Ársverðbólga mælist 4,3%

Verðbólga reynist ansi þrálát og jókst á milli mánaða í október. Mæling Hagstofunnar í október er yfir opinberum spám. Útlit er fyrir að verðbólga muni mælast á svipuðu reki næstu mánuði og taka svo að hjaðna á ný á fyrri hluta næsta árs.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,47% í október samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 4,1% í 4,3%. Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis hækkaði einnig á milli mánaða, úr 3,2% í 3,3%.

Mæling októbermánaðar yfir okkar spá, en við spáðum 0,3% hækkun vísitölunnar. Allar opinberar spár voru undir mælingunni, en spár voru á bilinu 0,09-0,39% hækkun á vísitölu neysluverðs. Flestir liðir leggjast á eitt og hækka á milli mánaða. Helsti munur á okkar spá og mælingu Hagstofunnar er húsnæðisliðurinn sem hækkar nokkuð meira en við gerðum ráð fyrir. Auk þess hækka matvörur meira en í spá okkar.

Húsnæðisliður til trafala

Húsnæðisliður vegur þyngst til hækkunar vísitölunnar í mánuðinum. Það er vegna þess að reiknaða húsaleigan hækkar um 0,9% (0,19% áhrif á VNV). Þetta er svipuð hækkun og í síðasta mánuði en meiri hækkun en mánuðina þar á undan. Eftir að Hagstofan breytti aðferðafræðinni við útreikning á reiknuðu húsaleigunni í fyrrasumar hefur reynst erfitt að spá fyrir um þennan lið. Eins og sést á myndinni hér að neðan hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis (eldri mæling) aðeins gefið eftir á meðan reiknaða húsaleigan (ný mæling á leiguverði) heldur áfram að hækka.

Nú er rólegra um að litast á íbúðamarkaði en áður eins og við fjölluðum nýlega um hér. Þá hefur vísitala leiguverðs, sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mælir, hækkað lítið sem ekkert síðustu tvo mánuði. Mælingar HMS og Hagstofunnar eru þó ekki eins, þó þær séu líkar að sumu leyti. Í einföldu máli byggir vísitala leiguverðs á meðalfermetraverði leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu á nýjum leigusamningum og birtist með mánaðartöf. Reiknuð húsaleigan áætlar leiguverð alls íbúðarhúsnæðis sem er í eigin notkun og notar gögn um alla leigusamninga sem eru í gildi í mánuðinum.

Flestir liðir hækka

Flestir aðrir liðir VNV hækkuðu á milli mánaða. Tómstundir og menning hækkaði um 0,8% (0,09% áhrif ) og hafði mest áhrif á hækkun vísitölunnar að húsnæðisliðnum undanskildum. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,55% (0,09% áhrif) sem má að mestu rekja til verðhækkunar á kjöti. Síðustu mánuði fór að hægja á verðhækkunum á matvörum eftir miklar hækkanir fyrr á árinu. Það er nokkuð áhyggjuefni ef matvörur taka að hækka á ný.

Flugverð hækkar um 1,1% (0,03% áhrif). Gjaldþrot Play hefur því ekki haft mikil áhrif á flugverð í október eins og Hagstofan mælir það. Einungis hluti af mælingunni fór fram eftir gjaldþrot Play þar sem flugverð sem notað er í útreikningum í október var mælt í ágúst, september og október. Áhrifin munu því koma betur í ljós næstu mánuði en við teljum áhrifin ekki veruleg.

Föt og skór hækkuðu um 1,1% í verði (0,04% áhrif) á milli mánaða ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði sem hækkaði um 1% (0,05% áhrif). Þetta eru leifar af útsölulokum sem við gerðum ráð fyrir í okkar spá.

Eini liðurinn sem lækkar á milli mánaða eru hótel og veitingastaðir. Liðurinn lækkaði um 1,3% í verði (-0,07% áhrif) en um árstíðarbundin áhrif er að ræða.

Undirliggjandi verðbólga eykst

Allar kjarnavísitölur hækka á á bilinu 0,1-0,3% á milli mánaða. Þetta þýðir að undirliggjandi verðbólga, sem mælir verðbólgu án sveiflukennda liða, er að aukast. Þetta mun verða peningastefnunefnd Seðlabankans þyrnir í augum en hún horfir gjarnan til undirliggjandi verðbólgu við mat á undirliggjandi verðbólguþrýstingi.

Verðbólga breytist lítið næstu mánuði

Eins og fyrr segir mælist verðbólga nú meiri en við væntum. Vegna þessa mun verðbólga reynast meiri næstu mánuði en við gerðum áður ráð fyrir.

  • Nóvember: 0,1% hækkun VNV (4,3% ársverðbólga) - Flugfargjöld lækka sem vegur á móti hækkun á öðrum helstu liðum.
  • Desember: 0,4% hækkun VNV (4,3% ársverðbólga) – Flugfargjöld hækka í kringum hátíðirnar. Aðrir liðir hækka smávegis. Ársverðbólga helst óbreytt á milli mánaða.
  • Janúar: 0,2% lækkun VNV (4,4% ársverðbólga) – Gjaldskrárhækkanir og krónutöluhækkanir vega á móti vetrarútsölum og lækkun flugverðs.

Verðbólgan mun líklegast mælast á svipuðum slóðum næstu mánuði og taka svo að hjaðna hægt fyrri hluta næsta árs. Stærsti óvissuþáttur fyrir skammtímaspá okkar er reiknaða húsaleigan sem hefur nú hækkað talsvert tvo mánuði í röð og erfitt hefur reynst að spá fyrir um þann lið.

Eftir mælinguna í morgun hefur ávöxtunarkrafan á skuldabréfamarkaði almennt hækkað á óverðtryggðum ríkisbréfum og verðbólgaálagið þar með hækkað. Markaðurinn er því að búast við þrálátari verðbólgu og að Seðlabankinn haldi vöxtum háum áfram. Peningastefnunefnd Seðlabankans birtir næstu ákvörðun 19. nóvember og verða þetta nýjustu verðbólgutölur sem nefndin mun hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína. Við teljum líklegustu niðurstöðuna þá að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum þrátt fyrir vaxandi mótbyr í útflutningsgreinum, enda sýna tölur morgunsins að hægt gengur að kveða verðbólgudrauginn niður.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband