Ávarp bankastjóra


Árið 2023 var ár breytinga og úrbóta hjá Íslandsbanka. Árið var farsælt rekstrarlega séð og var arðsemi yfir markmiðum bankans. Ytri aðstæður hafa um margt verið erfiðar í íslensku efnahagslífi í mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi. Íslandsbanki stígur ölduna með viðskiptavinum sínum um leið og hann leggur kapp á að vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.

Ráðist var í mikla úrbótavinnu

Miklar breytingar urðu hjá bankanum í lok júní, þegar Birna Einarsdóttir steig til hliðar eftir 15 ár sem bankastjóri. Birna var mikill leiðtogi innan bankans og afar vinsæl meðal starfsfólks. Hún stýrði bankanum í gegnum krefjandi tíma eftir fjármálahrunið 2008 og var framsýnn leiðtogi í íslensku atvinnulífi.

Í starfsemi bankans er í mörg horn að líta. Ráðist var í mikla úrbótavinna vegna ágalla á framkvæmd við söluferli bankans árið 2022. Sú vinna gekk vel og örugglega með miklum samtakamætti starfsfólks. Meðal helstu úrbóta var að gera viðeigandi breytingar á reglum og verklagi, svo sem reglum um viðskipti starfsfólks og um hljóðritanir. Þá var eitt helsta og mikilvægasta verkefnið að treysta í sessi sterka áhættumenningu þvert á allan bankann. Loks má nefna að sett var upp sérstök skyldufræðsla fyrir starfsfólk og spurningum er varða áhættumenningu bætt í hálfsárslega vinnustaðagreiningu.

Annað umfangsmikið viðfangsefni sem við tókumst á við var að bregðast við athugun fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á aðgerðum Íslandsbanka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Lokaskýrsla fjármálaeftirlitsins, sem barst Íslandsbanka í september 2023, hafði að geyma ýmsar ábendingar og athugasemdir við framkvæmd bankans á þeim þáttum sem athugunin laut að. Strax var hafin vinna við að bæta úr þeim ágöllum sem fjármálaeftirlitið benti á.

Þróun stafrænnar þjónustu heldur áfram

Á árinu lögðum við sérstaka áherslu á samhæfingu og nýtingu stafrænna gagna með stofnun nýs sviðs þar sem saman koma okkar færustu sérfræðingar í tæknimálum, vöruþróun og gagnameðferð. Er nálgunin í samræmi við stefnu bankans um að bjóða þjónustu sem byggir á stafrænum lausnum og hagnýtingu gagna. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa með innleiðingu nýrra stafrænna lausna jafnt fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þannig hefur þróun spjallmennisins Fróða haldið áfram en hann nýtir gervigreind til að efla þjónustu og svör til viðskiptavina og hefur hann hlotið afar góðar viðtökur. Þá hafa mikilsverðar framfarir átt sér stað með stafrænni endurfjármögnun lána, sjálfvirkri lánveitingu og greiðslumati. Eins hefur bankinn lagt áherslu á innleiðingu stafrænna lausna fyrir fyrirtæki, sem nú geta með rafrænum hætti skráð sig í viðskipti og annast viðskipti með verðbréf í stafrænum dreifileiðum. Í þróun er jafnframt nýr netbanki fyrirtækja með aukinni og betri virkni.

Stafrænni bankaþjónustu fylgja líka aukin tækifæri til enn víðtækari þjónustu við viðskiptavini. Að velja sér bankaþjónustu sem hentar getur reynst snúið en nýtt stafrænt viðmót einfaldar skref viðskiptavina okkar. Góð þjónusta snýst um að þekkja þarfir viðskiptavina sinna, upplýsa um þá kosti sem henta hverju sinni og vera til staðar á mikilvægum tímamótum. Að geta með auðveldum hætti hafið greiðslumat og fengið vissu um greiðslugetu innan nokkurra mínútna kann að skipta sköpum við ákvarðanatöku um hvort tilboð skuli gert í húsnæði eða ekki.

Nýjum reikningi sem kynntur var á árinu, verðtryggðri Ávöxtun, var vel tekið af viðskiptavinum, en slíkan reikning er bara hægt að stofna rafrænt. Verðtryggð Ávöxtun er verðtryggður reikningur sem er aðeins bundinn í 90 daga í stað þriggja ára eins og eldri verðtryggðir reikningar voru. Hann hentar þannig einstaklingum sem vilja hærri vexti á bundnum sparnaði til skemmri tíma. Ávöxtunar-reikningar eru nú orðnir yfir 20 þúsund talsins.

Á árinu lögðum við sérstaka áherslu á samhæfingu og nýtingu stafrænna gagna með stofnun nýs sviðs þar sem saman koma okkar færustu sérfræðingar í tæknimálum, vöruþróun og gagnameðferð.

