Peningaþvættisvarnir
Hvers vegna þarf að framvísa skilríkjum og svara ýmsum spurningum við stofnun reikninga og vegna ákveðinna viðskipta? Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Samkvæmt lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ber Íslandsbanka að þekkja viðskiptavini sína og starfsemi þeirra og viðskipti við bankann svo vel að þeir geti orðið varir við það ef starfsemi bankans er notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
Þetta ber bankanum að gera með því að framkvæma svokallaða áreiðanleikakönnun á nýjum viðskiptavinum sínum við upphaf viðvarandi viðskiptasambands þeirra við bankann, t.d. áður en þeir stofna bankareikning eða taka lán. Önnur helstu tilvik þar sem framkvæma þarf áreiðanleikakönnun eru þegar aðilar, sem annars eru ekki í viðskiptum við bankann, eiga einstök viðskipti að fjárhæð 15.000 evrur eða meira. Sama á við þegar sömu aðilar óska eftir að millifæra fjármuni að fjárhæð 1.000 evrur eða meira.
Áreiðanleikakönnun fer þannig fram að Íslandsbanki kallar eftir upplýsingum um viðskiptavininn og fyrirhuguð viðskipti. Er þetta gert með því að biðja viðskiptavini um að svara spurningum og leggja fram nauðsynleg gögn. Sem dæmi um þær upplýsingar sem afla þarf má nefna helstu persónuupplýsingar, þegar um einstaklinga er að ræða, auk upplýsinga um uppruna fjármuna og tilgang viðskipta. Á bankanum hvílir einnig sú skylda að láta viðskiptavini sína sanna á sér deili með því að framvísa við bankann gildum og viðurkenndum persónuskilríkjum (nafnskírteini, ökuskírteini, vegabréfi eða rafrænum skilríkjum), sem bankanum ber að varðveita afrit af.
Í tilviki lögaðila (svo sem félaga, fyrirtækja og sjóða) þarf m.a. að kalla eftir upplýsingum um lagalegt form lögaðilans og starfsemi, hverjir eru raunverulegir eigendur hans[1], hverjir stjórna honum og eru bærir til að skuldbinda hann. Til sönnunar á deilum á lögaðilum og til að staðfesta áreiðanleika annarra upplýsinga er kallað eftir viðeigandi gögnum, svo sem vottorði úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá, ársreikningum/stofnefnahagsreikningum og samþykktum. Þá ber bankanum einnig að láta þá, sem hafa heimild til að koma fram fyrir hönd lögaðilans, að sanna á sér deili líkt og þegar um einstaklinga er að ræða. Sama á við um raunverulega eigendur.
Óheimilt er að framkvæma viðskipti eða stofna til viðskiptasambands við aðila ef skilyrði laganna um könnunar á áreiðanleika upplýsinga eru ekki uppfyllt.
Áreiðanleikakönnun er ekki aðeins framkvæmd í upphafi viðskiptasambands heldur ber bankanum að kanna áreiðanleika upplýsinga um núverandi viðskiptavini, m.a. þegar breytingar verða á samningssambandinu eða vegna endurskoðunar á raunverulegu eignarhaldi. Þannig leitast bankinn við að tryggja að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann séu ávallt réttar. Viðskiptavinir mega því búast við því að vera reglulega spurðir sömu spurninga og kallað sé eftir sömu gögnum og gert var í upphafi viðskiptasambands. Þetta er ekki aðeins lagaskylda heldur einnig mikilvægur þáttur í því að tryggja að aðeins þeir geti átt viðskipti fyrir hönd viðskiptavinar, sem heimild hafa til þess á hverjum tíma.
Með þessu móti er bankinn því að uppfylla skyldur ásamt því að stuðla að öryggi viðskiptavina sinna í viðskiptum við bankann.
Þær skyldur sem hér hefur verið lýst, og lagðar eru á bankann í lögum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, endurspegla þær ríku kröfur, í þessu efni, sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja á alþjóðlegum vettvangi. Tilgangurinn er sá að taka á því alþjóðlega vandamáli sem peningaþvætti er, en það er talið ein af undirstöðum alþjóðlegrar glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaverslunar og hryðjuverka. Í samræmi við þetta ber bankanum því, lögum samkvæmt, að tilkynna lögreglu um það ef grunur vaknar um að starfsemi hans sé notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
[1] 3 Raunverulegur eigandi í tilviki lögaðila: Einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfir á lögaðila (d. stjórnaraðilar). Á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði skv. skilgreiningu laga um kauphallir.