Regluverk

Íslandsbanki er fjármálafyrirtæki og starfar í samræmi við viðeigandi regluverk á sviði fjármálamarkaða. Regluverkið rammar inn stjórnarhætti bankans.

Starfað í samræmi við viðeigandi regluverk


Íslandsbanki er fjármálafyrirtæki og starfar í samræmi við viðeigandi regluverk á sviði fjármálamarkaða sem rammar inn stjórnarhætti hans. Meðal þeirra laga sem um starfsemi bankans gilda eru lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja nr. 70/2020, lög um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021, lög um greiðsluþjónustu nr. 120/2011, lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016, lög um neytendalán nr. 33/2013, samkeppnislög nr. 44/2005 og lög um hlutafélög nr. 2/1995 sem ásamt samþykktum bankans mynda grunninn að starfsemi hans.

Lög um hlutafélög

Íslensku hlutafélagalögin eru að stærstum hluta byggð á evrópskri fyrirtækjalöggjöf. Íslenskum félögum er skylt að skrá sig hjá Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og tilgreina hverjir sitja í stjórn og hver er framkvæmdastjóri fyrirtækisins ásamt því að afhenda samþykktir félagsins. 

Reglur hlutafélagalaga innihalda m.a. umfjöllun um starfsemi fyrirtækja, hlutabréf, stjórnskipulag, aðalfundi, endurskoðun og ábyrgð stjórnenda.

Lög um fjármálafyrirtæki

Íslandsbanki er viðskiptabanki og starfar því í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) er eftirlitsaðili með fjármálafyrirtækjum á Íslandi. FME gefur út starfsleyfi, hefur eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og gengur úr skugga um að þau starfi í samræmi við viðeigandi regluverk og góða viðskiptahætti.

Lög um fjármálafyrirtæki fjalla um starfsleyfi, eignarhluti og hlutafé, endurskoðun, áhættustýringu og annað innra regluverk og hæfni stjórnenda.

Lög um markaði fyrir fjármálagerninga

Löggjöfin byggir á tilskipun Evrópusambandsins (ESB) um markaði fyrir fjármálagerninga (Markets in Financial Instruments Directive, MiFID II). Tilskipun þessi hefur í för með sér breytingar á reglum um viðskipti með fjármálagerninga innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og hafa þær áhrif á samskipti fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra.

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Tilgangur laganna er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra.

Frekari upplýsingar um peningaþvættisvarnir Íslandsbanka.

Endurskoðun


Innri endurskoðun veitir Íslandsbanka sjálfstæða og hlutlæga staðfestingu á því hvort ferli bankans varðandi áhættustýringu, innra eftirlit og stjórnarhætti séu fullnægjandi. Innri endurskoðun leiðir jafnframt innri rannsóknir á meintu misferli í starfsemi bankans. 

Líkt og kveðið er á um í lögum um fjármálafyrirtæki skal endurskoðunarfélag kosið á aðalfundi bankans. Á aðalfundi bankans árið 2021 var Ernst & Young kjörið endurskoðendafélag bankans.

Regluvarsla


Regluvörður Íslandsbanka er skipaður af bankastjóra og hefur sjálfstæða stöðu í skipuriti bankans. Stjórn bankans staðfestir skipun regluvarðar og sækir regluvarslan umboð sitt frá stjórn. Íslandsbanka ber að starfrækja regluvörslu, annars vegar sem fjármálafyrirtæki með heimild til verðbréfaviðskipta og hins vegar sem útgefandi skráðra fjármálagerninga. Hlutverk regluvörslu er að fylgjast með og meta reglulega hæfi og skilvirkni ráðstafana Íslandsbanka sem miða að því að bankinn, stjórn og starfsfólk starfi ávallt í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og innri reglur bankans vegna verðbréfaviðskipta og m.t.t. peningaþvættisvarna og viðhafi ávallt heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti vegna þessa. Stjórn bankans hefur heimild til að fela regluvörslu frekari hlutverk en framangreind, séu þau í samræmi við lögbundnar skyldur. Regluvörður sendir bankastjóra og stjórn Íslandsbanka skýrslu a.m.k. árlega.