Bankinn styður við nýsköpun

Á haustdögum styrkti Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka 14 verkefni um alls 50 milljónir króna. Stöðugur vöxtur hefur verið í umsóknum í sjóðinn sem endurspeglar mikla grósku í íslensku nýsköpunarumhverfi, á síðasta ári voru þær 132, en 90 árinu áður. Frá stofnun hefur sjóðurinn styrkt margvísleg verkefni um alls 215 milljónir króna.

Skemmtilegt hefur verið að fylgjast með verkefnum ná þroska líkt og gerðist þegar hátæknisprotafyrirtækið Payday var selt norska hugbúnaðarfyrirtækinu Visma, en Íslandsbanki kom að Payday og eignaðist hlut í fyrirtækinu fyrir þremur árum síðan. Hlutverk Íslandsbanka er að vera hreyfiafl til góðra verka og það finnst okkur sannarlega hafa tekist í stuðningi og aðkomu bankans að vexti Payday.

Fjártækni og sjálfvirknivæðing er okkur líka hugleikin í viðleitni til að auðvelda ferla og létta viðskiptavinum sporin í bankaviðskiptum. Til marks um þessa þróun er að á árinu 2023 voru 89% af lykilvörum bankans seldar í gegnum rafrænar dreifileiðir og 88% viðskiptavina greiða fyrir vörur og þjónustu með snertilausum greiðslulausnum.

Stafræn þróun og netverslun kallar á aukna árvekni, bæði af hálfu bankans og viðskiptavina. Með auknum viðskiptum á netinu hefur stafrænum svikum fjölgað. Íslandsbanki hefur lengi boðið lausnir á borð við að frysta kort og stilla heimild en á árinu voru kynntar breytingar í appi bankans sem stuðla að auknu öryggi. Viðbótarauðkenningar er nú krafist fyrir aðgerðir þar sem nálgast má upplýsingar á borð við kortanúmer og gildistíma. Þá hefur Íslandsbanki sett upp öflugt svikavaktarteymi með það að markmiði að grípa möguleg svik ásamt því að leysa úr þeim svikum sem upp koma. Svikavaktin vinnur náið með neyðarþjónustu bankans og því geta viðskiptavinir bankans treyst á og fengið þjónustu allan sólahringinn. Nýlega kynnti bankinn svo til sögunnar nýja auðkenningarleið sem byggir á staðfestingu netgreiðslna með rafrænum skilríkjum og hefur henni verið vel tekið.

Fækkun fermetra

Útibú bankans á Akranesi var flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði, steinsnar frá því gamla. Minnkaði húsnæðið á sama tíma úr 320 fermetrum í 200 fermetra og styður því við markmið bankans um aukið hagræði í bankaþjónustu. Snemma árs 2024 mun bankinn einnig flytja útibú bankans á Húsavík í nýtt húsnæði á besta stað og er þar aftur gætt að hagkvæmni og stærð, en á sama tíma tryggð góð og falleg aðstaða fyrir starfsfólk og viðskiptavini.

Íslandssjóðir bjóða úrval sparnaðarkosta

Íslandssjóðir hafa í um 30 ár boðið íslenskum sparifjáreigendum gott úrval sparnaðarkosta, allt frá skammtímasjóðum fyrir lausafé til hlutabréfasjóða sem henta fyrir sparnað og fjárfestingar til lengri tíma. Um 12 þúsund viðskiptavinir velja að ávaxta sparifé sitt í sjóðum Íslandssjóða.

Á árinu 2023 stofnuðu Íslandssjóðir sjóðinn IS Haf fjárfestingar þar sem Útgerðarfélag Reykjavíkur er kjölfestufjárfestir og samstarfsaðili. IS Haf er 10 milljarða króna fagfjárfestasjóður sem fjárfestir í haftengdri starfsemi, allt frá hráefnisöflun og vinnslu til haftengdra tæknilausna, innviða og sjávartengdri líftækni. Sjóðurinn hefur fjárfest í tveimur haftengdum fyrirtækjum á árinu og frekari fjárfestingarkostir eru í skoðun.

Á árinu fögnuðu Íslandsbanki og eignastýringarfyrirtækið Vanguard 25 ára samstarfsafmæli. Vanguard er stærsti stýringaraðili verðbréfasjóða í Bandaríkjunum og var Íslandsbanki fyrsti samstarfsaðili Vanguard utan Bandaríkjanna. Eignastýring Íslandsbanka bauð af þessu tilefni til fundar þar sem fulltrúar Vanguard fluttu áhugavert erindi um fjárfestingarstefnu félagsins og hröktu algengar mýtur um fjárfestingar. Vanguard hefur látið meira til sín taka í fjárfestingum hér á landi frá árinu 2022, eftir að Ísland færðist upp um flokk hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE Russell. Þá hafa stærstu lífeyrissjóðir landsins fjárfest í Vanguard verðbréfasjóðum og eru Vanguard eignir meðal stærstu erlendu eigna lífeyrissjóðanna. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs Vanguard næstu 25 árin.

