var í janúarlok, en þar áætluðum við að á fyrsta þriðjungi þessa árs myndi ferðafólki fjölga um nærri 15% á fyrstu mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra.

Í janúar spáðum við því að ferðamenn myndu verða ríflega 2,4 milljónir í ár og fjölga þar með um rúm 9% milli ára. Þróunin síðan bendir til þess að fjölgunin milli ára verði talsvert hægari. Í því sambandi má nefna að í nýbirtum Peningamálum Seðlabankans er því spáð að ferðamenn í ár verði tæplega 2,3 milljónir og dró bankinn úr áætlaðri fjölgun þeirra frá fyrri spá. Erum við sama sinnis um að horfur um mikinn vöxt í ferðaþjónustu milli ára hafa dvínað í ljósi nýjustu gagna og vísbendinga um það sem koma skal á næstu fjórðungum.

..en horfur á jafnvægi þetta árið

Á heildina litið virðist aprílmánuður hafa verið óvenju óhagstæður hvað vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd varðar. Á útflutningshliðinni er að mestu um að ræða þróun sem við áttum von á að viðbættum páskaáhrifum á ferðamannastrauminn en á innflutningshliðinni teljum við líklegast að kippur í vöruinnflutningi hafi verið útlagi frá þeirri stöðnun eða samdrætti sem hefur einkennt undanfarna fjórðunga.

Við eigum von á því að árið í heild muni einkennast af hóflegum vexti utanríkisviðskipta og að lítilsháttar afgangur verði af vöru- og þjónustuviðskiptum í ár. Flest bendir til þess að sú spá sé enn góð og gild.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband