Ávarp stjórnarformanns



Það er óhætt að segja að árið 2023 hafi í senn verið viðburðaríkt og lærdómsríkt í rekstri bankans. Árið byrjaði vel með innleiðingu á nýrri stefnu og góðum árangri í stafrænni þjónustu en í kjölfarið fylgdu áföll í tengslum við sáttina vegna sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum, breytingum á stjórn bankans og bankastjóraskipti. Seinni hluti árs hefur verið nýttur til þess að ná stöðugleika á ný, bæði innanhúss og gagnvart viðskiptavinum okkar og ljúka úrbótavinnu í tengslum við sáttina sem gerð var við Seðlabanka Íslands. Þá höfum við unnið að hörðum höndum að bættum vörnum gegn peningaþvætti. Allt mun þetta skila sér til frambúðar og nauðsynlegur grunnur þess að gera bankann tilbúinn að takast á við framtíðartækifæri. 

Það voru ekki einungis innri áskoranir sem lituðu árið 2023 heldur einnig náttúruhamfarir eins og fólkið okkar í Grindavík þurfti því miður að upplifa, einnig eru aðstæður á bankamarkaði hér á Íslandi mjög ólíkar því sem alþjóðlegir samkeppnisaðilar okkar starfa við en eiginfjárkröfur íslenskra banka eru með því hæsta sem sést í heiminum. Það er skýrt að á íslenskum markaði eru tækifæri og þörf á sameiningu og verður áhugavert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér í þeim málum. Afar mikilvægt er að land og þjóð ásamt eftirlitsaðilum myndi sér sterka sýn á því hvernig framtíðar eignarhald og landslag á fjármálamarkaði lítur út.

Efnahagsumhverfið var krefjandi þegar hagkerfið hóf skeið aðlögunar eftir kröftugt vaxtarskeið. Þótt merki um þenslu hafi verið talsverð á vinnumarkaði sem og víðar í þjóðarbúskapnum hafa heimili og fyrirtæki góðu heilli gengið fremur varlega um gleðinnar dyr. Fjárhagsstaða þeirra er almennt sterk og skuldir hóflegar í sögulegum og alþjóðlegum samanburði.  

Ferðaþjónustan hefur í stórum dráttum jafnað sig eftir það högg sem COVID-19 faraldurinn reiddi henni og er á ný komin í forystu meðal útflutningsgreina þjóðarbúsins. Horfur eru á að árið 2024 verði metár hvað komur ferðafólks hingað til lands varðar. Þá hefur verið ánægjulegt að fylgjast með öðrum vaxtarbroddum í útflutningsgreinum sem byggja að stærstum hluta á hugviti og betri nýtingu þeirra auðlinda sem við Íslendingar búum að.  

Staða bankans er mjög sterk og bankinn hefur lagt mikla áherslu á að standa með viðskiptavinum sínum í krefjandi efnahagsumhverfi. Eiginfjárstaða bankans er sömuleiðis sterk og afstaða lánshæfismatsfyrirtækja til bankans endurspeglar jákvætt viðhorf til undirliggjandi rekstrar.  Reksturinn hefur verið stöðugur og arðsemi eigin fjár yfir markmiðum.  


Útlit fyrir minni verðbólgu og lægri vexti 
 

Í kjölfar hjaðnandi verðbólgu er gert ráð fyrir að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli síðar á þessu ári. Minnkandi verðbólga og lækkun vaxta verða án efa kærkomin heimilum og fyrirtækjum landsins enda er útlit fyrir að kaupmáttur launa vaxi nokkuð á árinu þrátt fyrir hægari hækkun launa en verið hefur síðustu misseri. Raunvextir verða þó líkast til nokkuð háir allt þetta ár, sem mun draga úr fjárfestingarvilja fyrirtækja og hvetja almenning til sparnaðar fremur en verulegrar aukningar í neyslu. 


Fastir vextir losna 
 

Í hávaxtaumhverfi er eðlilegt að hreyfing verði á lánasamsetningu heimila. Mikil færsla hefur verið frá óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð lán þar sem heimili leita í viðráðanlegri greiðslubyrði. Bankinn fylgist vel með stöðu viðskiptavina og hefur reynt að koma til móts við þá eins og hægt er, meðal annars með fræðslu um leiðir til að lækka greiðslubyrði. Einnig höfum við haldið úti mikilli fræðslu um leiðir til að lækka greiðslubyrði. Á árinu 2023 kom til vaxtaendurskoðunar á um 15 milljörðum króna af húsnæðislánum sem báru tímabundið fasta vexti, og var nokkur hluti þeirra endurfjármagnaður með verðtryggðum lánum. Á árinu 2024 er gert ráð fyrir að um 43 milljarðar króna af húsnæðislánum með tímabundið fasta vexti komi til vaxtaendurskoðunar, og árið eftir um 57 milljarðar króna. Verði þróunin áfram sú sama og verið hefur, má búast við að lánasamsetning bankans flytjist í auknum mæli yfir í verðtryggð lán, sem gæti leitt til áframhaldandi aukningar í verðtryggingaójöfnuði bankans.  


Uppbygging og úrbótavinna
 

Árið litaðist af vinnu við að styrkja stoðir og menningu bankans í kjölfar samkomulags við Seðlabanka Íslands um að ljúka með sátt máli vegna brota Íslandsbanka við sölumeðferð 22,5% eignarhlutar ríkisins í bankanum sem fór fram 22. mars 2022. Bankinn greiddi 1.160 milljónir króna í sekt og skuldbatt sig til tiltekinna úrbóta, til að mynda er varðar skilyrðislausar hljóðritanir, bætta flokkun viðskiptavina og upplýsingagjöf til þeirra sem og betri og skýrari hagsmunaárekstragreininga og áhættumöt verkefna. Þá var að auki lögð mikil áhersla á að styrkja stjórnarhætti bankans sem styður við sterka áhættumenningu nú og til framtíðar. Bankinn naut ráðgjafar Oliver Wyman í úrbótavinnunni og hefur starfsfólk bankans sett gríðarlega mikinn kraft og vinnu í úrbótavinnuna. Auk þess hafa orðið miklar mannabreytingar, bæði í stjórn og hópi stjórnenda bankans. Á hluthafafundi bankans í júlí var ný stjórn kjörin af hluthöfum þar sem við komum fjögur ný inn í stjórn bankans. Þá hafa einnig orðið miklar breytingar á framkvæmdastjórn bankans með sex nýjum ráðningum sem eru blanda af fólki innan bankans og aðilum sem koma með þekkingu úr öðrum fyrirtækjum innanlands og utan. Mikilvægt er að þekking og kunnátta viðhaldist í bankanum í bland við nýja vinda og við erum sannfærð um að þetta mikla lærdómsár verði til þess að styrkja enn betur stoðir og rekstur bankans.  

Mikilvægt er að þekking og kunnátta viðhaldist í bankanum í bland við nýja vinda og við erum sannfærð um að þetta mikla lærdómsár verði til þess að styrkja enn betur stoðir og rekstur bankans.

Góð þjónusta aðalatriði  

Í upphafi árs var ný stefna mótuð fyrir bankann með aðstoð McKinsey. Hlutverk bankans er áfram að vera hreyfiafl til góðra verka og framtíðarsýnin að skapa virði til framtíðar með framúrskarandi þjónustu. Íslandsbanki hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á þjónustu og halda þær áherslur áfram að vera í forgrunni bæði meðal viðskiptavina og starfsfólks.  

Framúrskarandi þjónusta í hlutverki bankans þýðir í okkar huga að við séum fær um að veita stafræna þjónustu með einföldum hætti þegar viðskiptavinur þarf á þjónustunni að halda. Samhliða þarf persónuleg þjónusta og ráðgjöf að vera öflug fyrir stærri ákvarðanir og við munum halda áfram að styðja við viðskiptavini í þeirra áskorunum. Einnig þurfum við að þekkja okkar viðskiptavini vel, hvað er það sem þá vantar og hvernig getum við sem best unnið saman til þess að viðskiptavinum gangi vel. Jafnframt finnst okkur mjög mikilvægt að viðhalda fræðslu til viðskiptavina og efla þeirra fjárhagslegu heilsu. Eins og með öll markmið þá nást þau ekki á fyrsta degi en það er mikill metnaður innan bankans um að bæta sig dag frá degi.  

Sjálfbærni er áfram ein af fjórum stefnuáherslum bankans. Óhætt er að segja að væntingar til fyrirtækja á sviði sjálfbærni hafi aukist verulega síðustu misseri – bæði vegna aukins umfangs regluverks er varðar málaflokkinn en einnig vegna sterkara ákalls frá hinum ýmsu hagaðilum svo sem starfsfólki, fjárfestum og viðskiptavinum. Á árinu voru stór skref tekin í átt að áframhaldandi samþættingu sjálfbærnisjónarmiða í rekstri bankans svo sem vinna við tvöfalda mikilvægisgreiningu, mat á sjálfbærniáhættu í lánasafni og uppfærsla á sjálfbærum fjármögnunarramma sem birtur var í upphafi árs 2024. Öll þessi vinna miðar að því að bankinn sé betur í stakk búinn til að styðja við upplýsta ákvarðanatöku og stýringu áhættu, bregðast við auknum kröfum um sjálfbærniupplýsingagjöf og síðast en ekki síst styðja viðskiptavini á þeirra sjálfbærnivegferð. Stærsta tækifæri bankans til þess að vera raunverulegt hreyfiafl til góðra verka er að taka þátt í að fjármagna þá umbreytingu sem þarf að eiga sér stað í íslensku samfélagi til þess að metnaðarfull markmið Íslands á sviði loftslags- og jafnréttismála geti náðst.  


Rekstur og verkefnin framundan
 

Þegar horft er yfir árið var það heilt yfir gott í rekstri bankans. Hagnaður af rekstri bankans fyrir árið nam 24,6 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Tekjur af kjarnastarfsemi eru enn stærstur hluti tekna bankans, gæði eigna eru mikil og veðstaða trygg. Bankinn stendur því á traustum grunni og er reiðubúinn í að ráðast áfram í verkefni með viðskiptavinum okkar.  

Stafrænar dreifileiðir verða sífellt vinsælli meðal viðskiptavina okkar og bankinn vill áfram vera í fararbroddi í þeirri þróun að auka stafræna bankaþjónustu og bæta stafrænt þjónustuframboð svo viðskiptavinir bankans fái notið einstaklingsmiðaðrar þjónustu sem nýtist í þeirra verkefnum og tækifærum hverju sinni.    


Þakkir til starfsfólks 
 

Það var mikill heiður að taka sæti í stjórn Íslandsbanka á árinu. Hjá Íslandsbanka vinnur frábært fólk sem vill vera hreyfiafl í verkefnum viðskiptavina sinna og á bankinn að baki langa og farsæla sögu.  

Birna Einarsdóttir, bankastjóri bankans til 15 ára og starfsmaður til 30 ára, kvaddi bankann í sumar og vil ég fyrir hönd stjórnar þakka fyrir hennar mikilvæga framlag í öll þessi ár þar sem jafnrétti og sjálfbærni varð sterkur hluti af menningu bankans. Við keflinu tók Jón Guðni Ómarsson sem hefur stýrt bankanum af mikilli festu og leitt bankann áfram í gegnum krefjandi uppbyggingartímabil, hann hefur einnig mikla reynslu úr bankanum eftir að hafa starfað hjá bankanum og forverum hans í hartnær aldarfjórðung. Við horfum björtum augum á nýtt ár og hlökkum til komandi áskorana með viðskiptavinum okkar. 

 

Ég vil þakka starfsfólki bankans fyrir þeirra framlag en þetta ár hefur ekki verið þeim auðvelt í þeirri erfiðu umræðu sem átti sér stað í samfélaginu. Það hefur verið mjög skýrt í allri úrbótavinnu á árinu að hjá bankanum vinnur fólk sem er mjög staðfast á vegferðinni við að bæta þá þætti sem þarf að bæta með það fyrir augum  að standa uppi enn sterkari. Með sterkari grunn og með gildi okkar í fyrirrúmi munum við með eldmóði nýta okkur þau tækifæri sem eru til staðar.