Viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi ársins var 40,8 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Nýlega birti Hagstofan tölur um vöru- og þjónustujöfnuð á tímabilinu og kom þar fram að vöruskiptahalli var tæpir 56 ma.kr. en afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd nam tæpum 13 ma.kr. á tímabilinu. Í tölum Seðlabankans bætast við jöfnuður frumþáttatekna, þar sem afgangur var ríflega 13 ma.kr. , sem og uppgjör á framlögum milli landa og var halli á þeim tæplega 12 ma.kr.
Hrein erlend eignastaða batnar þrátt fyrir viðskiptahalla
Mikill viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi ársins skýrist meðal annars af mótbyr í ferðaþjónustu, loðnubresti og áframhaldandi vexti fjárfestingar hér á landi. Þrátt fyrir hallann batnaði hrein erlend staða þjóðarbúsins umtalsvert á tímabilinu. Horfur eru á lítilsháttar viðskiptaafgangi á árinu og gæti erlenda staðan styrkst enn frekar.
Á sama tíma í fyrra var viðskiptahallinn tæplega 15 ma.kr. og er niðurstaðan nú því umtalsvert lakari. Raunar hefur viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi ekki mælst meiri frá árinu 2008. Skýringin á miklum viðskiptahalla nú liggur bæði í miklum vöruskiptahalla sem og í rýrum afgangi af þjónustujöfnuði. Vöruskiptahallinn á sér svo að talsverðu leyti rót í því hversu seigt er í innflutningi fjárfestingarvara á meðan innflutningur neysluvara hefur aukist hægar. Þá hefur loðnubresturinn í ársbyrjun vitaskuld nokkur áhrif þótt þeirra gæti að verulegu leyti í útflutningstölum síðar á árinu.
Mótvindur í ferðaþjónustu
Lítill afgangur af þjónustujöfnuði skýrist ekki hvað síst af lakara gengi ferðaþjónustu en vænst var það sem af er ári. Á fyrsta fjórðungi ársins fjölgaði ferðafólki til landsins raunar um tæp 10% frá sama tíma í fyrra miðað við talningu brottfararfarþega á Keflavíkurflugvelli. Þrátt fyrir það skruppu tekjur vegna ferðalaga þeirra innanlands saman um 2% á sama tíma. Tengist sú þróun væntanlega fækkun gistinátta á hvern ferðamann og þar með styttri dvalartíma að jafnaði. Í heild skiluðu þó liðir tengdir ferðalögum, samgöngum og flutningum svipuðum afgangi á 1. fjórðungi þetta árið og í fyrra.
Hins vegar hefur halli á viðskiptum með ýmiskonar aðra þjónustu en þá ferða- og flutningatengdu aukist milli ára. Má þar nefna að útgjöld undir liðnum önnur viðskiptaþjónusta jukust um 10% á milli ára, en sá liður innifelur ýmsa sérfræði- og tækniþjónustu. Auk þess þrefölduðust útgjöld tengd fjármálaþjónustu milli ára og kann það meðal annars að skýrast af auknum kaupum innlendra aðila á þjónustu erlendra færsluhirða vegna greiðslukorta.
Seigt í þáttatekjunum
Helstu jákvæðu tíðindin í greiðslujafnaðartölunum felast að okkar mati í því hversu seigt er í afgangi af frumþáttatekjum milli landa. Frumþáttatekjur eru í sem stystu máli launatekjur og fjármagnstekjur landa á milli. Líkt og oftast undanfarið vega tæplega 15 ma.kr. hreinar tekjur vegna beinnar fjárfestingar þar þyngst og einnig skilaði gjaldeyrisforði Seðlabankans nærri 7 ma.kr. tekjum. Á móti vegur tæplega 4 ma.kr. halli á launagreiðslum milli landa og ríflega 6 ma.kr. hrein útgjöld tengd annarri fjárfestingu.
Ávallt er áhugavert að skoða samspil hreinna tekna af beinni fjárfestingu og þróunar á álverði. Þau þrjú álver sem hér starfa eru öll í erlendri eigu og hagnaður eða tap þeirra á hverjum tíma speglast því nokkuð sterkt í þáttatekjujöfnuðinum. Sú rekstrarafkoma er svo nokkuð nátengd álverði á heimsvísu.