Sveiflur á mörkuðum

Þungt var yfir íslenskum hlutabréfamarkaði á árinu samhliða löngu og bröttu vaxtahækkunarferli. Þá settu þrálát verðbólga og ýmsir óvissuþættir sinn svip á markaðinn. Skuldabréfamarkaður var þungur framan af ári en tók svo við sér á seinni hluta ársins. Nú virðist útlit fyrir að hápunkti vaxtahækkunarferlisins hafi eða verði fljótt náð. Standa vonir til þess að verðbréfamarkaðir taki því við sér á árinu 2024.

Gjaldeyrismiðlun Íslandsbanka náði enn og aftur góðum árangri á árinu 2023 og líklega óhætt að tala um metár í gjaldeyrisviðskiptum, en Íslandsbanki er leiðandi á þeim markaði. Velta í gjaldeyrismiðlun hefur aukist umtalsvert, ekki síst vegna vaxtar í ferðaþjónustu og aukinnar notkunar gjaldeyrisvarna.

Afar ánægjulegt var hversu vel tókst til við hlutafjárútboð og skráningu Ísfélags hf. á aðalmarkað Nasdaq Iceland, þar sem Íslandsbanki var einn umsjónaraðila útboðsins. Tæplega fjórföld eftirspurn var eftir bréfum félagsins í almennu hlutafjárútboði sem lauk í byrjun desembermánaðar.

Bankinn stendur styrkum fótum

Alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin S&P og Moody's vottuðu á árinu góða stöðu Íslandsbanka og ánægjulegt er að sjá bætta lánshæfismatseinkunn bankans. Það var stór áfangi þegar Moody's veitti Íslandsbanka lánshæfismatseinkunnina A3 með stöðugum horfum. Einkunnin ber sterkri eiginfjárstöðu Íslandsbanka og góðri og stöðugri arðsemi gott vitni.

Á árinu 2023 nam hagnaður Íslandsbanka samtals 24,6 milljörðum króna og arðsemi bankans var 11,3%, sem er umfram markmið bankans. Frá fyrra ári jukust tekjur bankans um rúm 12%. Kostnaðarhlutfall fyrir árið í heild var 41,6%, en eitt af fjárhagslegum markmiðum bankans er að hlutfallið sé lægra en 45%. Á árinu hægðist á útlánavexti frá fyrra ári, en vöxtur nam 3,0% á ársgrundvelli. Hátt vaxtastig hefur klárlega áhrif þar. Innlán til viðskiptavina jukust um 60,8 milljarða króna eða um 7,7%.

Lausafjárstaða bankans er sterk og vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Eiginfjárhlutföll eru jafnframt há og töluvert umfram lágmarkskröfur eftirlitsaðila og það er áframhaldandi verk stjórnenda að besta samsetningu efnahags bankans.

Áskoranir í íslensku samfélagi voru miklar í lok árs 2023 þegar jarðhræringar við Grindavík gerðu vart við sig. Mikill samhugur hefur verið hjá þjóðinni allri með Grindvíkingum, sem hafa þurft að búa við mikla óvissu um heimili sín og samfélag. Íslandsbanki hefur lagt sig fram við að styðja við bakið á viðskiptavinum sínum á svæðinu, meðal annars með frystingu lána og niðurfellingu vaxta og verðbóta. Bankinn mun áfram fylgjast vel með stöðu mála og vera í virku samtali við viðskiptavini sína.

Þakkir til starfsfólks og viðskiptavina

Ég þakka starfsfólki bankans fyrir afar góð störf og fagmennsku í þeim verkefnum sem mættu okkur á árinu 2023. Það veitti mér mikinn innblástur að sjá samtakamáttinn meðal starfsfólks þegar það sneri bökum saman um mitt sumar, staðráðið í að endurbyggja traust hjá almenningi og viðskiptavinum.

Þegar upp er staðið getum við verið stolt af árangri bankans á árinu. Starfsfólk Íslandsbanka leggur sig fram um að veita viðskiptavinum bankans afburða þjónustu og hafa að leiðarljósi gildi Íslandsbanka um eldmóð, samvinnu og fagmennsku.

Við í Íslandsbanka þökkum viðskiptavinum okkar kærlega fyrir viðskiptin á árinu og hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs. Bankinn leggur metnað sinn í að standa með viðskiptavinum sínum þegar erfiðleikar herja á og við fundum svo sannarlega fyrir því á árinu að það gildir í báðar áttir og kunnum við viðskiptavinum okkar miklar þakkir fyrir þann stuðning.

Það eru spennandi tímar framundan í íslensku efnahagslífi. Bankinn stendur styrkum fótum, er með skýra stefnu og er tilbúinn sem fyrr til að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi.