Stefna í samfélagslegri ábyrgð

Íslandsbanki sinnir sínu hlutverki meðal annars með ábyrgum fjárfestingum og lánveitingum, stuðningi við samtök og frumkvöðlastarfsemi, styrkjum og viðburðum.


Íslandsbanki hefur frá árinu 2010 verið aðili að alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, UN Global Compact, og hefur birt árlegar samfélagsskýrslur (COP) sem byggjast á nálgun sáttmálans.

Tekin var ákvörðun um að leggja enn frekari áherslu á samfélagsábyrgð árið 2013 með því að kortleggja samfélagsverkefni bankans. Í kjölfarið var ákveðið að samfélagsábyrgð yrði ein af þremur stefnuáherslum bankans og ný stefna mótuð um málaflokkinn. Stefna Íslandsbanka í samfélagsábyrgð var kynnt 2015 og var samfélagsskýrsla bankans fyrir árið 2014 sú fyrsta þar sem stuðst var við viðmið Global Reporting Initiative, GRI.

Fimm meginstoðir stefnu Íslandsbanka í samfélagsábyrgð:

 • Viðskipti: Íslandsbanki leggur áherslu á góða stjórnarhætti og hagkvæmni. Bankinn leitast við að þjóna viðskiptavinum sínum með því að hafa skýrt regluverk, veita gagnlegar upplýsingar og gæta jafnræðis meðal viðskiptavina.
 • Fræðsla: Markmið Íslandsbanka er að auka þekkingu, færni og áhuga á fjármálum með því að bjóða upp á aðgengilega og áhugaverða fræðslu um fjármál og efnahagsmál. Fræðslunni er ætlað að vekja áhuga og aðstoða fólk við að taka upplýstar ákvarðanir um eigin fjármál.
 • Umhverfið: Íslandsbanki leggur áherslu á að vinna í takt við umhverfið og að lágmarka þau neikvæðu umhverfisáhrif sem starfsemi bankans kann að hafa.
 • Vinnustaðurinn: Starfsmenn eru hvattir til virkrar þátttöku í samfélagsverkefnum, áhersla er lögð vellíðan á vinnustað og sífellt stefnt að markvissri fræðslu. Markmið Íslandsbanka er að ráða, efla og halda í hæfileikaríkt og ábyrgt starfsfólk.
 • Samfélagið: Íslandsbanki leggur sitt af mörkum til að efla nærsamfélag sitt með því að styðja við félags-, menningar- og íþróttastarf auk þess að styrkja nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni. Stuðningur er bæði í formi þátttöku starfsmanna og beins fjárstuðnings við valin verkefni.

Tekin var ákvörðun um að fara af stað með níu lykilverkefni, valin af framkvæmdastjórn bankans, þegar ný stefna í samfélagsábyrgð var kynnt:

 • Ábyrg lánastarfsemi
 • Upplýsingaöryggi
 • Ábyrg innkaupastefna
 • Samgöngustefna
 • Jafnréttisstefna
 • Fræðsla til viðskiptavina
 • Stefna um ábyrgar fjárfestingar
 • Hjálparhönd Íslandsbanka
 • Mótun skýrrar styrkjastefnu

Öll verkefnin eru vel á veg komin og mótaðar hafa verið stefnur í öllum málaflokkum. Sum verkefnanna eru í eðli sínu þannig að þau eru í stöðugri þróun.

UN Global Compact


Þátttakendur í Global Compact skila inn framvinduskýrslu árlega og gera grein fyrir því hvernig innleiðing á grundvallarviðmiðum Global Compact er háttað.

Með útgáfu samfélagsskýrslu leitast fyrirtækið við að greina, meta og mæla þau áhrif sem starfsemi hans hefur á umhverfið og samfélagið. Markmið Íslandsbanka var frá upphafi að tengja samfélagslega ábyrgð við allar hliðar daglegrar starfsemi bankans.

Þátttaka í samfélagsábyrgð


Íslandsbanki tekur þátt í eftirfarandi samstarfi um samfélagsábyrgð:

Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð: Festa er miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Íslandsbanki gekk í Festu árið 2015.

United Nations Global Compact: Íslandsbanki hefur verið þátttakandi í UN Global Compact á heimsvísu frá árinu 2013.

United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI): UN PRI eru samtök fjárfesta, sjóðafyrirtækja og greinenda sem hafa það að markmiði að innleiða umhverfis- og samfélagssjónarmið, auk góðra stjórnarhátta, í ákvarðanatöku við fjárfestingarákvarðanir.

IcelandSIF, samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi: Íslandsbanki var einn af stofnaðilum IcelandSIF árið 2017. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Parísarsamkomulagið: Íslandsbanki undirritaði í nóvember 2015 yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum ásamt rúmlega 100 íslenskum fyrirtækjum og stofnunum, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Festu.