Eins og sjá má af myndunum er bæði allsterk jákvæð fylgni milli álverðs og útflutningsverðmætis áls en einnig talsverð neikvæð fylgni milli álverðsins og þáttatekjujöfnuðar. Hátt álverð hefur þannig jákvæð áhrif á vöruskiptajöfnuðinn eins og við má búast en á móti streymir ábatinn af háu verði að verulegu leyti aftur út úr landinu í formi bókfærðs hagnaðar hinna erlendu eigenda álveranna. Merkilegt nokk virðist hækkandi álverð þó ekki enn hafa snúið þáttatekjunum verulega til verri vegar þótt vissulega hafi dregið allnokkuð úr afganginum frá því sem mest var. Þar sem álverð hefur haldið áfram að hækka undanfarna mánuði gætu þau áhrif þó sagt sterkar til sín bæði í batnandi vöruskiptum og versnandi þáttatekjujöfnuði á yfirstandandi fjórðungi
Enn batnar erlenda eignastaðan
Seðlabankinn birti einnig tölur um hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs. Þrátt fyrir viðskiptahalla batnaði hrein eignastaða þjóðarbúsins umtalsvert. Námu erlendar eignir að frátöldum skuldum 1.775 ma.kr. sem samsvarar ríflega 41% af vergri landsframleiðslu (VLF). Erlenda staðan hefur batnað um 201 ma.kr. frá áramótum. Þar munar mestu um áhrif gengis- og verðbreytinga sem bættu stöðuna um 196 ma.kr. á tímabilinu.
Sú þróun endurspeglar svo þann mun sem er á samsetningu erlendra eigna og skulda Íslendinga. Bein og óbein eign landsmanna í erlendum hlutabréfum er mun meiri en sambærilegar eignir erlendra aðila hérlendis. Eins og myndin sýnir byggist hin myndarlega hreina eignastaða annars vegar á þeim eignum en hins vegar á gjaldeyrisforða Seðlabankans. Á móti vegur að bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi er meiri en samsvarandi eignir landsmanna erlendis auk þess sem vaxtaberandi skuldir eru nokkru meiri en samsvarandi erlendar eignir.
Hraustlegur meðvindur á erlendum mörkuðum, þar sem verð hækkaði að jafnaði um 8,5% á fyrsta fjórðungi samkvæmt frétt Seðlabankans, segir því fljótt til sín í bata á erlendu stöðunni. Bróðurparturinn af þessari erlendu verðbréfaeign er í vörslu íslenskra lífeyrissjóða og virðist árið því ætla að byrja allvel að þessu leytinu í eignasafni sjóðanna. Sama má raunar segja um skuldabréfaeign þeirra innanlands, sem trúlega er að skila hækkun á hreinni eign og ágætri ávöxtun eftir mögur misseri. Á móti vegur að innlendur hlutabréfamarkaður hefur verið mótdrægur það sem af er ári og lækkaði verð á skráðum bréfum að jafnaði um 3% á fjórðungnum samkvæmt Seðlabankanum.
Utanríkisviðskipti endurspegla aðlögun hagkerfisins
Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er meðal annars farið yfir horfur um utanríkisviðskipti og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Kemur þar fram að vatnaskilin í hagkerfinu frá örum vexti innlendrar eftirspurnar til samdráttar hafi endurspeglast í bata á jöfnuði utanríkisviðskipta. Eftir tvö hallaár 2021-2022 nam afgangur á viðskiptajöfnuði ríflega 1% af VLF á síðasta ári. Afgangur af þjónustuviðskiptum og jöfnuði þáttatekna vó þar þyngra en vöruskiptahalli og halli á rekstrarframlögum til og frá landinu.
Við spáum áframhaldandi hóflegum viðskiptaafgangi öll árin 2024-2026 þar sem vöxtur útflutnings verður hraðari en innflutningsvöxtur næstu fjórðunga og í kjölfarið eru horfur á jafnvægi í vexti þessara liða. Þróun viðskiptakjara hefur einnig verið tiltölulega hagfelld undanfarið og er útlit fyrir að þau batni lítillega á spátímanum.
Hækkandi raungengi gæti þó farið að hafa áhrif til óhagstæðari utanríkisviðskipta þegar lengra líður á spátímann. Styrkist krónan hraðar en við spáum eða viðskiptakjör versna að ráði gæti viðskiptaafgangur þannig snúist í halla um eða eftir miðjan áratuginn.
Þá er það skoðun okkar að trausta eignastaða Íslands gagnvart umheiminum sé gífurlega mikilvæg undirstaða fyrir krónuna og hagerfið allt. Eftir talsverða rýrnun á erlendu stöðunni snemma á áratugnum hefur hún sótt í sig veðrið á ný, meðal annars vegna hækkunar á erlendum mörkuðum. Horfur eru á einhverjum frekari bata á erlendu stöðunni samfara viðskiptaafgangi og meðvindi á erlendum mörkuðum.