Íslandsbanki hf.: Kristín Hrönn nýr framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta


Kristín Hrönn Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka.

Kristín Hrönn hefur yfir 20 ára reynslu sem stjórnandi á fjármálamörkuðum. Hún stýrði teymi verslunar og þjónustu meðal stærri fyrirtækja á árunum 2013-2019 og hefur síðan þá verið forstöðumaður Fjármála, reksturs og stefnumótunar á sviðinu auk þess að sitja í lánanefndum, efnahagsnefnd og fjárfestingarráði bankans. Kristín Hrönn tekur við af Ásmundi Tryggvasyni sem gegndi starfinu frá ársbyrjun 2019 og hefur ákveðið að stíga til hliðar.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka:
„Um leið og við þökkum Ásmundi fyrir hans störf bjóðum við Kristínu Hrönn velkomna í framkvæmdastjórn. Hún hefur víðtæka reynslu sem á eftir að nýtast vel í störfum hennar fyrir bankann.“
 
Kristín Hrönn er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, stjórnendagráðu frá IESE Business School í Barcelona og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Frekari upplýsingar veita:
Fjárfestatengsl - Bjarney Anna, ir@islandsbanki.is

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er alhliða banki sem leggur áherslu á að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna og á sér langa sögu sem nær aftur til ársins 1875. Bankinn leggur áherslu á traustan rekstur og að hafa jákvæð áhrif í samfélaginu en hlutverk bankans er að vera hreyfiafl til góðra verka svo viðskiptavinir okkar nái árangri. Með framtíðarsýn um að skapa virði til framtíðar með því að veita framúrskarandi þjónustu, vinna þrjár viðskiptaeiningar þétt saman til þess að viðhalda góðum viðskiptasamböndum. Markaðshlutdeild bankans er sterk og rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið á landinu og styður um leið við viðskiptavini sína á stafrænni vegferð þeirra. Umhverfið sem bankinn starfar í er eftirsóknarvert og er Íslandsbanki vel í stakk búinn að takast á við tækifærin framundan með öflugar tæknilegar stoðir og sterkan efnahagsreikning. Íslandsbanki er með lánshæfismatið BBB/A-2 frá S&P Global Ratings. Hlutabréf bankans eru skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Fylgiskjöl