Nú er rólegra um að litast á íbúðamarkaði en áður eins og við fjölluðum nýlega um hér. Þá hefur vísitala leiguverðs, sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mælir, hækkað lítið sem ekkert síðustu tvo mánuði. Mælingar HMS og Hagstofunnar eru þó ekki eins, þó þær séu líkar að sumu leyti. Í einföldu máli byggir vísitala leiguverðs á meðalfermetraverði leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu á nýjum leigusamningum og birtist með mánaðartöf. Reiknuð húsaleigan áætlar leiguverð alls íbúðarhúsnæðis sem er í eigin notkun og notar gögn um alla leigusamninga sem eru í gildi í mánuðinum.
Flestir liðir hækka
Flestir aðrir liðir VNV hækkuðu á milli mánaða. Tómstundir og menning hækkaði um 0,8% (0,09% áhrif ) og hafði mest áhrif á hækkun vísitölunnar að húsnæðisliðnum undanskildum. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,55% (0,09% áhrif) sem má að mestu rekja til verðhækkunar á kjöti. Síðustu mánuði fór að hægja á verðhækkunum á matvörum eftir miklar hækkanir fyrr á árinu. Það er nokkuð áhyggjuefni ef matvörur taka að hækka á ný.
Flugverð hækkar um 1,1% (0,03% áhrif). Gjaldþrot Play hefur því ekki haft mikil áhrif á flugverð í október eins og Hagstofan mælir það. Einungis hluti af mælingunni fór fram eftir gjaldþrot Play þar sem flugverð sem notað er í útreikningum í október var mælt í ágúst, september og október. Áhrifin munu því koma betur í ljós næstu mánuði en við teljum áhrifin ekki veruleg.